Landslið Íslands verður kynnt á morgun

Landslið Íslands í hestaíþróttum verður kynnt á morgun kl 15:00 og verður hægt að fylgjast með í beinni útsendingu á EiðfaxaTv
Að venju ríkir mikil eftirvænting og hafa Landsliðsþjálfaranir lagt mikla vinnu í að setja saman liðin, um helgina fór svo fram dýralæknaskoðun, auk þess sem knaparnir mátuðu keppnis og æfingafatnað. Allur fatnaður knapa og teymis er styrktur af Topreiter og Lífland.

Þjálfarar landsliðsins verða í viðtali á Rás 2 í fyrramálið klukkan 9:30 og þar munu þau gefa innsýn inn í hvað þarf að hafa í huga þegar landsliðið er valið.
Við hleruðum þjálfarana aðeins í morgun og þá sagði Hekla Katharína: ,,Það hefur verið mjög spennandi að fylgjast með hópnum á keppnistímabilinu, það hafa verið mikilar framfarir hjá mörgum knöpum á milli móta og árangurinn þannig að margir eigi fullt erindi á mótið, þó einungis fáir fái að fara."
Sigurbjörn tók undir þetta og sagði samkeppnina hérna heima vera mikla og margir frábærir knapar sem þrátt fyrir allt eru ekki í hópnum. ,,Þetta er flókið ferli og margt sem þarf að ganga upp, svo að knapi og hestur fari út og keppi fyrir Íslands hönd.”
Þau segja að samstarfið í kringum valið hafi gengið ákaflega vel og vilja koma á framfæri þakklæti til mótshaldara sem hafa tekið vel á móti þeim, þar sem þau hafa komið og fylgst með knöpunum í sumar.
En hvernig er að vera í þessu hlutverki að tilkynna knöpum að þeir séu í hópnum?
,,Það er ákaflega gaman að hringja og tilkynna knöpum að þeir séu á leið á Heimsmeistaramót, þetta er auðvitað eitthvað sem flesta dreymir um og er uppskera gífurlegra vinnu. En þau eru að sama skapi erfið hin símtölin, þegar knapi sem var kominn með fingur á farseðilinn fær fregnir um að hann verði eftir heima, þrátt fyrir að eiga í raun fullt erinda á mótið.” Segir Hekla Katharína.

Fréttasafn











