,,Hörku vinna að vera atvinnumaður"

8. apríl 2024

Jóhanna Margrét eða Hanna Magga eins og hún er alltaf kölluð hefur verið í röð fremstu knapa um árabil. Hún átti stórglæsilegt ár í fyrra þegar þegar hún varð heimsmeistari í tölti og samanlögðum fjórgangsgreinum á Bárði frá Melabergi og í öðru sæti í fjórgang. Auk þess að verða þrefaldur Íslandsmeistari og Reykjarvíkur meistari. Hanna Magga hefur vakið eftirtekt fyrir fallega reiðmennsku og hefur hlotið FT fjöðrina nokkrum sinnum sem undirstrikar léttleikann, samspilið og útgeislunina sem einkennir reiðmennsku hennar.

En hvað er að frétta af Hönnu Möggu?

,,Í augnablikinu er ég að kemba hann Prins, en annars er bara verið að undirbúa og græja fyrir vorið og komandi tímabil. Þetta er skemmtilegur tími, við erum með mikið af góðum hestum“

Hvaða hesta eigum við helst von á að sjá þig með í sumar?

„Ég hef verið með hann Kormák frá Kvistum síðan 2022. Ég hef mikla trú á honum sem keppnishesti, hann býr yfir ótrúlega skemmtilegum eiginleikum. Ótrúleg mýkt og jafnvægi á tölti og góðar gangtegundir. Hann er skemmtilegur karakter, næmur, viljugur og sækir mikið traust í knapann. Við áttum góða innkomu í meistaradeildinni í fjórgang en lentum upp á ranga hönd í úrslitum sem ýtir bara við manni að vinna meira í að gera hann jafn sterkari.

Í sumar verð ég með hana Bríet frá Austurkoti, sem er virkilega skemmtileg skeiðhryssa. Hún er ung og efnileg bara 9 vetra og átti góða spretti í fyrra með besta tíman 7,57 í 100m. Hún er svona afreks hross á skeiði og ég hlakka til að keppa á henni.”

Svo stefni ég á að mæta með Útherja í íþróttakeppni í vor, svo getur vel verið að við skjótum okkur í B flokk líka. Hann getur verið mjög öflugur þar líka. Ótrúlegt rými og kraftur í honum og spennandi að sjá hvernig sumarið verður hjá okkur.

Ég er líka með góðan alhliða hest, Prins frá Vöðlum stefnan er sett með hann á fimmgang í vor og svo tökum við bara stöðuna hvort við förum í A flokkinn eða hvað. Hann er hátt dæmdur í kynbótardóm með 8,45 í aðaleinkunn. Hinni tengda pabbi minn hefur verið að keppa á honum með góðum árangri og það verður gaman að taka við honum halda áfram að byggja hann upp sem keppnishest því hann er virkilega skemmtilegur og spennandi karakter.

Svo er ég með nokkur yngri og óreyndari hross sem ég stefni líka á að byrja stilla upp í keppni núna í vor og sumar.“

Nú er Landsmót fram undan í sumar, hverjar eru væntingarnar fyrir það?

„Ég ætla allavega að gera mitt allra besta, það er ekkert gaman að keppa nema maður sé með markmið um að vera meðal þeirra bestu. Ég er með spennandi hestakost og það veður bara gaman að sjá hvernig landsmótið þróast.“

Verður öðruvísi að koma inn í þetta keppnistímabil eftir árangurinn síðasta sumar?

„Ekkert þannig – auðvitað er öðruvísi að vera ekki með Bárð, það er önnur pressa að mæta með nýja hesta en ég reyni alltaf að gera eins vel og ég get. Hestakosturinn er góður og mér finnst ég heppin með það að hafa verið komin af stað með Kormák og Útherja. Þeir eru báðir á góðum stað og þá er bara spurningin hvernig við spilum úr þessu í sumar og hversu öflugir þeir verða í baráttunni. Vissulega var komin mikil pressa með Bárð og háar væntingar en svo stendur þetta allt fellur með sjálfum sér. Ég reyni alltaf að gera betur en síðast og það gekk ótrúlega vel eftir með Bárð sem bætti bara alltaf í. Það er líka kostur að vera á hesti sem maður þekkir vel og eins og var með Bárð þá vissi ég orðið nákvæmlega hvernig var að mæta með hann t.d. í úrslit þar sem hann bætti sig yfirleitt alltaf.

En mest langar mig bara að halda áfram að standa mig vel og ná árangri. Ég reyni að halda sama dampi og fá hestana með mér í toppbaráttuna. Nú styttist í fyrstu mótin og ég hlakka bara til að byrja tímabilið af krafti.“

Þú ert útskrifuð frá Hólum, hvaða áhrif hefur það á reiðmennskuna þína?

„Ég held að það hafi haft rosalega góð áhrif. Það gerði mig skipulagðari, dýpkaði þekkinguna á hestum og gerði mig faglega sterkari. Ég er svo heppin að geta viðhaldið þekkingunni hér heima á Árbakka þar sem við erum fjórir atvinnumenn og að geta nýtt reynsluna hjá Huldu og Hinna er ómenntalegt. Við Gústi vinnum líka mikið saman og í þessu er mikil stuðningur og hvatning.“

Hvað með önnur áhugamál?

„Það er hörku vinna að vera atvinnumaður í hestum og þá gefst lítill tími fyrir annað en að sinna því og fjölskyldunni. Við eigum tvær litlar stelpur og um leið og þær eru komnar í leikskólann hefst stússið í kringum hestana. Ég hef í raun ekki sinnt öðrum áhugamálum en hestum lengi, var í fimleikum sem barn en hætti þar sem hestarnir áttu allan minn tíma. Ég gef mér til dæmis ekki mikinn tíma fyrir auka líkamsrækt eða slíkt enda enda tekur oft alveg nóg á að þjálfa 10 hesta á dag. Við erum svo með gott fólk sem hjálpar okkur að hirða og gefa enda fer alveg hellings tími í það þegar það eru 40-50 hestar á húsi. Ég reyni að þjálfa sem mest úti en auðvitað blandar maður þessu saman og veðráttan hér er að sjálfsögðu þannig að oft kemur það sér ákaflega vel að vera með góða inni aðstöðu og það skilar sér auðvitað í úti þjálfuninni líka.“

Það er ljóst að það er nóg um að vera á hjá Hönnu Möggu og nóg af spennandi hestum sem hún kemur til með að keppa á í sumar og verður gaman að fylgjast með því.

Fréttasafn

8. ágúst 2025
Forkeppni í fjórgangi er nú lokið. Ísland átt fimm fulltrúa, þrjá í fullorðinsflokki þau Helgu Unu Björnsdóttur og Ósk frá Stað, Aðalheiði Önnu Guðjónsdóttur og Hulinn frá Breiðstöðum og Jóhönnu Margréti Snorradóttur og Össu frá Miðhúsum. Í ungmennaflokk kepptu fyrir Íslands hönd þau Herdís Björg Jóhannsdóttir og Kormákur frá Kvistum og Védís Huld Sigurðardóttir og Ísak frá Þjórsárbakka. Herdís og Kormákur riðu á vaðið fyrir hönd íslensku keppendanna en lukkan var ekki í liði með þeim í dag því Kormáki fipaðist á yfirferðinni og útkoman var 5,87. Næst í braut af íslensku keppendunum komu þau Védís Huld Sigurðardóttir og Ísak frá Þjórsárbakka en þau voru í feikna stuði og hlutu í einkunn 7,07 og eru önnur inn A-úrslit ungmenna. Þriðjar í braut íslensku keppendanna voru þær Helga Una Björnsdóttir og Ósk frá Stað með stórglæsilega sýningu sem skilaði þeim 7,47 og beint inn í A-úrslit. Fjórðu í braut af íslensku keppendunum voru síðan Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir og Hulinn frá Breiðstöðum en því miður missti Hulinn skeifu og þau hlutu ekki einkunn. Fimmtu í braut komu loks Jóhanna Margrét Snorradóttir og Assa frá Miðhúsum og enduðu þær með 7,07 og lönduðu þar með sæti í B-úrlitum. Af íslensku knöpunum eigum við því í fullorðinsflokki einn í A-úrslitum og einn í B-úrslitum, og í ungmennaflokki er einn í A-úrslitum. Anne Stine Haugen og Hæmir frá Hyldsbæk leiða fullorðinsflokkinn með yfirburðum en þau hlutu hvorki meira né minna en 8,20 fyrir sína mögnuðu sýningu en þau keppa fyrir hönd Noregs. Eiðfaxi hitti Anne Stine eftir þeirra sýnungu sem sjá má á fréttasíðu Eiðfaxa en hjá Eiðfaxa er að finna fjölmörg stórskemmtileg viðtöl við knapa að loknum sýningum sem og gesti og gangandi. Næst á dagskrá er yfirlit fyrir 7 vetra og eldri hryssur og stóðhesta. Þar eigum við tvo fulltrúa þau Eind frá Grafarkoti, sýnandi Bjarni Jónasson og Hljóm frá Auðsholtshjáleigu, sýnandi Árni Björn Pálsson. Eind hlaut 8,41 í fordómi og var þriðja hæst í sínum flokki. Hljómur frá Auðsholtshjáleigu var hæstur í sínum flokki eftir fordóm með 8,77 í aðaleinkunn. Það verður því einkar spennandi að fygjast með þeim á eftir.  Í kvöld fara svo fram seinni tveir sprettirnir í 250m skeiði. Þar eigum við fimm fulltrúa og sem stendur eiga þau Kristján Árni Birgisson og Krafla frá Syðri-Rauðalæk besta tímann í ungmennaflokk en þau hlupu á tímanum 22,38 sek. Í fullorðinsflokki eiga þeir Sigursteinn Sumarliðason og Krókus frá Dalbæ annan besta tímann eða 21,97 sek. Það verður því spennandi að sjá hvernig þeim og restinni af íslenska hópnum gengur í kvöld.
7. ágúst 2025
Þá er forkeppni í fimmgangi lokið, við áttum fimm fulltrúa, þrjá í fullorðinsflokki og tvo í ungmennaflokki.
7. ágúst 2025
Eftir yfirlit í flokki fimm og sex vetra kynbótahrossa standa þrjú af fjórum hrossum frá Íslandi efst í sínum flokki.
7. ágúst 2025
Kristján Árni og Sigursteinn standa efstir íslensku keppendanna
7. ágúst 2025
Árni Björn leiðir í tölti með miklum yfirburðum
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 6. ágúst 2025
Þá er forkeppni í slaktaumatölti lokið. Þar átti Ísland fjóra fulltrúa, þrjá í fullorðinsflokki og einn í ungmennaflokki.
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 6. ágúst 2025
Ísland landaði sínum fyrsta heimsmeistaratitli á HM 2025
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 6. ágúst 2025
Heimsmeistaramót Íslenska hestsins hófst á kynbótadómum.
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 4. ágúst 2025
Sig­ur­björn seg­ir alla hest­ana vera í góðu standi eft­ir ferðalagið. Hann bend­ir einnig á mik­il­vægi þess að styðja við bak liðsfé­lag­anna þegar keppn­in hefst á morg­un.
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 4. ágúst 2025
Heims­meist­ara­mót ís­lenska hests­ins hefst með form­leg­um hætti í fyrramálið og kynbótadómum.
Lesa meira