Rafræn Menntaráðstefna LH í janúar 2024 með frábærum fyrirlesurum og spennandi pallborði!

20. nóvember 2023

Menntanefnd LH stendur fyrir rafrænni Menntaráðstefnu nú í janúar 2024, með  frábærum kennurum og pallborðsfólki. Þema þessarar ráðstefnu er hið svokallaða „Social Licence to operate“ eða „félagslegt leyfi til ástundunar“ - sem fjallar um hinn aukinn þrýsting víðs vegar frá um hvort verjandi sé að brúka dýr og þar með hross eingöngu til ánægju okkar mannfólksins. Þessi umræða er orðin mjög áberandi víða um heim og við hestafólk (ekki síst erlendis en jafnvel á Íslandi einnig) finnum fyrir sívaxandi gagnrýni og þekkingarleysi um hlutverk hrossa í okkar menningu. Þar sem okkar hestar eru þar að auki fremur smáir  lendum við Íslandshestafólk jafnvel enn meira í þessari gagnrýni.

Rafræna ráðstefnan núna í janúar mun fjalla um hvernig vísindin geta stutt okkur í þessari umræðu allri og sérstaklega teknar fyrir nýlegar rannsóknir sem snúa að heilbrigði og endingu hrossanna okkar og hvaða áhrif við höfum í raun á hestana og öfugt.

Ráðstefnan er hugsuð fyrir þjálfara og reiðkennara innan Menntamatrixu FEIF og dómara innan Íslandshestamennskunar, en hægt er að senda inn beiðni til LH um aðgang sé viðkomandi ekki innan þessara hópa. Þátttaka í ráðstefnunni gildir sem símenntun fyrir Menntamatrixu FEIF frá LH (endilega kannið hvort ykkar landssamtök ef önnur en LH, samþykki einnig endurmenntunargildið).


Stefnt er að fimm kvöldum í janúar 2024, (9., 11., 14, 16. og 23.janúar) og verður einn fyrirlesari í senn fyrstu fjögur kvöldin, fimmta kvöldið verður svo samantekt og pallborðsumræður með fulltrúum ýmissa geira hestamennskunnar.


Þátttakendur skrá sig hér: Skráning á menntaráðstefnu

Verð er 13.000 krónur (85€)


Á næstu vikum munum við kynna þá kennara sem að ráðstefnunni koma, fylgist með og takið frá umrædd kvöld!

Með kærri kveðju og tilhlökkun,
Menntanefnd LH.

 



 

 

Fréttasafn

10. september 2025
Dagana 21. til 23. nóvember nk. verður haldið leiðtoganámskeið FEIF sem ætlað er ungmennum á aldrinum 18-26 ára. Námskeiðið er á vegum Danska Íslandshestasambandsins (DI) og er haldið í Gringdsted Landbúnaðarskólanum í Billund í Danmörku. Yfirskrift námskeiðsins er „Fighting Fit – Conflict, Fitness & Teamwork in Action“ og markmiðið er að hvetja ungmenni til að taka þátt í félagsstörfum í hestamennsku og að þátttakendur efli færni sína sem leiðtogar. Aðalfyrirlesarar verða Rebekka Hyldgaard, sjúkraþjálfari, sem fjallar um hvernig líkamsþjálfun getur bætt árangur í reiðmennsku, og Professor Janne Winther Christensen frá Aarhus University sem fjallar um nýjustu rannsóknir um „ animal conflict behaviour “. Þátttaka í viðburði sem þessum gefur frábæra reynslu, skapar tengsl og styrkir þátttakendur til frekari leiðtoga og ábyrgðarstarfa innan hestamannafélaganna. Við hvetjum hestamannafélögin til að hvetja fulltrúa sína til þátttöku á þessu námskeiði og minnum á mikilvægi þess að efla ungt fólk til þátttöku í nefndum og störfum innan félaganna til að efla nýliðun ásamt því að móta leiðtoga framtíðarinnar. Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna á heimasíðu FEIF. Umsóknarfrestur er 15. október 2025 . Námskeiðið hefst föstudaginn 21. nóvember kl 16:00 og endar sunnudaginn 23. nóvember kl 13:00. Kostnaður er 200€ og innifalið í því er gisting, matur og fræðsla.
10. september 2025
Landssamband hestamannafélaga auglýsir til umsóknar eftirfarandi mót: · Íslandsmót fullorðinna og ungmenna 2028 · Íslandsmót barna og unglinga 2028 · Íslandsmót í gæðingalist 2026 (innanhússmót sem haldið skal fyrir 15. maí) · Áhugamannamót Íslands 2026 Dagsetningar mótanna eru ákveðnar í samráði við mótshaldara og að teknu tilliti til dagsetninga annarra móta. Á Íslandsmóti fullorðinna og ungmenna er keppt í íþróttakeppni í efsta styrkleikaflokki þar sem keppendur eru einir inni á vellinum í einu. Á Íslandsmóti barna og unglinga er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni. Á Íslandsmóti í gæðingalist er keppt í öllum aldursflokkum og skal mótið haldið fyrir 15. maí 2026. Á Áhugamannamóti Íslands er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni í 1., 2. og 3. flokki. Umsóknir áhugasamra mótshaldara skulu berast Landssambandi hestamannafélaga fyrir 1. október nk. á netfangið lh@lhhestar.is .
14. ágúst 2025
Hörður Hákonarson hestamaður og alþjóðlegur hestaíþróttadómari í Reykjavík er látinn.
13. ágúst 2025
Til hamingju Ísland með frábært landslið
13. ágúst 2025
Úrslit í fjórgangi & fimmgangi
10. ágúst 2025
Þvílíkur morgunn!!!
10. ágúst 2025
Þá eru B-úrslitum lokið og ljóst hvaða keppendur bæta sér í toppbaráttuna í hverjum flokki.
10. ágúst 2025
Kristján Árni tvöfaldur heimsmeistari
9. ágúst 2025
Kristján Árni - Heimsmeistari
8. ágúst 2025
Niðurstöður úr kynbótasýningum sjö vetra og eldri hrossa
Lesa meira