Viðtal við dýralækni landsliðsins

8. júlí 2025

Í síðustu viku og um helgina fór fram dýralæknaskoðun á þeim hestum og knöpum sem taldir eru líklegastir til að skipa lið Íslands á heimsmeistaramótinu í Sviss. Nokkuð margir voru kallaðir í skoðun og mátti greinilega skynja eftirvæntingu og spennu. Liðið verður tilkynnt miðvikudaginn 9. júlí, EiðfaxiTv verður með beina útsendingu frá viðburðinum.


Það er dýralæknir landsliðsins, Matthias Rettig, sem sér um skoðanirnar. Hann starfar að jafnaði í Þýskalandi þar sem hann rekur stóra dýralæknastofu skammt frá Frankfurt. Matthias hefur sérhæft sig í hestadýralækningum með áherslu á greiningu á helti og skurðlækningar. Sem dýralæknir landsliðsins skoðar hann hestana vel fyrir mót og tryggir að allur búnaður sem fylgir þeim standist kröfur auk þess að sjá um þá flóknu pappírsvinnu sem liggur að baki því að senda hesta á HM. Íslenski hesturinn hefur sannarlega verið vendipunktur í hans lífi og við ákváðum því að heyra í honum og kynnast honum örlítið betur.


Hvernig vill það til að þýskur dýralæknir myndi svo sterk tengsl við land og þjóð?


„Fjölskyldan mín eignaðist fyrsta íslenska hestinn þegar ég var þriggja ára, systir mín sem er árinu eldri en ég var að glíma við bakvandamál og læknarnir ráðlögðu foreldrum okkar að senda hana í sund eða á hestbak. Það fór þannig að við fengum sundlaug í garðinn og fljótlega vorum við einnig komin með tvo Íslenska hesta þá Kembing og Ritschi, báðir ræktaðir í Þýskalandi. Það varð fljótt ljóst að tveir hestar dugðu ekki fyrir alla fjölskylduna og stóðið stækkaði sem og áhugi okkar á þessu frábæra hestakyni sem við völdum út frá skapgerð og því hversu fjölskylduvæn íslandshestamennskan er.“


„Árið 1993 fórum við fjölskyldan til Íslands í viku reiðtúr um Borgarnes með Benna Þorbjörnssyni. Þessi ferð varð upphafið af djúpstæðum tengslum við Ísland og íslenska hestamennsku. Foreldrar mínir eru mjög metnaðarfull og fengu snemma áhuga á að rækta Íslenska hesta. Í framhaldi af þessari ferð hittu þau Didda (Sigurbjörn Bárðarson) og keyptu af honum hestinn Kolskegg frá Ásmundarstöðum. Þetta var fyrsti alvöru keppnishesturinn minn og ég lærði ótrúlega mikið af honum.“


„Tengslin við Ísland dýpkuðu bara og ég hef fengið að kynnast mörgum frábærum hestamönnum Siggi Matt var til að mynda mikið hjá okkur út í Þýskalandi og ég lærði margt af honum. Á unglings árunum varði ég svo sumarfríunum mínum á Íslandi og var þá hjá Didda og fjölskyldunni hans við þjálfun og tamningar. Það má því segja að ég hafi fengið úrvalstækifæri til að verða alvöru keppnisknapi en þetta dugði ekki til og ég varð að halda mig við það sem hafði í raun legið fyrir alla tíð, að verða dýralæknir, eins og foreldrar mínir.“

Frá knapa til dýralæknis


Matthias stundaði nám í Búdapest og München, lauk því árið 2009 og starfaði síðan í Kentucky í Bandaríkjunum, Bretlandi og sem yfirdýralæknir við háskólaspítalann í Berlín. Fyrir sex og hálfu ári stofnaði hann eigin dýralæknastofu milli Kölnar og Frankfurt þar sem nú starfa 14 dýralæknar og 40 starfsmenn. Hann er alþjóðlega löggiltur hestadýralæknir og starfar einnig sem dýralæknir á vegum FEI og í kírópraktík. En hvernig varð hann hluti af landsliðsteyminu?


„Þegar Diddi hafði samband við mig og bauð mér að verða hluti af Íslenska landsliðsteyminu varð ég mjög stoltur og upplifði það sem mikinn heiður. Á þessum tímapunkti var ég að starfa fyrir þýska landsliðið en ég þurfti ekki að hugsa mig lengi um. Ég hafði alltaf haldið sambandi við Didda, enda var hann mér góður leiðbeinandi, fyrirmynd og vinur þegar ég var að vaxa úr grasi. Ég hef lært mikið af honum og dáist af þeim árangri sem hann hefur náð og er enn að ná.“


„Ég er heillaður af Íslenska hestinum sem er svo yfirvegaður miða við margar aðrar tegundir, þeir hafa sérstakan anda og nærveru einkum þegar þeir alast upp í íslenskri náttúru. Þeir eru fullkomnir íþróttahestar, fjölskylduhestar, vinir og félagar – það gerir þá svo sérstaka og það að fá að vera hluti af landsliðsteymi Ísland er mér mjög kært.“


,,Áður en að hestur fer úr landi þarf hann að undirgangast læknisskoðun, en það eru einnig mjög strangar heilsufarskröfur gerðar á mótinu sjálfu og þar fer hesturinn líka í skoðun af dýralæknum mótsins. Sem dýralæknir landsliðins legg ég mikinn metnað í að fylgja hestunum vel eftir. Við viljum tryggja sem best við getum að hestarnir sem fara héðan séu ekki að glíma við meiðsl eða veikindi og því fá þeir nákvæma skoðun áður en þeir eru tilkynntir inn sem hluti af liðinu. Þá er líka að ýmsu að huga á mótsstað þar sem hesturinn er kominn í nýtt umhverfi eftir langt ferðalag. Hestarnir eru til að mynda mældir á hverjum degi til að hægt sé að fylgjast með líkamshita þeirra. Þá þarf að passa að öll krem, sprey, fóður og annað slíkt sem notað er á staðnum eins og t.d. flugnasprey innihaldi ekki efni sem eru bönnuð í keppni.

Hvaða áhrif hefur þetta haft á tengsl þín við Ísland og framtíðar plön?


„Þetta hefur orðið til þess að tengsl mín við Ísland eru orðin enn sterkari, ég kem reglulega hingað vegna undirbúnings fyrir stórmót, en einnig til þess að vera hér í fríi með fjölskyldunni. Nýlega keyptum við smá land þar sem við ætlum að byggja okkur lítið hús. Ísland er ekki bara vinnustaður heldur líka okkar annað heimili. Eftir Heimsmeistaramótið ætla ég að koma og dvelja hér með konunni minni og syni okkar og taka þátt í Reykjarvíkurmaraþoninu. “


„Ég var svo heppinn sem ungur knapi að fá að læra af bestu knöpum Íslands. Kannski hafði ég ekki næga hæfileika til að verða atvinnuknapi – en ég fann mína leið sem dýralæknir. Hestar eru enn miðpunktur alls sem ég geri og ég reyni að njóta þess að fara í hnakkinn þegar tími gefst til.“


En stefnir þú á að starfa á Íslandi?


„Ég er með leyfi frá MAST og gæti unnið sem dýralæknir á Íslandi, þó ég hafi ekki búnað hér eins og er. En hver veit? Kannski einn daginn. Aldrei segja aldrei!“



Við þökkum Matthias fyrir spjallið og óskum honum og liðinu öllu góðs gengis á HM.


Fréttasafn

9. október 2025
Hæfileikamótun LH er fyrir krakka á aldrinum 14-17 ára, fædd 2009-2012
7. október 2025
Valnefnd óskar eftir keppnisárangri ræktunarbúa
6. október 2025
Ragnar Tómasso n lögfræðingur og hestamaður lést 28. september á hjúkrunarheimilinu Sóltúni, 86 ára að aldri. Ragnar hlaut heiðursverðlaun Landssambands hestamannafélaga árið 2013. Ragnar var mikill hestamaður og sinnti ýmsum félagsstörfum vegna þess áhugamáls allt frá árinu 1972. Hann var m.a. formaður íþróttadeildar Fáks, átti sæti í stjórn íþróttaráðs Landssambands hestamanna, var liðsstjóri íslenska landsliðsins á Evrópumóti í hestaíþróttum í Svíþjóð árið 1985 og var um tíma dómari í hestaíþróttum. Þá vann hann að skipulagningu unglingastarfs hjá nokkrum hestamannafélögum. Ragnar átti jafnframt sæti í stjórn ÍFA, Íþrótta fyrir alla, og hóf baráttu fyrir eflingu líkamsræktar með maraþonhlaupi árið 1990. Var hann hvatamaður og aðstoðarmaður við gerð þáttanna Hristu af þér slenið, sem sýndir voru á RÚV árið 1991. Ritaði hann samnefnda bók tveimur árum síðar og sömuleiðis skrifaði hann fjölda greina í hestatímaritið Eiðfaxa. Ragnar fæddist í Reykjavík 30. janúar 1939 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Tómas Pétursson stórkaupmaður og Ragnheiður Einarsdóttir, lengi formaður Hringsins. Ragnar lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands 1959, embættisprófi í lögfræði 1965 og stundaði nám í Business School við Kaliforníuháskóla árið 1966. Hann opnaði málflutningsskrifstofu í Reykjavík sama ár og hóf nokkru síðar rekstur Fasteignaþjónustunnar og starfaði einkum við sölu fyrirtækja og samningaráðgjöf fyrir fyrir tæki í tengslum við samruna og fleira því tengt. Þau hjónin, Ragnar og Dagný Ólafía Gísladóttir, ráku saman um tíma sokkaverksmiðju, voru með umboð fyrir Polaroid-filmur og -myndavélar, fluttu inn innréttingar og baðtæki og ráku Jarlinn skyndibitastað ásamt fjölskyldu sinni. Dagný Ólafía lést árið 2016. Börn þeirra eru Ragna Þóra, f. 1964, Tómas, f. 1965, d. 2010, Dagný Ólafía, f. 1968, og Arnar Þór, f. 1972. Barnabörnin eru 12 talsins og langafabörnin 14. Landssamband hestamannafélaga vottar fjölskyldu Ragnars innilega samúð og þakkar Ragnari fyrir ómetanleg störf sín í þágu hestaíþrótta. Minningin um góðan hestamann lifir.
30. september 2025
Sigurbjörn Eiríksson er nýr formaður landsliðsnefndar LH
25. september 2025
Dagur þjálfarans
10. september 2025
Dagana 21. til 23. nóvember nk. verður haldið leiðtoganámskeið FEIF sem ætlað er ungmennum á aldrinum 18-26 ára. Námskeiðið er á vegum Danska Íslandshestasambandsins (DI) og er haldið í Gringdsted Landbúnaðarskólanum í Billund í Danmörku. Yfirskrift námskeiðsins er „Fighting Fit – Conflict, Fitness & Teamwork in Action“ og markmiðið er að hvetja ungmenni til að taka þátt í félagsstörfum í hestamennsku og að þátttakendur efli færni sína sem leiðtogar. Aðalfyrirlesarar verða Rebekka Hyldgaard, sjúkraþjálfari, sem fjallar um hvernig líkamsþjálfun getur bætt árangur í reiðmennsku, og Professor Janne Winther Christensen frá Aarhus University sem fjallar um nýjustu rannsóknir um „ animal conflict behaviour “. Þátttaka í viðburði sem þessum gefur frábæra reynslu, skapar tengsl og styrkir þátttakendur til frekari leiðtoga og ábyrgðarstarfa innan hestamannafélaganna. Við hvetjum hestamannafélögin til að hvetja fulltrúa sína til þátttöku á þessu námskeiði og minnum á mikilvægi þess að efla ungt fólk til þátttöku í nefndum og störfum innan félaganna til að efla nýliðun ásamt því að móta leiðtoga framtíðarinnar. Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna á heimasíðu FEIF. Umsóknarfrestur er 15. október 2025 . Námskeiðið hefst föstudaginn 21. nóvember kl 16:00 og endar sunnudaginn 23. nóvember kl 13:00. Kostnaður er 200€ og innifalið í því er gisting, matur og fræðsla.
10. september 2025
Landssamband hestamannafélaga auglýsir til umsóknar eftirfarandi mót: · Íslandsmót fullorðinna og ungmenna 2028 · Íslandsmót barna og unglinga 2028 · Íslandsmót í gæðingalist 2026 (innanhússmót sem haldið skal fyrir 15. maí) · Áhugamannamót Íslands 2026 Dagsetningar mótanna eru ákveðnar í samráði við mótshaldara og að teknu tilliti til dagsetninga annarra móta. Á Íslandsmóti fullorðinna og ungmenna er keppt í íþróttakeppni í efsta styrkleikaflokki þar sem keppendur eru einir inni á vellinum í einu. Á Íslandsmóti barna og unglinga er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni. Á Íslandsmóti í gæðingalist er keppt í öllum aldursflokkum og skal mótið haldið fyrir 15. maí 2026. Á Áhugamannamóti Íslands er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni í 1., 2. og 3. flokki. Umsóknir áhugasamra mótshaldara skulu berast Landssambandi hestamannafélaga fyrir 1. október nk. á netfangið lh@lhhestar.is .
14. ágúst 2025
Hörður Hákonarson hestamaður og alþjóðlegur hestaíþróttadómari í Reykjavík er látinn.
13. ágúst 2025
Til hamingju Ísland með frábært landslið
13. ágúst 2025
Úrslit í fjórgangi & fimmgangi
Lesa meira