„Hvetjum alla til að koma og hafa gaman saman“

27. nóvember 2024

Viðtal við Kristinn Skúlason formann landsliðsnefndar LH í tilefni að menntahelgi landsliðanna um helgina.

Um helgina verður menntahelgi í reiðhöllinni í Víðidal. Á laugardeginum munu A-landsliðsknaparnir vera með kennslusýningar og á sunnudeginum verða tvær sýningar þar sem annars vegar munu koma fram knapar í U21 landsliðinu og hins vegar knapar í hæfileikamótun LH.

„Það er spennandi vika framundan og undirbúningur í fullum gangi. Á laugardaginn er kennslusýning A landsliðsins sem sett hefur verið saman af Sigurbirni Bárðasyni, A landsliðsþjálfara. Verður spennandi og fróðlegt að fylgjast með því. Við munum senda stærsta landslið Íslands frá upphafi á Heimsmeistaramótið í Sviss á næsta ári og er gaman að fá að skyggnast inn í undirbúninginn fyrir það. Á sunnudaginn byrjum við á sýningu með knöpunum í hæfileikamótun LH en Sigvaldi Lárus Guðmundsson er yfirþjálfari hæfileikamótunar. Kynnt verður starfsemin og þá uppbyggingu sem fer fram innan hæfileikamótunarinnar, sem er gríðarleg. Við höfum ekki orðið undan að taka á móti umsóknum og settum af stað B hóp í hæfileikamótun til að leyfa fleirum að komast að, nú telur hópurinn um 55 knapa“ segir Kristinn Skúlason formaður landsliðsnefndar LH. „Eftir það tekur Hekla Katharína Kristinsdóttir, landsliðsþjálfari U21, við með hópinn sinn sem eru 14 knapar. Þar eru frábærir krakkar og við erum í kjörstöðu miðað við önnur lönd með slíka breidd af knöpum.“

Frítt er inn á sunnudeginum en miðaverð á kennslusýningar á laugardeginum eru 5.900 kr og fer miðasala fram HÉR. Dagskrá hefst kl. 10:00 á laugardeginum en á sunnudeginum byrjar hún kl. 13:00. Á laugardaginn verður boðið upp á hamborgarhrygg með öllu tilheyrandi, heitt súkkulaði og vöfflur og á sunnudeginum verður boðið upp á heitt súkkulaði og vöfflur. Allur ágóði rennur til styrktar landsliðsins.

„Við hvetjum alla til þess að koma og njóta þess að sjá hvað við erum búin að byggja upp og sjá hvað þessir krakkar eru flinkir og góðir. Það er líka svo gaman að sjá hvað hesturinn tengir alla fjölskylduna saman. Ef einn er í hestunum þá er eiginlega öll fjölskyldan með. Það geta allir tekið þátt. Besta dæmið sem ég get tekið er um mig sjálfan. Við vorum öll í hestunum nema ein dóttir mín sem var ekki en hún var alltaf með okkur og tók þátt í þessu og studdi alla aðra.“

Á föstudagskvöldinu verður upphitun fyrir helgina en þá mun fara fram PubQuiz í reiðhöllinni í Víðidal.

„Við ætlum að hafa gaman um helgina. Njóta og sýna hvað við erum búin að vera gera og leggja til íþróttarinnar. Hvetjum alla til að koma og hafa gaman saman,“ segir Kristinn að lokum.

Sýnikennslurnar á laugardeginum eru eftirfarandi:

  • Ragnhildur Haraldsdóttir: Tenging taumhringsvinnu við form og gangtegundir.
  • Glódís Sigurðardóttir: Auka skrefastærð með formi og stillingu.
  • Hinrik Bragason: Undirbúningur fyrir gæðingaskeið – samspil í gleði og vilja í verki.
  • Guðmunda Ellen Sigurðardóttir: Tenging sætisnotkunar og taums, samhæfing knapa og hests
  • Helga Una Björnsdóttir: Slaktaumatölt – undirbúningur, aðferðir, hestgerðir
  • Jóhanna Margrét Snorradóttir: Hraðabreytingar, samspil safnandi hvetjandi og hamlandi æfingar.
  • Teitur Árnason: Viðhalda gleði með fjölhæfni og léttleika.

 

Viðburðurinn verður í beinni útsendingu á síðu Eiðfaxa

Frétt fengin af vef Eiðfaxa.

Fréttasafn

10. september 2025
Dagana 21. til 23. nóvember nk. verður haldið leiðtoganámskeið FEIF sem ætlað er ungmennum á aldrinum 18-26 ára. Námskeiðið er á vegum Danska Íslandshestasambandsins (DI) og er haldið í Gringdsted Landbúnaðarskólanum í Billund í Danmörku. Yfirskrift námskeiðsins er „Fighting Fit – Conflict, Fitness & Teamwork in Action“ og markmiðið er að hvetja ungmenni til að taka þátt í félagsstörfum í hestamennsku og að þátttakendur efli færni sína sem leiðtogar. Aðalfyrirlesarar verða Rebekka Hyldgaard, sjúkraþjálfari, sem fjallar um hvernig líkamsþjálfun getur bætt árangur í reiðmennsku, og Professor Janne Winther Christensen frá Aarhus University sem fjallar um nýjustu rannsóknir um „ animal conflict behaviour “. Þátttaka í viðburði sem þessum gefur frábæra reynslu, skapar tengsl og styrkir þátttakendur til frekari leiðtoga og ábyrgðarstarfa innan hestamannafélaganna. Við hvetjum hestamannafélögin til að hvetja fulltrúa sína til þátttöku á þessu námskeiði og minnum á mikilvægi þess að efla ungt fólk til þátttöku í nefndum og störfum innan félaganna til að efla nýliðun ásamt því að móta leiðtoga framtíðarinnar. Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna á heimasíðu FEIF. Umsóknarfrestur er 15. október 2025 . Námskeiðið hefst föstudaginn 21. nóvember kl 16:00 og endar sunnudaginn 23. nóvember kl 13:00. Kostnaður er 200€ og innifalið í því er gisting, matur og fræðsla.
10. september 2025
Landssamband hestamannafélaga auglýsir til umsóknar eftirfarandi mót: · Íslandsmót fullorðinna og ungmenna 2028 · Íslandsmót barna og unglinga 2028 · Íslandsmót í gæðingalist 2026 (innanhússmót sem haldið skal fyrir 15. maí) · Áhugamannamót Íslands 2026 Dagsetningar mótanna eru ákveðnar í samráði við mótshaldara og að teknu tilliti til dagsetninga annarra móta. Á Íslandsmóti fullorðinna og ungmenna er keppt í íþróttakeppni í efsta styrkleikaflokki þar sem keppendur eru einir inni á vellinum í einu. Á Íslandsmóti barna og unglinga er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni. Á Íslandsmóti í gæðingalist er keppt í öllum aldursflokkum og skal mótið haldið fyrir 15. maí 2026. Á Áhugamannamóti Íslands er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni í 1., 2. og 3. flokki. Umsóknir áhugasamra mótshaldara skulu berast Landssambandi hestamannafélaga fyrir 1. október nk. á netfangið lh@lhhestar.is .
14. ágúst 2025
Hörður Hákonarson hestamaður og alþjóðlegur hestaíþróttadómari í Reykjavík er látinn.
13. ágúst 2025
Til hamingju Ísland með frábært landslið
13. ágúst 2025
Úrslit í fjórgangi & fimmgangi
10. ágúst 2025
Þvílíkur morgunn!!!
10. ágúst 2025
Þá eru B-úrslitum lokið og ljóst hvaða keppendur bæta sér í toppbaráttuna í hverjum flokki.
10. ágúst 2025
Kristján Árni tvöfaldur heimsmeistari
9. ágúst 2025
Kristján Árni - Heimsmeistari
8. ágúst 2025
Niðurstöður úr kynbótasýningum sjö vetra og eldri hrossa
Lesa meira