,,Hörku vinna að vera atvinnumaður"

Jónína Sif Eyþórsdóttir • 8. apríl 2024

Jóhanna Margrét eða Hanna Magga eins og hún er alltaf kölluð hefur verið í röð fremstu knapa um árabil. Hún átti stórglæsilegt ár í fyrra þegar þegar hún varð heimsmeistari í tölti og samanlögðum fjórgangsgreinum á Bárði frá Melabergi og í öðru sæti í fjórgang. Auk þess að verða þrefaldur Íslandsmeistari og Reykjarvíkur meistari. Hanna Magga hefur vakið eftirtekt fyrir fallega reiðmennsku og hefur hlotið FT fjöðrina nokkrum sinnum sem undirstrikar léttleikann, samspilið og útgeislunina sem einkennir reiðmennsku hennar.

En hvað er að frétta af Hönnu Möggu?

,,Í augnablikinu er ég að kemba hann Prins, en annars er bara verið að undirbúa og græja fyrir vorið og komandi tímabil. Þetta er skemmtilegur tími, við erum með mikið af góðum hestum“

Hvaða hesta eigum við helst von á að sjá þig með í sumar?

„Ég hef verið með hann Kormák frá Kvistum síðan 2022. Ég hef mikla trú á honum sem keppnishesti, hann býr yfir ótrúlega skemmtilegum eiginleikum. Ótrúleg mýkt og jafnvægi á tölti og góðar gangtegundir. Hann er skemmtilegur karakter, næmur, viljugur og sækir mikið traust í knapann. Við áttum góða innkomu í meistaradeildinni í fjórgang en lentum upp á ranga hönd í úrslitum sem ýtir bara við manni að vinna meira í að gera hann jafn sterkari.

Í sumar verð ég með hana Bríet frá Austurkoti, sem er virkilega skemmtileg skeiðhryssa. Hún er ung og efnileg bara 9 vetra og átti góða spretti í fyrra með besta tíman 7,57 í 100m. Hún er svona afreks hross á skeiði og ég hlakka til að keppa á henni.”

Svo stefni ég á að mæta með Útherja í íþróttakeppni í vor, svo getur vel verið að við skjótum okkur í B flokk líka. Hann getur verið mjög öflugur þar líka. Ótrúlegt rými og kraftur í honum og spennandi að sjá hvernig sumarið verður hjá okkur.

Ég er líka með góðan alhliða hest, Prins frá Vöðlum stefnan er sett með hann á fimmgang í vor og svo tökum við bara stöðuna hvort við förum í A flokkinn eða hvað. Hann er hátt dæmdur í kynbótardóm með 8,45 í aðaleinkunn. Hinni tengda pabbi minn hefur verið að keppa á honum með góðum árangri og það verður gaman að taka við honum halda áfram að byggja hann upp sem keppnishest því hann er virkilega skemmtilegur og spennandi karakter.

Svo er ég með nokkur yngri og óreyndari hross sem ég stefni líka á að byrja stilla upp í keppni núna í vor og sumar.“

Nú er Landsmót fram undan í sumar, hverjar eru væntingarnar fyrir það?

„Ég ætla allavega að gera mitt allra besta, það er ekkert gaman að keppa nema maður sé með markmið um að vera meðal þeirra bestu. Ég er með spennandi hestakost og það veður bara gaman að sjá hvernig landsmótið þróast.“

Verður öðruvísi að koma inn í þetta keppnistímabil eftir árangurinn síðasta sumar?

„Ekkert þannig – auðvitað er öðruvísi að vera ekki með Bárð, það er önnur pressa að mæta með nýja hesta en ég reyni alltaf að gera eins vel og ég get. Hestakosturinn er góður og mér finnst ég heppin með það að hafa verið komin af stað með Kormák og Útherja. Þeir eru báðir á góðum stað og þá er bara spurningin hvernig við spilum úr þessu í sumar og hversu öflugir þeir verða í baráttunni. Vissulega var komin mikil pressa með Bárð og háar væntingar en svo stendur þetta allt fellur með sjálfum sér. Ég reyni alltaf að gera betur en síðast og það gekk ótrúlega vel eftir með Bárð sem bætti bara alltaf í. Það er líka kostur að vera á hesti sem maður þekkir vel og eins og var með Bárð þá vissi ég orðið nákvæmlega hvernig var að mæta með hann t.d. í úrslit þar sem hann bætti sig yfirleitt alltaf.

En mest langar mig bara að halda áfram að standa mig vel og ná árangri. Ég reyni að halda sama dampi og fá hestana með mér í toppbaráttuna. Nú styttist í fyrstu mótin og ég hlakka bara til að byrja tímabilið af krafti.“

Þú ert útskrifuð frá Hólum, hvaða áhrif hefur það á reiðmennskuna þína?

„Ég held að það hafi haft rosalega góð áhrif. Það gerði mig skipulagðari, dýpkaði þekkinguna á hestum og gerði mig faglega sterkari. Ég er svo heppin að geta viðhaldið þekkingunni hér heima á Árbakka þar sem við erum fjórir atvinnumenn og að geta nýtt reynsluna hjá Huldu og Hinna er ómenntalegt. Við Gústi vinnum líka mikið saman og í þessu er mikil stuðningur og hvatning.“

Hvað með önnur áhugamál?

„Það er hörku vinna að vera atvinnumaður í hestum og þá gefst lítill tími fyrir annað en að sinna því og fjölskyldunni. Við eigum tvær litlar stelpur og um leið og þær eru komnar í leikskólann hefst stússið í kringum hestana. Ég hef í raun ekki sinnt öðrum áhugamálum en hestum lengi, var í fimleikum sem barn en hætti þar sem hestarnir áttu allan minn tíma. Ég gef mér til dæmis ekki mikinn tíma fyrir auka líkamsrækt eða slíkt enda enda tekur oft alveg nóg á að þjálfa 10 hesta á dag. Við erum svo með gott fólk sem hjálpar okkur að hirða og gefa enda fer alveg hellings tími í það þegar það eru 40-50 hestar á húsi. Ég reyni að þjálfa sem mest úti en auðvitað blandar maður þessu saman og veðráttan hér er að sjálfsögðu þannig að oft kemur það sér ákaflega vel að vera með góða inni aðstöðu og það skilar sér auðvitað í úti þjálfuninni líka.“

Það er ljóst að það er nóg um að vera á hjá Hönnu Möggu og nóg af spennandi hestum sem hún kemur til með að keppa á í sumar og verður gaman að fylgjast með því.

Fréttasafn

Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 30. apríl 2025
Dagur Íslenska hestsins er á morgun, 1. maí. Hestamannafélög hérlendis sem og erlendis munu í tilefni af deginum bjóða upp á fjölbreytta dagskrá. Við hverjum áhugasama til að kynna sér viðburði á sínu heimasvæði.  Þá verður einnig spennandi dagskrá í Fjölskyldu og Húsdýragarðinum:
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 29. apríl 2025
Í gær mánudaginn 28. apríl fór fram stefnumótunarfundur Landssambands hestamannafélaga. Stjórn boðaði fundinn og voru fulltrúar hestamannafélaganna hvattir til að mæta á staðinn eða vera með á Teams. Markmið fundarins var að skapa sameiginlega framtíðarsýn fyrir samband allra hestamanna og var því ákaflega gleðilegt að sjá hversu margir tóku frá tíma til að vera með okkur í þessari vinnu en um 30 manns mættu á staðinn og 50 tóku þátt í fjarfundi. Petra Björk Mogensen stýrði fundinum ásamt Lindu Björk Gunnlaugsdóttur. Þær fengu svo dygga aðstoð frá þeim Jónínu Björk Vilhjálmsdóttur og Anna Kristín Kristinsdóttir sem tóku saman niðurstöður fundarins.
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 28. apríl 2025
Á 77. Íþróttaþingi ÍSÍ, sem fram fer dagana 16. og 17. maí nk. á Hótel Natura, verður kosið um forseta ÍSÍ til fjögurra ára og um sjö meðstjórnendur í framkvæmdastjórn ÍSÍ, til fjögurra ára. Skilafrestur framboða rann út föstudaginn 25. apríl sl. kl. 16:00. Til kjörnefndar bárust fimm framboð til embættis forseta ÍSÍ og níu framboð til setu í framkvæmdastjórn ÍSÍ.  Kjörnefnd ÍSÍ hefur úrskurðað öll innsend framboð gild.
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 27. apríl 2025
Nú er rétt rúm vika síðan hinn glæsilegi viðburður Allra sterkustu fór fram. Mikil stemning myndaðist að venju enda glæsilegar sýningar, keppni, happadrætti og stóðhestavelta í gangi. Á kvöldum sem þessum er dásamlegt að hafa fullt hús af áhorfendum og var það rauninn þann 19. apríl. Hinsvegar komust ekki allir sem vildu á sýninguna og því gleður það að tilkynna að Eiðfaxi tók upp herlegheitin og verður hægt að horfa á alla sýninguna á streymisveitunni þeirra frá og með miðri næstu viku.
Eftir Berglind Karlsdóttir 24. apríl 2025
Á Allra sterkustu var skrifað undir samstarfssamning milli Topreiter og Landsliðs Íslands í hestaíþróttum. Samningurinn gildir fram yfir Heimsmeistaramót 2027.
Eftir Berglind Karlsdóttir 23. apríl 2025
Hægt er að sækja vinningana á Skrifstofu LH Engjavegi 6 í Laugardal frá og með mánudeginum 28. apríl gegn framvísun happdrættismiðans.
Eftir Berglind Karlsdóttir 23. apríl 2025
Á Allra sterkustu var skrifað undir áframhaldandi samstarfssamning milli Landsliðs Íslands í hestaíþróttum og Líflands.
Eftir Hinrik Sigurðsson 23. apríl 2025
Ákveðið hefur verið að framlengja skráningafresti fyrir fyrsta Íslandsmótið í gæðingalist sem verður haldið í Samskipahöllinni í Spretti dagana 29.apríl – 1.maí 2025. Skráningafrestur er til miðnættis miðvikudaginn 23.apríl.
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 22. apríl 2025
Kæru hestamenn, takk kærlega fyrir samveruna og samvinnuna í kringum ALLRA STERKUSTU. Viðburðurinn heppnaðist vel og skiptir það sköpum fyrir landsliðin að finna þenna mikla áhuga og stuðning úr greininni. Viðburður eins og þessi gerist ekki að sjáflum sér. Að baki honum standa óteljandi klukkustundir sem sjálfboðaliðar hafa ljáð verkefninu, fullt af fyrirtækjum hafa lagt til fjármuni eða aðföng og stóðhestaeigendur sem hafa gefið tolla í stóðhestaveltuna. Þá hefur stjórn, skrifstofa, landsliðsnefnd, framkvæmdanefnd, landsliðsþjálfarar og landsliðsknaparnir sjálfir lagt dag við nótt að undirbúa og framkvæma þennan glæsilega viðburð.
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 22. apríl 2025
Ný stikuð leið frá Dalakofa í Landmannahelli. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitti Hestamannafélaginu Geysi styrk á síðasta ári til að stika svokallaðan Dalastíg. Leiðin þykir gífurlega falleg en er bæði brött og villugjörn og því miklar úrbætur að fá leiðina betur merkta og skráða.
Lesa meira

Styrktaraðilar