Gunnar Arnarson ehf hefur flutt hesta á HM í 40 ár

12. júní 2025

Að fara með hesta á Heimsmeistaramót er stórt verkefni og að mörgu að huga, en eitt er það sem er allra mikilvægast og það er að koma hestunum frá Íslandi og á mótsstað erlendis.


Frá árinu 1986 hefur Gunnar Arnarson ehf aðstoðað Landssamband hestamannafélaga við útflutning á hestum sem eru á leið á stórmót erlendis. Gunnar Arnarson ehf hefur styrkt LH um kostnað sem hlýst af umsýslu við útflutninginn auk þess að gefa Landsliðinu fjölda folatolla í gegnum árin.

Við spjölluðum við Kristbjörgu Eyvindsdóttur en hún hefur ásamt manni sínum Gunnari Arnarsyni rekið fyrirtæki Gunnar Arnarson ehf frá árinu 1980. Þau rækta hross sem þau kenna við Auðsholtshjáleigu. Á Grænhól þar sem þau búa eru stundaðar tamningar, hrossarækt, þjálfun, kennsla og ferðaþjónusta.


Hvernig kom það til að þið fóruð að flytja út hesta?


„Þetta byrjar í raun þannig að við vorum að temja hesta, kaupa og selja. Á þessum árum var útflutningur hesta á vegum Sambandsins (SÍS). Hestar voru fluttir út tvisvar á ári með vor- og haustskipinu. Þetta gat þýtt að það leið langur tími frá því að hestur var seldur og þar til að hann komst til nýrra eigenda. Hesturinn tók þá pláss frá öðrum sem þurftu að komast í þjálfun og þannig myndaðist í raun pattstaða sem var erfið fyrir þá sem voru að reyna að lifa af þjálfun og sölu hesta.“

Og þið ákváðuð að taka málin í eigin hendur?


„Við vorum stórhuga þegar við fórum að skoða möguleikana á því að flytja út hesta flugleiðis og mættu þær hugmyndir nokkurri mótspyrnu, því það leist ekki öllum vel á að við tækjum hestaútflutninginn frá skipunum. Flutningur með skipum gat tekið viku til tíu daga og það segir sig sjálft að það voru ekki endilega góðar aðstæður fyrir hestana."


„Við lögðum töluvert á okkur til að fá leyfi fyrir útflutningi með flugi, það gekk ekki alltaf auðveldlega fyrir sig, sérstaklega þegar verið var að koma þessu á.  Endaði það með því að leita varð til ráðherra Matthías Á. Mathiesen þáverandi viðskiptaráðherra til að fá nauðsynlegar undirskriftir. Fjármagna varð vélarnar sem voru á þessum tíma leiguvélar og urðum við að leggja allt okkar að veði til þess að af þessu yrði."


En það hefur sennilega margt breyst á þessum árum?


„Já svo sannarlega, í dag eru allir ferlar í kringum útflutninginn orðnir svo mikið betri og aðstæður fyrir hestana líka. Þá spilar inn í að hestar sem eru að fara í útflutning eru nú orðið yfirleitt alltaf mun vanari allri meðhöndlun, mikið meira tamdir og því ekki sami barningurinn og oft hér áður þegar það voru jafnvel lítið gerð og lítið tamin hross á leiðinni út, það gat alveg verið skrautlegt.“


„Boxin sem hestarnir eru í henta vel til útflutnings og rúma hestana vel, það fer vel um þá á leiðinni og þetta eru alla jafna hestar sem eru vanir því að vera fluttir með kerrum og því kannski ekki stórmunur fyrir þá þannig séð.“

Sjáið þið einungis um að koma hestunum í flug?


„Nei nei, við aðstoðum með allt sem við kemur útflutningi á hestum, allt frá því að sækja hestinn, koma hounum í flug,  sjá um alla pappírsvinnuna, sendum út pappíra til tollafgreiðslu, látum útbúa hestavegabréf, köllum til dýralækna, fyllum út upplýsingar fyrir „Trace“ (dýralæknisvottorð sem gildir milli landa) og aðstoðum við að undirbúa hestinn fyrir flug. Tökum hestinn til okkar í hesthús okkar í Víðidal þar sem dýralækniseftirlit og skoðanir eru framkvæmdar. Við aðstoðum líka hesteigendur að komast í samband við næstu flutningsaðila ef þarf.“


„Þegar hestar eru svo á leiðinni á HM er enn og meira undir. Þá hefur vaninn verið á að knapar og hestar koma til okkar að Grænhól þar sem dýralæknir landsliðsins fer yfir hestana, auk þess sem embættisdýralæknir hefur mætt og sinnt sínu eftirlit og kvittað hestapassana.  Hestarnir þurfa að standast mjög strangar heilsufarskröfur á mótsstað þannig að vanda þarf til verka. Hér höfum við átt góða stund með knöpum yfir kaffi og öðrum veitingum meðan skoðunin fer fram og lokahönd lögð á ýmislegt sem tengist pappírsvinnunni er varðar útflutninginn. Stundum hefur búnaði sem fylgja þarf hestunum, hnakkar, beisli, fóðurbætir ofl. verið safnað saman í leiðinni og síðan hefur komið bíll frá Icelandair Cargo og flutt þetta áfram út á völl.  Oft erum við að flytja hesta á HM fyrir fólk sem hefur aldrei staðið í þessu áður og þá þarf að svara mörgum spurningum og sýna mikinn stuðning því þetta getur verið stressandi og oft líka mjög tilfinningaþrungið að undirbúa hest fyrir brottför.“

Hvernig er ferðalagið til Sviss?


„Á ferðadegi, koma knaparnir með hestana sína upp á flugvöll stuttu fyrir flug, við reynum að skipuleggja þetta allt þannig að álagið sé sem minnst á hestana. Fyrir flugið þarf að teipa hófana eftir kúnstarinnar reglum og koma þar ullarsokkarnir frægu við sögu, Hestarnir fara járnaðir um borð, ólíkt því sem við á við hefðbundinn útflutning en þá er búið að draga undan hestunum. Flugið til Belgíu tekur um þrjár klukkustundir, við komuna þangað fara hestarnir inn í rúmgóðar stíur þar sem þeim er gefið vatn og hey og þeim leyft að jafna sig eftir flugið. Nokkrir knapar fylgja hestunum á þessari leið og sjá um þá þar til þeir komast á mótssvæðið.“


„Nú þegar ferðinni er svo heitið til Sviss, bætist við að tolla hestana við svissnesku landamærin, þar er mikil skriffinnska og ekki eins þægilegt ferli og þegar verið er að flytja hesta innan Evrópusambandsins. En það er allt vel undirbúið svo hestarnir komst í gegnum tollinn á sem skemmstum tíma, á afangastað. Þetta er nú samt minna álag miðað við hvernig þetta var hér áður þegar hestarnir voru að mæta eftir margra daga siglingu á stórmót.“



„Við höfum svo fylgt hestunum eftir og látum okkur aldrei vanta á Heimsmeistaramótið, sem er alveg sérstök upplifun. Þar hittir maður fólk úr greininni sem maður hefur tengst vináttuböndum í gegnum árin og það er alltaf ótrúlega skemmtilegt.“

Við þökkum Kristbjörgu kærlega fyrir spjallið og þeim hjónum hjá Gunnari Arnarsyni ehf fyrir þann ómetanlega stuðning sem þau hafa sýnt landsliðinu í gegnum árin. Á heimasíðunni þeirra www. horseexport.is er hægt að kynna sér starfssemi þeirra enn betur.


Við þökkum Kristbjörgu kærlega fyrir spjallið og þeim hjónum hjá Gunnari Arnarsyni ehf fyrir þann ómetanlega stuðning sem þau hafa sýnt landsliðinu í gegnum árin.


Á heimasíðunni þeirra www. horseexport.is er hægt að kynna sér starfssemi þeirra enn betur.

Fréttasafn

10. september 2025
Dagana 21. til 23. nóvember nk. verður haldið leiðtoganámskeið FEIF sem ætlað er ungmennum á aldrinum 18-26 ára. Námskeiðið er á vegum Danska Íslandshestasambandsins (DI) og er haldið í Gringdsted Landbúnaðarskólanum í Billund í Danmörku. Yfirskrift námskeiðsins er „Fighting Fit – Conflict, Fitness & Teamwork in Action“ og markmiðið er að hvetja ungmenni til að taka þátt í félagsstörfum í hestamennsku og að þátttakendur efli færni sína sem leiðtogar. Aðalfyrirlesarar verða Rebekka Hyldgaard, sjúkraþjálfari, sem fjallar um hvernig líkamsþjálfun getur bætt árangur í reiðmennsku, og Professor Janne Winther Christensen frá Aarhus University sem fjallar um nýjustu rannsóknir um „ animal conflict behaviour “. Þátttaka í viðburði sem þessum gefur frábæra reynslu, skapar tengsl og styrkir þátttakendur til frekari leiðtoga og ábyrgðarstarfa innan hestamannafélaganna. Við hvetjum hestamannafélögin til að hvetja fulltrúa sína til þátttöku á þessu námskeiði og minnum á mikilvægi þess að efla ungt fólk til þátttöku í nefndum og störfum innan félaganna til að efla nýliðun ásamt því að móta leiðtoga framtíðarinnar. Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna á heimasíðu FEIF. Umsóknarfrestur er 15. október 2025 . Námskeiðið hefst föstudaginn 21. nóvember kl 16:00 og endar sunnudaginn 23. nóvember kl 13:00. Kostnaður er 200€ og innifalið í því er gisting, matur og fræðsla.
10. september 2025
Landssamband hestamannafélaga auglýsir til umsóknar eftirfarandi mót: · Íslandsmót fullorðinna og ungmenna 2028 · Íslandsmót barna og unglinga 2028 · Íslandsmót í gæðingalist 2026 (innanhússmót sem haldið skal fyrir 15. maí) · Áhugamannamót Íslands 2026 Dagsetningar mótanna eru ákveðnar í samráði við mótshaldara og að teknu tilliti til dagsetninga annarra móta. Á Íslandsmóti fullorðinna og ungmenna er keppt í íþróttakeppni í efsta styrkleikaflokki þar sem keppendur eru einir inni á vellinum í einu. Á Íslandsmóti barna og unglinga er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni. Á Íslandsmóti í gæðingalist er keppt í öllum aldursflokkum og skal mótið haldið fyrir 15. maí 2026. Á Áhugamannamóti Íslands er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni í 1., 2. og 3. flokki. Umsóknir áhugasamra mótshaldara skulu berast Landssambandi hestamannafélaga fyrir 1. október nk. á netfangið lh@lhhestar.is .
14. ágúst 2025
Hörður Hákonarson hestamaður og alþjóðlegur hestaíþróttadómari í Reykjavík er látinn.
13. ágúst 2025
Til hamingju Ísland með frábært landslið
13. ágúst 2025
Úrslit í fjórgangi & fimmgangi
10. ágúst 2025
Þvílíkur morgunn!!!
10. ágúst 2025
Þá eru B-úrslitum lokið og ljóst hvaða keppendur bæta sér í toppbaráttuna í hverjum flokki.
10. ágúst 2025
Kristján Árni tvöfaldur heimsmeistari
9. ágúst 2025
Kristján Árni - Heimsmeistari
8. ágúst 2025
Niðurstöður úr kynbótasýningum sjö vetra og eldri hrossa
Lesa meira