Landsliðsþjálfarar fylgjast grannt með á Reykjarvíkurmóti

14. júní 2025

Nú fer fram Reykjavíkurmeistaramót Fáks. Mótið er stærsta hestaíþróttamót sem haldið hefur verið á Íslandi, en fjöldi skráninga voru yfir þúsund. Við brautina sitja landsliðsþjálfarar Íslands, Hekla Katharína Kristinsdóttir og Sigurbjörn Bárðarson, og fylgjast náið með keppendum sem eru líklegir til að ná árangri – ekki aðeins hér heima, heldur einnig á stærsta sviðinu, HM í hestaíþróttum.

Við ræddum við Didda og Heklu, þar sem þau voru stödd við brautina að fylgjast með.


,,Hér erum við komin til að leggja drög að lokahópnum. Við viljum sjá knapana sem eru að keppa og  hvað þau eru að gera til að skapa tölurnar sem þau eru að fá, viljum sjá hvernig knaparnir eru að vinna og tryggja það  að þetta sé nákvæmlega sem við erum að leita eftir. Við þurfum að sjá og meta það í fari hvers pars hvar vinningslíkurnar liggja. Við getum ekki valið út frá tilviljunarkenndum árangri heldur verðum við að reyna að velja knapa sem eru öruggir í sínu og eru líklegastir til að geta fylgt eftir góðum árangri erlendis, þegar þeir mæta á stóra sviðið.“ Segir Diddi.


En nú hafði þið þegar valið í landsliðshóp, eru þessir einstaklingar komnir með annan fótinn á HM?


„Nei, það er enginn sem á víst sæti á HM þrátt fyrir að vera í landsliðshóp. Hér getur það gerst að það kemur einhver og blandar sér í baráttuna án þess að við höfum verið að fylgjast sérstaklega með viðkomandi fyrir þetta mót. Við erum algjörleg með opin augun fyrir slíkum möguleika.“ Segir Diddi og Hekla bætir við: ,,Þetta er WR mót og það stærsta sem haldið er í heiminum og hingað koma allir sterkustu hestarnir og mætast við bestu aðstæður sem mögulegar eru. Hér fáum við því nauðsynlegan samaburð, en það er allt opið fram yfir Íslandsmót, en þetta er eitt þessara stóru móta sem skipta máli í þessu vali.“


Diddi tekur orðið og bætir við: ,,Þeir sem eru í eldlínunni þeir vita af okkur, vita að við erum að fylgjast með þeim. Við höfum líka jafnvel lagt til við suma knapa að skrá sig í fleiri greinar þar sem við viljum sjá víðfemari árangur og samanlagðar einkunnir sem gefur okkur ákveðnar vísbendingar.“


En hvernig hefur vikan og helgin verið, er árangur knapa eins og þið áttuð von á?


„Sumt er eins og við höfðum teiknað upp og annað hefur farið á annan veg en við höfðum reiknað með. En núna erum við að skoða heildarmyndina og sjá hverjir eru með flott útspil. Við Hekla vinnum vel saman og ræðum hlutina og við sitjum mikið saman á rökstólum og það eru mörg trúnaðarmál sem fara þar í gegn. Við  berum ábyrgð á valinu og stöndum saman í þessu.“ Segir Diddi og Hekla tekur undir og bætir við: „Okkar hlutverk er náttúrulega að stilla upp sterku liði til að ná sem flestum titlum. Eftir Reykjarvíkurmót tökum við bara stöðuna og sjáum hvernig þetta lítur út en lokaákvarðanir eru allar teknar eftir Íslandsmót, þetta mót vegur alveg, við viljum sjá að pörin séu á góðu floti og árangur sé vaxa í rétta átt, því hestarnir þurfa að toppa á Íslandsmóti og svo jafnvel aftur á Heimsmeistaramóti. Þetta er auðvitað flókið ferli en mjög spennandi. Tilfinningin er góð, það er margt áhugavert að gerast sem gaman er að fylgjast með en á heildina litið lítur þetta vel út.“


En knaparnir, leita þeir mikið til ykkar?


Ég get náttúrulega bara talað út frá U21 en þau eru dugleg að hafa samband og biðja um aðstoð og þeim stendur það alltaf til boða en að endingu er þetta þeirra og þau þurfa að standa og falla með sínum ákvörðunum.“ Segir Hekla.

„Já, hlutverk þjálfarans er bara að koma með tipsin þetta eru allt frábærir knapar og hestar og við erum að velja þau út á sína verðleika og við erum bara að koma með smá punkta og ábendingar. Sem geta hjálpað en það er ekki beint kennsla.  Það er kúnstin að fara ekki breyta knapa sem er góður. Bara árétta hluti.“ Segir Diddi.


„Einmitt,“ segir Hekla og heldur áfram: ,,Og eins og ég hef ítrekað við U21 hópinn minn, að bara njóta ferðalagsins, maður á njóta þess að sýna sig á góðum hesti og maður sér það á vellinum hverjir eru að njóta. Það þarf að sjálfsögðu allt að vera til staðar en þegar knapi er að njóta en er á sama tíma einbeittur þá gerast hlutirnir. En ég vil líka koma því að hvað þetta er flott mót, vellirnir til fyrirmyndar og allt eins og best verður á kosið. Mótshaldarar eiga sannarlega lof skilið fyrir frábært mót og utanumhald.“


,,Já ég verð að taka undir orð Heklu þetta mót hér í Fáki er alveg frábært og það hefur verið virkilega að fylgjast með keppendum hér og við hlökkum til að sjá framhaldið.“ Segir Diddi.


Við óskum þessu frábæru þjálfurum góðs gengis við val á lokahópnum!



Fréttasafn

30. október 2025
Sigvaldi Lárus Guðmundsson yfirþjálfari Hæfileikamótunar LH næstu tvö árin
27. október 2025
Keppnishestabú ársins verða heiðruð á Uppskeruhátíð hestafólks
27. október 2025
Uppskeruhátíð hestafólks fer fram í Gamla Bíó laugardaginn 8. nóvember nk., þar sem hestafólk af landinu öllu kemur saman til að fagna frábæru keppnisári og heiðra þá sem skarað hafa fram úr. Kvöldið verður í senn hátíðlegt og skemmtilegt. Veitingar verða í höndum LÚX veisluþjónustu, sem býður upp á dýrindis mat í takt við hátíðlega stemninguna í Gamla Bíó. Knapar ársins í hverjum flokki verða verðlaunaðir ásamt keppnishestabúi ársins og hljóta glæsilega verðlaunagripi úr smiðju Inga í Sign. Að loknum kvöldverði og öðrum hefðbundnum dagskrárliðum mun Stuðlabandið halda uppi fjörinu fram eftir nóttu og tryggja alvöru partýstemningu. Miðasala fer fram í vefverslun LH - takmarkaður fjöldi sæta í boði!! Sjáumst 8.nóvember í Gamla bíó!
24. október 2025
Íslandsmót 2026 haldið 17. til 21. júní hjá Sörla
23. október 2025
Knapar ársins verða heiðraðir á Uppskeruhátíð hestafólks
22. október 2025
Viðtal við nýjan formann Landsliðsnefndar um afreks- og landsliðsmál
22. október 2025
Þann 15. maí sl. staðfesti framkvæmdastjórn ÍSÍ úthlutunarreglur vegna kostnaðarþátttöku ungmenna í landsliðsverkefnum. Tilgangur reglnanna er að setja ramma um styrki til sérsambanda ÍSÍ vegna kostnaðarþátttöku ungmenna í landsliðsstarfi á vegum sérsambanda ÍSÍ í samræmi við Afreksstefnu ÍSÍ. Meginmarkmið styrkveitinganna er að styðja ungmenni fjárhagslega sem taka þátt í landsliðsstarfi á vegum sérsambanda ÍSÍ og þurfa að greiða kostnað vegna þátttökunnar að fullu eða að hluta. Einnig að jafna möguleika ungmenna á þátttöku í landsliðsstarfi sérsambanda ÍSÍ. LH sótti um styrk fyrir hönd þeirra sjö ungmenna sem fóru á HM sl. sumar og niðurstaðan varð sú að Afrekssjóður styrkir hvert og eitt þeirra um rúmar 200.000 kr. Styrkurinn er gríðarlega mikilvægur stuðningur við ungmennin okkar og mikil hvatning.  Er þetta hluti af því aukna fjármagni sem stjórnvöld hafa sett í Afrekssjóð á þessu ári og markar sú ákvörðun tímamót í allri umgjörð afreksíþrótta í heild sinni. Vonast er til að sambærilegt fjármagn verði til úthlutunar til sérsambanda úr Afrekssjóði til frambúðar.
17. október 2025
NICH - Nordic Icelandic Horse Collaboration
9. október 2025
Hæfileikamótun LH er fyrir krakka á aldrinum 14-17 ára, fædd 2009-2012
Lesa meira