Landsliðsþjálfarar fylgjast grannt með á Reykjarvíkurmóti

14. júní 2025

Nú fer fram Reykjavíkurmeistaramót Fáks. Mótið er stærsta hestaíþróttamót sem haldið hefur verið á Íslandi, en fjöldi skráninga voru yfir þúsund. Við brautina sitja landsliðsþjálfarar Íslands, Hekla Katharína Kristinsdóttir og Sigurbjörn Bárðarson, og fylgjast náið með keppendum sem eru líklegir til að ná árangri – ekki aðeins hér heima, heldur einnig á stærsta sviðinu, HM í hestaíþróttum.

Við ræddum við Didda og Heklu, þar sem þau voru stödd við brautina að fylgjast með.


,,Hér erum við komin til að leggja drög að lokahópnum. Við viljum sjá knapana sem eru að keppa og  hvað þau eru að gera til að skapa tölurnar sem þau eru að fá, viljum sjá hvernig knaparnir eru að vinna og tryggja það  að þetta sé nákvæmlega sem við erum að leita eftir. Við þurfum að sjá og meta það í fari hvers pars hvar vinningslíkurnar liggja. Við getum ekki valið út frá tilviljunarkenndum árangri heldur verðum við að reyna að velja knapa sem eru öruggir í sínu og eru líklegastir til að geta fylgt eftir góðum árangri erlendis, þegar þeir mæta á stóra sviðið.“ Segir Diddi.


En nú hafði þið þegar valið í landsliðshóp, eru þessir einstaklingar komnir með annan fótinn á HM?


„Nei, það er enginn sem á víst sæti á HM þrátt fyrir að vera í landsliðshóp. Hér getur það gerst að það kemur einhver og blandar sér í baráttuna án þess að við höfum verið að fylgjast sérstaklega með viðkomandi fyrir þetta mót. Við erum algjörleg með opin augun fyrir slíkum möguleika.“ Segir Diddi og Hekla bætir við: ,,Þetta er WR mót og það stærsta sem haldið er í heiminum og hingað koma allir sterkustu hestarnir og mætast við bestu aðstæður sem mögulegar eru. Hér fáum við því nauðsynlegan samaburð, en það er allt opið fram yfir Íslandsmót, en þetta er eitt þessara stóru móta sem skipta máli í þessu vali.“


Diddi tekur orðið og bætir við: ,,Þeir sem eru í eldlínunni þeir vita af okkur, vita að við erum að fylgjast með þeim. Við höfum líka jafnvel lagt til við suma knapa að skrá sig í fleiri greinar þar sem við viljum sjá víðfemari árangur og samanlagðar einkunnir sem gefur okkur ákveðnar vísbendingar.“


En hvernig hefur vikan og helgin verið, er árangur knapa eins og þið áttuð von á?


„Sumt er eins og við höfðum teiknað upp og annað hefur farið á annan veg en við höfðum reiknað með. En núna erum við að skoða heildarmyndina og sjá hverjir eru með flott útspil. Við Hekla vinnum vel saman og ræðum hlutina og við sitjum mikið saman á rökstólum og það eru mörg trúnaðarmál sem fara þar í gegn. Við  berum ábyrgð á valinu og stöndum saman í þessu.“ Segir Diddi og Hekla tekur undir og bætir við: „Okkar hlutverk er náttúrulega að stilla upp sterku liði til að ná sem flestum titlum. Eftir Reykjarvíkurmót tökum við bara stöðuna og sjáum hvernig þetta lítur út en lokaákvarðanir eru allar teknar eftir Íslandsmót, þetta mót vegur alveg, við viljum sjá að pörin séu á góðu floti og árangur sé vaxa í rétta átt, því hestarnir þurfa að toppa á Íslandsmóti og svo jafnvel aftur á Heimsmeistaramóti. Þetta er auðvitað flókið ferli en mjög spennandi. Tilfinningin er góð, það er margt áhugavert að gerast sem gaman er að fylgjast með en á heildina litið lítur þetta vel út.“


En knaparnir, leita þeir mikið til ykkar?


Ég get náttúrulega bara talað út frá U21 en þau eru dugleg að hafa samband og biðja um aðstoð og þeim stendur það alltaf til boða en að endingu er þetta þeirra og þau þurfa að standa og falla með sínum ákvörðunum.“ Segir Hekla.

„Já, hlutverk þjálfarans er bara að koma með tipsin þetta eru allt frábærir knapar og hestar og við erum að velja þau út á sína verðleika og við erum bara að koma með smá punkta og ábendingar. Sem geta hjálpað en það er ekki beint kennsla.  Það er kúnstin að fara ekki breyta knapa sem er góður. Bara árétta hluti.“ Segir Diddi.


„Einmitt,“ segir Hekla og heldur áfram: ,,Og eins og ég hef ítrekað við U21 hópinn minn, að bara njóta ferðalagsins, maður á njóta þess að sýna sig á góðum hesti og maður sér það á vellinum hverjir eru að njóta. Það þarf að sjálfsögðu allt að vera til staðar en þegar knapi er að njóta en er á sama tíma einbeittur þá gerast hlutirnir. En ég vil líka koma því að hvað þetta er flott mót, vellirnir til fyrirmyndar og allt eins og best verður á kosið. Mótshaldarar eiga sannarlega lof skilið fyrir frábært mót og utanumhald.“


,,Já ég verð að taka undir orð Heklu þetta mót hér í Fáki er alveg frábært og það hefur verið virkilega að fylgjast með keppendum hér og við hlökkum til að sjá framhaldið.“ Segir Diddi.


Við óskum þessu frábæru þjálfurum góðs gengis við val á lokahópnum!



Fréttasafn

9. desember 2025
Ísólfur Líndal Þórisson hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari A-landsliðs Íslands í hestaíþróttum
5. desember 2025
Alþjóðlegur dagur sjálboðaliða 5. desember
14. nóvember 2025
Form annafundur LH var haldinn laugardaginn 8. nóvember sl. Fundinn sóttu um áttatíu manns frá þrjátíu hestamannafélögum auk fulltrúa frá fastanefndum LH, dómarafélögunum og stjórn LH. Góðar og uppbyggilegar umræður urðu á fundinum sem stjórn LH tekur með sér í næsta starfsár og í undirbúning fyrir Landsþing 2026. Formaður LH, Linda Björk Gunnlaugsdóttir, fór í ræðu sinni yfir þau mál sem hafa verið fyrirferðarmest í starfsemi LH á árinu ásamt því að tæpa á helstu verkefnum sem framundan eru. Það eru mörg og umfangsmikil verkefni á borði stjórnar hverju sinni og hefur mikill tími farið fyrsta starfsárið hjá nýrri stjórn í að endurskipuleggja og hagræða í rekstri sambandsins. Afreksmálin eru alltaf fyrirferðarmikil á HM ári í verkefnum skrifstofu og stjórnar og eru afreksmálin á ákveðnum tímamótum núna þar sem samningar við landsliðsþjálfara eru lausir. Gjaldkeri LH, Ólafur Gunnarsson, fór yfir stöðu reikninga og uppfærðar fjárhagsáætlanir sem gera ráð fyrir á næstu tvö ár skili hagnaði en eins og áður kom fram hefur verið farið í hagræðingaraðgerðir á árinu í þeim tilgangi að snúa rekstri sambandsins til betri vegar. Starfshópar sem skipaðir voru skv. samþykkt landsþings 2024 kynntu sína vinnu frá landsþingi. Starfshópur um Íslandsmót telur ekki þörf á að gera breytingar á keppnishluta mótsins en leita þurfi leiða til að gera viðburðinn Íslandsmót að stærri viðburði fyrir áhorfendur. Starfshópur um innanhússmót lagði fram tillögu fyrir fundinn um haldið yrði 2ja til 3ja daga Íslandsmót innanhúss í lok innanhússkeppnistímabilsins 2026 til reynslu. Fundurinn vísaði tillögunni til stjórnar til nánari útfærslu og mun stjórn kalla til framhaldsfundar formanna til frekari umræðna. Æskulýðsbikar LH hlaut Hestamannafélagið Skagfirðingur og veittu yfirreiðkennari félagsins og formaður æskulýðsdeildar Skagfirðings bikarnum móttöku. Fulltrúar frá hestamannafélögunum Mána, Hring, Funa, Herði, Freyfaxa og Sleipni sögðu frá sínum verkefnum og helstu áskorunum. Voru það virkilega áhugaverðar frásagnir því flest hestamannafélög eru að eiga við svipaðar áskoranir þó aðstæður hjá hverju félagi séu mismunandi. Að loknum hefðbundnum fundarstörfum var fundinum skipt upp í þrjá umræðuhópa sem fjölluðu um stefnumótun, gjaldkerastörf og nýliðunar -og æskulýðsmál. Mikil umræða og góð vinna var í umræðuhópunum. Í hópnum um stefnumótum urðu mjög líflegar umræður og margir snertifletir ræddir á hinum ýmsu málum og ljóst að það er heilmikið að vinna úr í framhaldinu. Fundinum var skipt upp í sex minni hópa sem fjölluðu hver um sig um ákveðna þætti í starfsemi LH, hvaða markmið skuli setja og hvernig skuli ná þeim. Stefnumótunarfundurinn var framhald af opnum stefnumótunarfundi sem haldinn var sl. vor með fulltrúum hestamannafélaganna. Hópurinn um æskulýðs- og nýliðunarmál fjallaði um þátttöku stráka í hestamennsku, félagshesthús og almenna stöðu hjá félögunum. Margar hugmyndir komu upp og góðar umræður sköpuðust. Í gjaldkerahópnum var rætt um samskipti við sveitarfélög, fjármál hestamannafélaga, félög í almannaheilaskráningu og fyrirmyndafélög ásamt styrkjum til hestamannafélaga. Fjármál hestamannafélaganna eru almennt í góðum málum og faglega staðið að þeim en slíkt er algjör forsenda fyrir því að gott samtal geti átt sér stað við sveitarfélögin þegar kemur að styrkjamálum hins opinbera. Félögin voru einnig hvött til að skrá félagið á almannaheillaskrá en það er gott verkfæri þegar leitað er styrkja hjá almennum fyrirtækjum og veitir skattaafslátt á móti. Einnig voru félögin hvött til að hefju vinnu við að gerast fyrirmyndarfélag ÍSÍ og er það holl og góð vinna til að bæta starfshætti félagsins. Félög geta leitað til hvors annars um þau gögn sem þarf að skila og voru félögin hvött til að vinna þau saman. Samhliða formannafundi var haldinn mótanefndafundur sem um tuttugu manns sátu, en fyrirhugað er að halda framahaldsmótanefndafund um næstu mánaðamót til að ræða frekar mótadagskrá ársins. Stjórn LH þakkar formönnum hestamannafélaga í landinu og öðrum þátttakendum á formannafundi fyrir afar uppbyggilegar umræður sem munu nýtast vel á komandi starfsári. Skýrsla stjórnar LH 2024-2025
12. nóvember 2025
Ættingjar fyrsta heiðursfélaga LH afhentu LH viðurkenningarskjalið til varðveislu
11. nóvember 2025
Guðni Halldórsson og Kristinn Skúlason hlutu gullmerki LH
9. nóvember 2025
Haraldur Þórarinsson er heiðursverðlaunum LH sannarlega verðugur
9. nóvember 2025
Gott æskulýðsstarf er grunnurinn að framtíð hestamennskunnar
9. nóvember 2025
Á Uppskeruhátíð LH voru krýndir knapar ársins 2025 og keppnishestabú ársins valið. Að baki valinu er valnefnd sem er skipuðuð fjölbreyttum hópi og þar eiga fulltrúa stjórn LH, GDLH, HÍDÍ, FT og fjölmiðlar. Knapi ársins 2025 er Konráð Valur Sveinsson Konungur kappreiðanna á Íslandi þessi misserin er Konráð Valur, en hann átti frábært ár í skeiðgreinum. Konráð setti á árinu heimsmet í 250 m skeiði, hann er tvöfaldur Íslandsmeistari í skeiðkappreiðum, vann tvo Reykjavíkurmeistaratitla og er einnig samanlagður sigurvegari skeiðleika Skeiðfélagsins. Íþróttaknapi ársins 2025 er Ásmundur Ernir Snorrason Ásmundur varð Íslandsmeistari í fjórgangi og samanlögðum fjórgangsgreinum á Hlökk frá Strandarhöfði, samanlagður Íslandsmeistari í fimmgangsgreinum á Aski frá Holtsmúla ásamt því að sigra fjölda greina á Reykjavíkurmeistaramóti. Hann náði þeim eftirtektarverða árangri á Hlökk að ríða oftar en einu sinni yfir 9 í meðaleinkunn bæði í T1 og T2 á árinu. Skeiðknapi ársins 2025 er Konráð Valur Sveinsson Konráð setti á árinu heimsmet í 250 m skeiði á Kastor frá Garðshorni þegar þeir félagar hlupu sprettinn á 21,06 sek á Íslandsmótinu í sumar. Konráð er þar að auki Íslandsmeistari í 100 m skeiði og 250 m skeiði ásamt því að hafa sigrað sömu greinar á Reykjavíkurmeistaramótinu. Hann er einnig samanlagður sigurvegari skeiðleika Skeiðfélagsins og þar með Ödershafinn 2025. Gæðingaknapi ársins 2026 er Jakob Svavar Sigurðsson Jakob sigraði B-flokk á Fjórðungsmóti Vesturlands á eftirminnilegan hátt á Kór frá Skálakoti með einkunina 9,24. Reiðmennska Jakobs geislar ávallt af fagmennsku og krafti. Kristján Árni Birgisson og Védís Huld Sigurðardóttir eru efnilegustu knapar ársins 2025 Kristján Árni Birgisson Kristján varð á árinu tvöfaldur heimsmeistari í ungmennaflokki þegar hann sigraði 100 m skeið og 250 m skeið á Kröflu frá Syðri-Rauðalæk. Hann varð einnig Íslandsmeistari í 100 m skeiði á Kröflu og gæðingaskeiði ungmenna á Súlu frá Kanastöðum. Védís Huld Sigurðardóttir Védís varð á árin tvöfaldur heimsmeistari í ungmennaflokki, í tölti og fjórgangi á Ísak frá Þjórsárbakka. Hún sigraði einnig tölt og fjórgang á Íslandsmótinu á Ísaki. Sérstök verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í ungmennaflokki hlaut Jón Ársæll Bergmann Jón Ársæll Bergmann varð á árinu þrefaldur heimsmeistari í ungmennaflokki á Hörpu frá Höskuldsstöðum. Hann sigraði fimmgang, gæðingaskeið og samanlagðar fimmgangsgreinar á mótinu ásamt því að ná frábærum árangri á fjölda móta hér á Íslandi sumarið 2025. Keppnishestabú ársins 2025 er Strandarhöfuð Strandarhöfuð hefur á undanförnum árum stimplað sig inn sem eitt af sterkustu ræktunarbúum keppnishrossa í hestamennskunni á Íslandi. Kórónan í ræktuninni er án efa Hlökk frá Strandarhöfði sem á árinu varð Íslandsmeistari í fjórgangi og samanlögðum fjórgangsgreinum auk þess að standa upp úr í töltsýningum í T1 og T2.
Eftir Berglind Karlsdóttir 7. nóvember 2025
Það er í mörg horn að líta í afreksmálum sérsambands af þeirri stærðargráðu sem Landssamband Hestamannafélaga er.  Nú á haustdögum hefur landsliðsnefnd LH unnið að skoðun afreksmálanna í heild sinni og fjölmargir komið að þeirri vinnu ásamt starfshópnum sem skipaður var til verksins af stjórn LH. Samningar landsliðsþjálfaranna voru í gildi fram í lok september 2025 og runnu þar með sitt skeið og í kjölfarið hafa ýmsar hliðar afreksmálanna verið skoðaðar með það í huga að styrkja starfið enn frekar. Afreks- og landsliðsnefnd hefur á þessum tíma unnið skýran ramma um afreksstarfið byggt á afreksstefnu LH og ÍSÍ, skilgreint verkefni og skyldur þjálfara landsliðanna ásamt verkefnum og skyldum afreksstjóra LH. Þar að auki haf ýmsir verkferlar verið bættir innan afreksstarfsins og þeirra hópa sem starfrækir eru innan þess. Valteymi var sett á laggirnar til aðstoðar þjálfurum hópanna við val í afrekshópa. Valteymið samanstendur af þjálfara hvers hóps ásamt formanni landsliðsnefndar og afreksstjóra LH. Valteymið aðstoðar við gagnaöflun, greiningu árangurs og undirbúning valferlis fyrir hópana og hefur ráðgefandi hlutverk. Landsliðsþjálfari/yfirþjálfari Hæfileikamótunar hefur þó endanlegt ákvörðunarvald um val í hópa sína og ber ábyrgð á því vali. Hóparnir sem starfa undir afreksstarfi LH eru Hæfileikamótun LH, U21-landsliðið og A-landslið. 42 verðandi afreksknapar á aldrinum 14-17 ára voru á dögunum teknir inn í Hæfileikamótun LH sem samanstendur af tveimur hópum. Sigvaldi Lárus Guðmundsson yfirþjálfari Hæfileikamótunar er fullur tilhlökkunnar inn í starfsárið sem hefst þegar fyrsti hópur fer námsferð að Hólum í komandi viku. Svo verða vinnuhelgar eftir áramótin með eigin hest og tveir stórir fræðsludagar með sýnikennslum, fyrirlestrum og foreldrafundi. Hvað landsliðin tvö varðar er það skýrt markmið landsliðsnefndar að sterkustu knapar landsins hverju sinni skipi landsliðshópa LH sem starfrækir eru yfir árið. Landsliðsumgjörðin veitir hópunum reglulega fræðslu og utanumhald, vinnur að fjáröflunarmálum með ýmsum viðburðum og veitir knöpum hópanna tækifæri á að efla og styrkja sig sem afreksknapa árið um kring samhliða því að sinna íþróttinni á sínum heimavelli. Því er það stefnan að landsliðshóparnir nái yfir afreksknapana okkar og eðli málsins samkvæmt þrengjast svo hóparnir þegar líður að stórmótum líkt og HM um þá knapa og hesta sem eru í baráttu um sæti í lokahóp og staðfest er hvaða hestar eru í boði inn í verkefnið. Hlutverk hvers knapa þegar kemur að lokahóp fyrir stórmót skal vera skýrt og við kynningu lokahópa verða varaknapar tilkynntir og þeir hafa gríðarlega mikilvægt hlutverk alveg fram að brottför hrossa frá Íslandi á HM. Nú vinnur afreks- og landsliðsnefnd að því að finna landsliðsþjálfara U21 og A-landsliðanna til starfa, og áhugasömum þjálfaraefnum er bent á að hafa samband við Sigurbjörn Eiríksson formann landsliðsnefndar landslidsnefnd@lhhestar.is eða Berglindi Karlsdóttur framkvæmdarstjóra LH berglind@lhhestar.is og láta þannig vita að sér.
6. nóvember 2025
Íslenska landsliðinu í hestaíþróttum var boðið til móttöku á Bessastöðum, þar sem forseti Íslands Halla Tómasdóttir og Björn bóndi hennar tóku móti hópnum. Tilefni boðsins var frábær árangur Íslenska landsliðsins á HM í Sviss sl. sumar en íslenska landsliðið hlaut alls 9 gullverðlaun á mótinu auk þess að vinna liðabikarinn, stigahæst liða á mótinu. Mótakan var hin hátíðlegasta og var landsliðinu mikill heiður sýndur með því að vera boðið til hennar. Halla fór fögrum orðum um íslenska hestinn sem einn mikilvægasta sendiherra Íslands, því hvert sem hún færi bæri fljótlega á góma íslenski hesturinn og hans sérstaka lundarfar og gangtegundirnar fimm. Einnig hafði hún á orði hversu mikið afrek það væri að vinna liðabikarinn þar sem liðsheildin væri mikilvæg. Svo var gestum boðið að rölta um hið merka hús á Bessastöðum, skoða listaverkin og gjafir hinna ýmsu þjóðhöfðingja í gegnum tíðina, sem prýða húsið. Að lokum var stillt upp fyrir hópmyndatöku á tröppunum á Bessastöðum í haustblíðunni.
Lesa meira