Knapi ársins 2023

Jónína Sif Eyþórsdóttir • 20. nóvember 2023

Á Uppskeruhátíð LH voru krýndir bestu knapar ársins. Valnefnd stendur að baki valinu. Nefndin er skipuðuð hópi hestamanna og þar eiga fulltrúa stjórn LH, GDLH,  HÍDÍ, fjölmiðlar og FT. Við val á knöpum ársins skal tekið tillit til árangurs á árinu: ástundunar, prúðmennsku og íþróttamannlegrar framkomu innan vallar sem utan, sem og reglusemi. Knapi ársins í hverjum flokki er valinn sá sem talinn er hafa náð framúrskarandi árangri á sviði reiðmennsku og frammistaða hans sé álitin hestaíþróttinni til framdráttar, hvort sem um er að ræða eitt afgerandi afrek, eða frábæran árangur í mörgum greinum á mörgum mótum. Við val þeirra sem viðurkenningar hljóta skal gaumgæfa árangur jafnt hér heima sem erlendis (WR mót og stórmót).

 

Efnilegasti knapi ársins - Jón Ársæll Bergmann 

Jón Ársæll náði á árinu frábærum árangri í mörgum greinum hestaíþróttanna. Hann er tvöfaldur heimsmeistari þar sem hann vann fjórgang og samanlagðar fjórgangsgreinar en hann er einnig fjórfaldur Íslandsmeistari þar sem hann vann fjórgang, samanlagðar fjórgangsgreinar, tölt og 250m skeið. Hann var einnig í öðru sæti í flugskeiði á Íslandsmóti.  

Jón Ársæll hlýtur nafnbótina “Efnilegasti knapi ársins 2023” 

Aðrir tilnefnir:

Arnar Máni Sigurjónsson 
Arnar Máni er Íslandsmeistari í slaktaumatölti með Arion frá Miklholti en hann var einnig í þriðja sæti í fimmgangi ungmenna á sama móti. Arnar var í öðru sæti í gæðingaskeiði á Reykjavíkurmeistaramóti með Heiðu frá Skák.  

Signý Sól Snorradóttir 
Signý vann fjórgang á Reykjavíkurmeistaramóti á Kolbeini frá Horni I. Hún náði góðum árangri á Íslandsmóti þar sem hún var í öðru sæti í þremur greinum: Tölti, fjórgangi og slaktaumatölti.  

Sigríður Ingibjörg Einarsdóttir 
Sigríður er Íslandsmeistari í 100m skeiði með Ylfu frá Miðengi en þær vinkonurnar voru einnig í fyrsta sæti á Reykjavíkurmeistaramóti og fyrsta sæti í gæðingaskeiði á WR móti Geysis. Sigríður vann til silfurverðlauna á Heimsmeistaramótinu í flugskeiði. 

Védís Huld Sigurðardóttir 
Védís Huld var í öðru sæti á Íslandsmóti og Reykjavíkurmóti í slaktaumatölti með Hrafnfaxa frá Skeggsstöðum ásamt því að ríða til A-úrslita í tölti á Íslandsmóti og Reykjavíkurmóti.  

 

Keppnishestabú ársins 2023 er Strandarhjáleiga. 

Fjöldi hrossa frá Strandarhjáleigu hafa á árinu náð góðum árangri víða um heim. 
Hæst ber að nefna þá Kjalar og Byr en Byr er ríkjandi þýskur meistari í samanlögðum fimmgangsgreinum og er lang efstur á World ranking listanum yfir samanlagðar fimmgangsgreinar með meðaleinkunina 7.66. Hæsta skorið hans í fimmgangi á árinu er 7.87 í forkeppni, sem er hæsta einkunn sem gefin hefur verið í forkeppni á WR mótum á árinu. 
Kjalar er þýskur meistari í tölti og endaði í þriðja sæti í tölti og fimmta sæti í fjórgangi á Heimsmeistaramótinu í Hollandi. Uður og knapi hennar Elimar Elvarsson unnu einnig í barnaflokki á Fjórðungsmóti Austurlands með einkunnina 8.77 en einnig var Mylla frá Strandarhjáleigu í þeim úrslitum. 

Hross frá Strandarhjáleigu hafa á árinu litað mótahald í Íslandshestaheiminum með glæsibrag. Hrossin frá Strandarhjáleigu gerðu það gott á sínum mótum víðsvegar um heiminn. Má þar nefna t.d Þýskaland, Sviss, Noreg, Frakkland, Danmörk, Austurríki, Heimsmeistaramótið í Hollandi og hér heima á Íslandi.   

Strandarhjáleiga ræktar afburðagóð keppnishross sem ná árangri í keppni á öllum sviðum og hlýtur nafnbótina Keppnishestabú ársins 2023  

Önnur tilnefnd keppnisbú:

Auðsholtshjáleiga 
Auðsholtshjáleiga hefur á árinu átt fjölda hrossa í keppni víða um heim. Toppur er sænskur meistari í tölti ásamt því að vera í A-úrslitum í sömu grein á Heimsmeistaramótinu. Elva vann í barnaflokki á Gæðingamóti Fáks og var í þriðja sæti í tölti á Íslandsmóti barna. Vakar og Viljar voru í úrslitum í A-flokki á Gæðingamóti Fáks og Selma vann í barnaflokki á Gæðingamóti Fáks ásamt því að vera í úrslitum í fjórgangi og gæðingatölti á Íslandsmóti barna. 

Árbæjarhjáleiga II 
Hross frá Árbæjarhjáleigu II lituðu mótahaldið á Íslandi og Þýskalandi á árinu með frábærum árangri í íþróttakeppni bæði í meistaraflokkum sem og yngri flokkum. Gamalreyndur snillingur Kjarkur sem stendur ávallt fyrir sínu stendur efstur á World Ranking lista í 250, 150 og 100m skeiði og heldur áfram að gera stórkostlega hluti með knapa sínum.  
Hilmir átti góðar sýningar í slaktaumatölti en hann var meðal annars í þriðja sæti á Íslandsmóti og fjórða sæti á Reykjavíkurmóti. Mörg hross voru að stíga sín fyrstu skref í keppni og náðu strax eftirtektarverðum árangri. 

Fet 
Frá Feti hafa hross náð góðum árangri á líðandi keppnisári. Þar má fyrst nefna Íslandsmeistarann í slaktaumatölti, Njörð sem og alsystir hans sem er Svissneskur meistari í sömu grein Viðju.  
Draumur vann slaktaumatölt á Suðurlandsmóti og Dröfn var í níunda sæti í tölti á Íslandsmóti.  

Garðshorn á Þelamörk 
Ræktunarbúið Garðshorn á Þelamörk hefur á árinu átt fjölda hrossa í keppni víða um heim. Fremstur í flokki fer Kastor sem náði frábærum árangri á árinu en hann var meðal annars Íslandsmeistari, Reykjavíkurmeistari ásamt því að eiga besta tímann í 250m skeiði á árinu. Hann var einnig í úrslitum í A-flokki á fjórðungsmóti í sumar með 8.89 í einkunn.  
Leynir, Sirkus og Adrían náðu einnig góðum árangri í sínum greinum.  

 

Skeiðknapi ársins  Daníel Gunnarsson 

Daníel Gunnarsson 
Daníel hefur átt gott ár í skeiðgreinum á árinu sem er að líða en hann vann meðal annars til silfurverðlauna í 250m skeiði á Heimsmeistaramótinu í Hollandi með Einingu frá Einhamri og varð í þriðja og sjötta sæti í sömu grein á Íslandsmóti.  

Daniel náði eins og svo oft áður frábærum árangri í skeiði á árinu sem er að líða og er með tvö hross undir 22.0 sekúndum á stöðulista í 250m skeiði og þrjú hross undir 8.0 sekúndum í flugskeiði. Þar má helst nefna systurnar Einingu og Kló frá Einhamri en Eining og Daniel unnu til silfurverðlauna í eftirminnilegum lokaspretti í 250m skeiði á Heimsmeistaramótinu sl. sumar. 

Daníel átti frábært ár í skeiðkappreiðum ársins og hlýtur nafnbótina “Skeiðknapi ársins 2023.” 

Aðrir tilnefndir:

Elvar Þormarsson 
Elvar Þormarsson skráði Fjalladís frá Fornusöndum í fyrsta skipti til leiks í 250m skeiði á Heimsmeistaramótinu í Hollandi og unnu þau þar til gullverðlauna. 

Hans Þór Hilmarsson 
Hans náði á árinu þriðja besta tímanum í 250m skeiði og varð í 6.sæti í þeirri grein og 5.sæti í flugskeiði á Heimsmeistaramótinu í Hollandi með Jarl frá Þóroddsstöðum. Hann varð einnig í 5.sæti á Íslandsmóti í 250 og 100m skeiði og vann 100m skeið á Reykjavíkurmóti.  

Ingibergur Árnason 
Ingibergur var í fjórða sæti á Íslandsmóti í 250m skeiði og á fimmta besta tímann á árinu í þeirri grein með Sólveigu frá Kirkjubæ. Hann var í þriðja sæti í 150m skeiði og öðru sæti í flugskeiði á sama móti. Á Reykjavíkurmóti varð hann í öðru sæti í flugskeiði og sjötta sæti í 250m skeiði.  

Teitur Árnason 
Teitur er efstur á stöðulista í flugskeiði með Drottningu frá Hömrum II. Hann varð Íslandsmeistari í 100m skeiði og í öðru sæti á Heimsmeistaramótinu í 100m skeiði.  

 

Gæðingaknapi ársins  - Gústaf Ásgeir Hinriksson  
Gústaf vann A-flokk á Fjórðungsmóti með Bjarma frá Litlu - Tungu 2 en þeir hlutu einkunnina 9.36. Þeir unnu einnig A-flokk á Gæðingamóti Geysis.  

Gústaf vann A-flokk á Fjórðungsmóti með Bjarma frá Litlu - Tungu 2 en þeir hlutu einkunnina 9.36 ásamt því að Bjarmi var valinn gæðingur mótsins en sýning þeirra félaga bæði í forkeppni og í úrslitum var fallega útfærð, átakalaus og skein af henni mikil fagmennska. Þeir unnu einnig A-flokk á Gæðingamóti Geysis en þeir leiddu eftir forkeppni og unnu úrslit á báðum mótum. 

Gústaf Ásgeir hlýtur nafnbótina “Gæðingaknapi ársins 2023.” 

Aðrir tilnefndir:

Auðunn Kristjánsson 
Auðunn vann B-úrslit í A-flokki á Fjórðungsmóti með Penna frá Eystra-Fróðholti og vann sig upp í 2.sæti í A-úrslitum með einkunnina 9.14. Hann var einnig í öðru sæti í sömu grein  á Gæðingamóti Geysis.  

Elín Árnadóttir 
Elín Árnadóttir reið til sigurs í B-flokki á Fjórðungsmótinu í sumar með Blær frá Prestsbakka.  

Jakob Svavar Sigurðsson 
Jakob Svavar vann A-flokk á gæðingamótinu á Flúðum á Nökkva frá Hrísakoti og B-flokk á sama móti á Augasteini frá Fákshólum.  

Sigurbjörn Bárðarson 
Sigurbjörn vann A-flokk á Gæðingamóti Fáks & Spretts og var í öðru sæti í sömu grein á gæðingamótinu á Flúðum.  

Sigurður Sigurðarson 
Sigurður vann B-flokk á Gæðingamóti Sleipnis með Bjarnfinn frá Áskoti, reið til A-úrslita í B-flokki á Fjórðungsmótinu, varð öðru sæti í B-flokki á Gæðingamótinu á Flúðum og því þriðja í A-flokki.   

 

Íþróttaknapi ársins - Jóhanna Margrét Snorradóttir 

Jóhanna Margrét og Bárður frá Melabergi áttu frábæru gengi að fagna í íþróttakeppni á árinu en þau eru tvöfaldir heimsmeistarar þar sem þau unnu tölt og samanlagðar fjórgangsgreinar ásamt því að vera þrefaldir Íslandsmeistarar þar sem þau unnu fjórgang, tölt og samanlagðar fjórgangsgreinar.  

Jóhanna vann stóra sigra á árinu í tölti og fjórgangi með Bárð frá Melabergi en þau urðu heimsmeistarar tölti og samanlögðum fjórgangsgreinum ásamt því að vera þrefaldir Íslandsmeistarar.  

Jóhanna Margrét og Bárður standa efst á stöðulista í tölti á árinu. Jóhanna Margrét er með frábæran heildar árangur í íþróttakeppni á árinu 2023 og hlýtur nafnbótina “Íþróttaknapi ársins.” 

 

Aðrir tilnefndir:

Elvar Þormarsson  
Elvar hefur verið nær óstöðvandi í gæðingaskeiði á árinu á Fjalladís frá Fornusöndum, en þau lokuðu hringnum þegar þau urðu heimsmeistarar í gæðingaskeiði í sumar. Elvar og Fjalladís unnu gæðingaskeið á Íslandsmóti með þá ótrúlegu einkunn 9,0 og þau unnu einnig þessa grein á Reykjavíkurmeistaramóti. 

Elvar náði einnig góðum árangri í fimmgangi með Djáknar frá Selfossi þar sem þeir voru meðal annars í B-úrslitum á Íslandsmóti.  

Jakob Svavar Sigurðsson  
Jakob Svavar varð Íslandsmeistari í samanlögðum fimmgangsgreinum með Nökkva frá Hrísakoti, vann til bronsverðlauna í slaktaumatölti og var í A-úrslitum í tölti, fjórgangi og fimmgangi á Íslandsmóti.  

Sara Sigurbjörnsdóttir 
Sara varð á árinu heimsmeistari í fimmgangi á Flóka frá Oddhóli ásamt því að vera í sjötta sæti á Íslandsmóti með sama hest. Hún var í öðru til þriðja sæti í fjórgangi á Íslandsmóti með Flugu frá Oddhóli.  

Teitur Árnason 
Teitur er þrefaldur Íslandsmeistari á árinu, í 100m skeiði með Drottningu frá Hömrum II, í fimmgangi á Atlasi frá Hjallanesi og í slaktaumatölti á Nirði frá Feti - ásamt því að ríða til A-úrslita í tölti á Íslandsmóti á Sigri frá Laugarbökkum. 

Viðar Ingólfsson 
Viðar reið til A-úrslita í tölti og fjórgangi á Heimsmeistaramótinu í sumar á Þór frá Stóra-Hofi ásamt því að vinna B-úrslit í tölti á Íslandsmóti þaðan sem hann fór í A-úrslit og vann til silfurverðlauna. 

 

Knapi ársins 

Í flokknum knapi ársins komu til greina allir knapar sem tilnefndir voru í fullorðinsflokkunum - Knapi ársins er Elvar Þormarsson. 

Árangur Elvars á árinu 2023 var ótrúlegur. Hæst ber að nefna einstakan árangur á Heimsmeistaramótinu í Hollandi 2023 þar sem hann og Fjalladís áttu frábæra spretti í gæðingaskeiði og hlutu einkunnina 8.92 en þau sigruðu einnig 250m skeið í eftirminnilegum lokaspretti og eru því tvöfaldir heimsmeistarar. Þau unnu gæðingaskeið á Íslandsmóti í þriðja skipti með einkunnina 9.0!  Elvar Þormarsson er einstakur afreksknapi, sönn fyrirmynd fyrir elju sína, jákvæðni og fagmennsku í hvívetna og hlýtur hann því nafnbótina Knapi ársins 2023. 

 

Sérstök verðlaun í flokkum unglinga og ungmenna fyrir góðan árangur á árinu.

Benedikt Ólafsson 
Benedikt átti frábært ár en hann varð tvöfaldur heimsmeistari þar sem hann vann gæðingaskeið og samanlagðar fimmgangsgreinar. Hann varð einnig Íslandsmeistari og Reykjavíkurmeistari í gæðingaskeiði með Leiru Björk frá Naustum III. Benedikt var efnilegasti knapi ársins 2022. 

Glódís Rún Sigurðardóttir  
Glódís Rún varð á árinu heimsmeistari í fimmgangi með Sölku frá Efri-Brú en þær urðu einnig Íslandsmeistarar í sömu gein og unnu til gullverðlauna á Reykjavíkurmeistaramóti. Glódís var efnilegasti knapi ársins 2020.  

Herdís Björg Jóhannsdóttir 
Herdís Björg er 17 ára gömul og var því yngsti keppandi landsliðsins á Heimsmeistaramótinu í sumar. Hún varð heimsmeistari í tölti ungmenna með hestinn sinn Kvarða frá Pulu en þau unnu einnig til gullverðlauna á Íslandsmóti ungmenna. Herdís náði þar að auki góðum árangri á Íslandsmóti unglinga þar sem hún varð Íslandsmeistari í gæðingaskeiði á Þórvöru frá Lækjarbotnum.  

 

Við óskum öllum þessum knöpum, tilnefndum og sigurvegurum til hamingju með frábæran árangur á árinu.

Fréttasafn

Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 30. apríl 2025
Dagur Íslenska hestsins er á morgun, 1. maí. Hestamannafélög hérlendis sem og erlendis munu í tilefni af deginum bjóða upp á fjölbreytta dagskrá. Við hverjum áhugasama til að kynna sér viðburði á sínu heimasvæði.  Þá verður einnig spennandi dagskrá í Fjölskyldu og Húsdýragarðinum:
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 29. apríl 2025
Í gær mánudaginn 28. apríl fór fram stefnumótunarfundur Landssambands hestamannafélaga. Stjórn boðaði fundinn og voru fulltrúar hestamannafélaganna hvattir til að mæta á staðinn eða vera með á Teams. Markmið fundarins var að skapa sameiginlega framtíðarsýn fyrir samband allra hestamanna og var því ákaflega gleðilegt að sjá hversu margir tóku frá tíma til að vera með okkur í þessari vinnu en um 30 manns mættu á staðinn og 50 tóku þátt í fjarfundi. Petra Björk Mogensen stýrði fundinum ásamt Lindu Björk Gunnlaugsdóttur. Þær fengu svo dygga aðstoð frá þeim Jónínu Björk Vilhjálmsdóttur og Anna Kristín Kristinsdóttir sem tóku saman niðurstöður fundarins.
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 28. apríl 2025
Á 77. Íþróttaþingi ÍSÍ, sem fram fer dagana 16. og 17. maí nk. á Hótel Natura, verður kosið um forseta ÍSÍ til fjögurra ára og um sjö meðstjórnendur í framkvæmdastjórn ÍSÍ, til fjögurra ára. Skilafrestur framboða rann út föstudaginn 25. apríl sl. kl. 16:00. Til kjörnefndar bárust fimm framboð til embættis forseta ÍSÍ og níu framboð til setu í framkvæmdastjórn ÍSÍ.  Kjörnefnd ÍSÍ hefur úrskurðað öll innsend framboð gild.
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 27. apríl 2025
Nú er rétt rúm vika síðan hinn glæsilegi viðburður Allra sterkustu fór fram. Mikil stemning myndaðist að venju enda glæsilegar sýningar, keppni, happadrætti og stóðhestavelta í gangi. Á kvöldum sem þessum er dásamlegt að hafa fullt hús af áhorfendum og var það rauninn þann 19. apríl. Hinsvegar komust ekki allir sem vildu á sýninguna og því gleður það að tilkynna að Eiðfaxi tók upp herlegheitin og verður hægt að horfa á alla sýninguna á streymisveitunni þeirra frá og með miðri næstu viku.
Eftir Berglind Karlsdóttir 24. apríl 2025
Á Allra sterkustu var skrifað undir samstarfssamning milli Topreiter og Landsliðs Íslands í hestaíþróttum. Samningurinn gildir fram yfir Heimsmeistaramót 2027.
Eftir Berglind Karlsdóttir 23. apríl 2025
Hægt er að sækja vinningana á Skrifstofu LH Engjavegi 6 í Laugardal frá og með mánudeginum 28. apríl gegn framvísun happdrættismiðans.
Eftir Berglind Karlsdóttir 23. apríl 2025
Á Allra sterkustu var skrifað undir áframhaldandi samstarfssamning milli Landsliðs Íslands í hestaíþróttum og Líflands.
Eftir Hinrik Sigurðsson 23. apríl 2025
Ákveðið hefur verið að framlengja skráningafresti fyrir fyrsta Íslandsmótið í gæðingalist sem verður haldið í Samskipahöllinni í Spretti dagana 29.apríl – 1.maí 2025. Skráningafrestur er til miðnættis miðvikudaginn 23.apríl.
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 22. apríl 2025
Kæru hestamenn, takk kærlega fyrir samveruna og samvinnuna í kringum ALLRA STERKUSTU. Viðburðurinn heppnaðist vel og skiptir það sköpum fyrir landsliðin að finna þenna mikla áhuga og stuðning úr greininni. Viðburður eins og þessi gerist ekki að sjáflum sér. Að baki honum standa óteljandi klukkustundir sem sjálfboðaliðar hafa ljáð verkefninu, fullt af fyrirtækjum hafa lagt til fjármuni eða aðföng og stóðhestaeigendur sem hafa gefið tolla í stóðhestaveltuna. Þá hefur stjórn, skrifstofa, landsliðsnefnd, framkvæmdanefnd, landsliðsþjálfarar og landsliðsknaparnir sjálfir lagt dag við nótt að undirbúa og framkvæma þennan glæsilega viðburð.
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 22. apríl 2025
Ný stikuð leið frá Dalakofa í Landmannahelli. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitti Hestamannafélaginu Geysi styrk á síðasta ári til að stika svokallaðan Dalastíg. Leiðin þykir gífurlega falleg en er bæði brött og villugjörn og því miklar úrbætur að fá leiðina betur merkta og skráða.
Lesa meira

Styrktaraðilar