„Knapinn þarf að vera tilbúinn að missa hestinn frá sér að móti loknu“

18. apríl 2023

Kristinn settist niður með okkur á skrifstofu LH og ræddi verkefni landsliðsnefndar sem á veg og vanda að skipulagningu og utan um haldi í kringum afreksstarfið.

Nú styttist í stórsýninguna Allra sterkustu, hverju megum við eiga von á þar? „Þar munu allir Landsliðsknaparnir okkar etja kappi í spennandi keppni og þar byrja línurnar fyrir lokahóp á HM að skýrast. Nú eru 18 knapar í landsliðshóp en aðeins 11 knapar fara á HM, þar af eru einungis 7 laus sæti því 4 knapar fara út sem tiltilhafar, samkeppnin er því mikil“, segir Kristinn.

Knaparnir sem mæta til leiks stefna væntanlega allir á að komast með landsliðinu á Heimsmeistaramótið í Hollandi í ágúst. Hafa þeir gefið út hvaða hesta þeir munu mæta með á Allra sterkustu? „Þær línur eru allar að skýrast, það er mikil stemming og spennan í landsliðshópnum er töluverð enda orðið langt síðan að síðasta heimsmeistaramót fór fram. Að baki árangri íslenska hópsins liggur gífurleg vinna því að fyrir hvert mót þarf að byggja upp nýjan hest og þrátt fyrir að það hafi ekki verið heimsmeistaramót fyrir tveimur árum misstum við út marga góða hesta þar sem þegar var búið að ganga frá eigendaskiptum.“

Það er því ljóst að spennan verður í hámarki á Allra sterkustu sem er ákaflega áhorfendavænn viðburður þar sem einungis verða riðin úrslit í hverri grein. Á sama tíma mun hin árlega Stóðhestavelta fara fram en þar gefst tækifæri á að fá folatoll undir einn af bestu stóðhestum landsins. Kristinn bendir á að 100 stóðhestar séu í pottinum sem allir hafi hlotið 1. verðlaun og teljast til eftirsóttustu hesta landsins. Miðinn í veltuna kostar einungis 65.000 krónur og seljast þeir upp hratt. „Það er til marks um samhuginn í hestamönnum hérlendis hversu viljugir þeir eru að leggja stóðhestaveltunni lið en þessi liður fjáröflunarinnar skiptir okkur gífurlegu máli.“

Á Allra sterkustu munum við sjá A-landsliðsknapana etja kappi auk þess sem U21 hópurinn mun vera með opnunaratriði, en hvar byrjar vinnan við að þjálfa upp afreksfólk í íþróttinni? „Landsliðsnefndin kemur að því að móta faglegt starf í kringum afreksfólkið okkar. Segja má að starfið byrji í dag í Hæfileikamótuninni en það er starf fyrir unglinga á aldrinum 14-17 ára. Hæfileikaríkir og metnaðarfullir ungir knapar sem stefna langt geta nýtt þennan vettvang til undirbúa sig og er þetta góður grunnur til að komast í U21 landsliðið þegar fram í sækir. Í Hæfileikamótuninni er bæði unnið með knapa og hest en einnig hittast þátttakendur án hests í hópefli og fræðslu. Þetta fyrirkomulag og setur línurnar í afreksstarfinu okkar. Hæfileikamótunin er opin öllum sem vilja sækja um og finnum við fyrir sífellt meiri áhuga á þessu starfi.

U21 landsliðið okkar er svo skipað stórum hópi ákaflega efnilegra knapa. Árangur þeirra hefur verið gífurlegur síðastliðin ár og klárlega með því besta sem gerist í heiminum. Við erum með gott starf í kringum þessa knapa sem skiptir miklu máli til að tryggja kynslóðaskipti í íþróttinni. Margir úr U21 hópnum eru þegar farnir að sanna sig meðal hinna bestu, sem sýnir okkur hvað framtíðin er björt.  

A-landsliðshópur hefur verið starfræktur frá árinu 2019 með tilkomu hans er umgjörðin í kringum landsliðið formfastara en áður var og meiri áhersla lögð á knapann sem íþróttamann með það langtímamarkmið í huga að skapa umhverfi þar sem  afreksknapi getur bætt sig í sinni íþrótt, til að auka líkur á enn betri árangri á komandi stórmótum. Landsliðshópurinn er virkur allt árið um kring og með því gefast tækifæri til fræðslu og þjálfunar með markvissari hætti en áður hefur verið. Í landsliðshóp eiga sæti titilhafar auk knapa sem landsliðsþjálfari telur líklega til árangurs á komandi mótum. Þrátt fyrir landsliðshópurinn sé valinn að hausti getur landsliðsþjálfarinn þó tekið inn nýja knapa sem sýnt hafa framúrskarandi árangur í keppni, með skömmum fyrirvara, ef hann telur að það muni styrkja landsliðið.

Landsliðið er fyrirmynd annara hestamanna og það er mikilvægt að knaparnir séu til sóma innan vallar sem utan. Enda leggur landsliðsnefnd fram siðareglur sem knaparnir samþykkja með því að taka sæti í landsliðinu. Með því að vera með faglegt starf fyrir okkar bestu knapa frá unga aldri styrkjum við bakgrunn knapanna og liðsheild þeirra.“

Þeir sem skipa landsliðið hverju sinni eru að jafnaði ákaflega reynslumikið hestafólk, hvernig er þjálfun þeirra og endurmenntun háttað? „Landsliðsþjálfari hefur yfirsýn yfir þjálfun knapanna en einnig eigum við í góðu samstarfi við Háskólann á Hólum um endurmenntun og fræðslu fyrir landsliðsknapana. Til að mynda var A-landsliðinu í vor boðið á tvo fyrirlestara annars vegar um um fóðrun og næringarþörf keppnishestins með Guðrúnu Stefánsdóttur og hinsvegar fyrirlestur með Eyjólfi Ísleifssyni um nálgun hans á þjálfun og uppbyggingu hestsins á hæstu stigum reiðmennskunna. Aukið samstarf við Háskólan á Hólum er gífurlegur styrkur og eflir enn frekar það faglega uppbyggingarstarf sem við viljum sinna. Við erum líka í svo einstakri stöðu að vera í íþrótt þar sem öll geta komið saman óháð kyni. Einstaklingurinn og hesturinn eru heildin sem skiptir máli, það er þeirra samspil sem tryggir árangur. Auk þess sem aldursdreifing í A-landsliðinu er mikil og þar mætast nýjar og gamlar hugmyndir sem er alveg ómentanlegt.“

Nú eru einungis 4 mánuðir til stefnu fram að heimsmeistaramótinu, hvað er það helst sem landsliðsnefndin þarf að hafa í huga? „Nefndin þarf að huga að öllum búnaði fyrir flug, dýrlæknaskoðanir, flytja út hey og ýmislegt annað sem þarf fyrir hestana. Þá þarf að huga vel að mótsvæðinu og hvernig aðbúnaðurinn verður fyrir íslensku hestana sem eru að koma út. Á meðan á mótinu stendur þarf að huga ákaflega vel að öllum sóttvörnum og tryggja að ekkert smit berist inn í hópinn okkar. Við þurfum meðal annars að skipuleggja aðstæður þannig að við séum með sér reiðgötur fyrir okkur og að það sé virk aðgangsstýring inn á svæðið. Þá þarf einnig að huga að búnaði, gistingu og öðru sem við kemur knöpunum en um tveggja vikna dvöl er að ræða. Þetta er ákaflega fín lína að fara út nógu snemma til að hestar og knapar jafni sig á ferðalaginu en líka viljum við tryggja að vera ekki of lengi til að koma í veg fyrir að hestarnir smitist og geti þar af leiðandi ekki keppt.“

Íslenski hesturinn er viðkvæmur fyrir smiti erlendra hestasjúkdóma sökum þeirrar einangrunar sem hann lifir við hér á landi, til þess að tryggja að sjúkdómar berist síður til landsins er óheimilt að flytja hestana aftur heim að mótinu loknu. Hvaða áhrif hefur það á undirbúninginn og keppnina sjálfa að hestarnir þurfa að verða eftir úti eftir að keppni líkur?

„Það gerir það að verkum að vanda þarf valið vel og knapinn þarf að vera tilbúinn til að missa hestinn frá sér að mótinu loknu. Landsliðsknapi á aldrei víst sæti því að það er hann og hesturinn sem eiga sætið og þeirra sameiginlegi árangur er það sem verið er að horfa til. Erlendis geta knapar komið aftur og aftur á mót á sama hestinum sem er auðvitað mikill styrkur því að vinnan á bak við hvern og einn afrekshest er gífurleg og ekki síst ef verið er að stefna á að komast á HM. Það að missa hestinn svona frá sér hefur auðvitað áhrif á samkeppnisstöðuna en sýnir gæðin og hæfileikana hjá íslensku landsliðsknöpunum að þrátt fyrir þessa áskorun eru þeir framúrskarandi á sínu sviði,“ segir Kristinn og bætir við: „Ég hvet alla hestamenn til að koma á Allra Sterkustu og styðja þannig við afrekstarfið okkar. Ég get lofað flottri sýningu og frábærri skemmtun og svo vonast ég auðvitað til að sjá sem flesta fylgja hópnum okkar út til Hollands í ágúst.“

Við þökkum Kristni fyrir spjallið og bendum á að hægt er að nálgast miða á Allra Sterkustu hér í vefverslun. Þeir sem vilja kynna sér ferð út á Heimsmeistaramótið geta skoðað ferðapakkana frá Verdi ferðum sem eru einn af styrktaraðilum landsliðsins.

 

 

 

 

 

Fréttasafn

Eftir Berglind Karlsdóttir 7. nóvember 2025
Það er í mörg horn að líta í afreksmálum sérsambands af þeirri stærðargráðu sem Landssamband Hestamannafélaga er.  Nú á haustdögum hefur landsliðsnefnd LH unnið að skoðun afreksmálanna í heild sinni og fjölmargir komið að þeirri vinnu ásamt starfshópnum sem skipaður var til verksins af stjórn LH. Samningar landsliðsþjálfaranna voru í gildi fram í lok september 2025 og runnu þar með sitt skeið og í kjölfarið hafa ýmsar hliðar afreksmálanna verið skoðaðar með það í huga að styrkja starfið enn frekar. Afreks- og landsliðsnefnd hefur á þessum tíma unnið skýran ramma um afreksstarfið byggt á afreksstefnu LH og ÍSÍ, skilgreint verkefni og skyldur þjálfara landsliðanna ásamt verkefnum og skyldum afreksstjóra LH. Þar að auki haf ýmsir verkferlar verið bættir innan afreksstarfsins og þeirra hópa sem starfrækir eru innan þess. Valteymi var sett á laggirnar til aðstoðar þjálfurum hópanna við val í afrekshópa. Valteymið samanstendur af þjálfara hvers hóps ásamt formanni landsliðsnefndar og afreksstjóra LH. Valteymið aðstoðar við gagnaöflun, greiningu árangurs og undirbúning valferlis fyrir hópana og hefur ráðgefandi hlutverk. Landsliðsþjálfari/yfirþjálfari Hæfileikamótunar hefur þó endanlegt ákvörðunarvald um val í hópa sína og ber ábyrgð á því vali. Hóparnir sem starfa undir afreksstarfi LH eru Hæfileikamótun LH, U21-landsliðið og A-landslið. 42 verðandi afreksknapar á aldrinum 14-17 ára voru á dögunum teknir inn í Hæfileikamótun LH sem samanstendur af tveimur hópum. Sigvaldi Lárus Guðmundsson yfirþjálfari Hæfileikamótunar er fullur tilhlökkunnar inn í starfsárið sem hefst þegar fyrsti hópur fer námsferð að Hólum í komandi viku. Svo verða vinnuhelgar eftir áramótin með eigin hest og tveir stórir fræðsludagar með sýnikennslum, fyrirlestrum og foreldrafundi. Hvað landsliðin tvö varðar er það skýrt markmið landsliðsnefndar að sterkustu knapar landsins hverju sinni skipi landsliðshópa LH sem starfrækir eru yfir árið. Landsliðsumgjörðin veitir hópunum reglulega fræðslu og utanumhald, vinnur að fjáröflunarmálum með ýmsum viðburðum og veitir knöpum hópanna tækifæri á að efla og styrkja sig sem afreksknapa árið um kring samhliða því að sinna íþróttinni á sínum heimavelli. Því er það stefnan að landsliðshóparnir nái yfir afreksknapana okkar og eðli málsins samkvæmt þrengjast svo hóparnir þegar líður að stórmótum líkt og HM um þá knapa og hesta sem eru í baráttu um sæti í lokahóp og staðfest er hvaða hestar eru í boði inn í verkefnið. Hlutverk hvers knapa þegar kemur að lokahóp fyrir stórmót skal vera skýrt og við kynningu lokahópa verða varaknapar tilkynntir og þeir hafa gríðarlega mikilvægt hlutverk alveg fram að brottför hrossa frá Íslandi á HM. Nú vinnur afreks- og landsliðsnefnd að því að finna landsliðsþjálfara U21 og A-landsliðanna til starfa, og áhugasömum þjálfaraefnum er bent á að hafa samband við Sigurbjörn Eiríksson formann landsliðsnefndar landslidsnefnd@lhhestar.is eða Berglindi Karlsdóttur framkvæmdarstjóra LH berglind@lhhestar.is og láta þannig vita að sér.
6. nóvember 2025
Íslenska landsliðinu í hestaíþróttum var boðið til móttöku á Bessastöðum, þar sem forseti Íslands Halla Tómasdóttir og Björn bóndi hennar tóku móti hópnum. Tilefni boðsins var frábær árangur Íslenska landsliðsins á HM í Sviss sl. sumar en íslenska landsliðið hlaut alls 9 gullverðlaun á mótinu auk þess að vinna liðabikarinn, stigahæst liða á mótinu. Mótakan var hin hátíðlegasta og var landsliðinu mikill heiður sýndur með því að vera boðið til hennar. Halla fór fögrum orðum um íslenska hestinn sem einn mikilvægasta sendiherra Íslands, því hvert sem hún færi bæri fljótlega á góma íslenski hesturinn og hans sérstaka lundarfar og gangtegundirnar fimm. Einnig hafði hún á orði hversu mikið afrek það væri að vinna liðabikarinn þar sem liðsheildin væri mikilvæg. Svo var gestum boðið að rölta um hið merka hús á Bessastöðum, skoða listaverkin og gjafir hinna ýmsu þjóðhöfðingja í gegnum tíðina, sem prýða húsið. Að lokum var stillt upp fyrir hópmyndatöku á tröppunum á Bessastöðum í haustblíðunni.
30. október 2025
Sigvaldi Lárus Guðmundsson yfirþjálfari Hæfileikamótunar LH næstu tvö árin
27. október 2025
Keppnishestabú ársins verða heiðruð á Uppskeruhátíð hestafólks
27. október 2025
Uppskeruhátíð hestafólks fer fram í Gamla Bíó laugardaginn 8. nóvember nk., þar sem hestafólk af landinu öllu kemur saman til að fagna frábæru keppnisári og heiðra þá sem skarað hafa fram úr. Kvöldið verður í senn hátíðlegt og skemmtilegt. Veitingar verða í höndum LÚX veisluþjónustu, sem býður upp á dýrindis mat í takt við hátíðlega stemninguna í Gamla Bíó. Knapar ársins í hverjum flokki verða verðlaunaðir ásamt keppnishestabúi ársins og hljóta glæsilega verðlaunagripi úr smiðju Inga í Sign. Að loknum kvöldverði og öðrum hefðbundnum dagskrárliðum mun Stuðlabandið halda uppi fjörinu fram eftir nóttu og tryggja alvöru partýstemningu. Miðasala fer fram í vefverslun LH - takmarkaður fjöldi sæta í boði!! Sjáumst 8.nóvember í Gamla bíó!
24. október 2025
Íslandsmót 2026 haldið 17. til 21. júní hjá Sörla
23. október 2025
Knapar ársins verða heiðraðir á Uppskeruhátíð hestafólks
22. október 2025
Viðtal við nýjan formann Landsliðsnefndar um afreks- og landsliðsmál
22. október 2025
Þann 15. maí sl. staðfesti framkvæmdastjórn ÍSÍ úthlutunarreglur vegna kostnaðarþátttöku ungmenna í landsliðsverkefnum. Tilgangur reglnanna er að setja ramma um styrki til sérsambanda ÍSÍ vegna kostnaðarþátttöku ungmenna í landsliðsstarfi á vegum sérsambanda ÍSÍ í samræmi við Afreksstefnu ÍSÍ. Meginmarkmið styrkveitinganna er að styðja ungmenni fjárhagslega sem taka þátt í landsliðsstarfi á vegum sérsambanda ÍSÍ og þurfa að greiða kostnað vegna þátttökunnar að fullu eða að hluta. Einnig að jafna möguleika ungmenna á þátttöku í landsliðsstarfi sérsambanda ÍSÍ. LH sótti um styrk fyrir hönd þeirra sjö ungmenna sem fóru á HM sl. sumar og niðurstaðan varð sú að Afrekssjóður styrkir hvert og eitt þeirra um rúmar 200.000 kr. Styrkurinn er gríðarlega mikilvægur stuðningur við ungmennin okkar og mikil hvatning.  Er þetta hluti af því aukna fjármagni sem stjórnvöld hafa sett í Afrekssjóð á þessu ári og markar sú ákvörðun tímamót í allri umgjörð afreksíþrótta í heild sinni. Vonast er til að sambærilegt fjármagn verði til úthlutunar til sérsambanda úr Afrekssjóði til frambúðar.
17. október 2025
NICH - Nordic Icelandic Horse Collaboration
Lesa meira