Landsliðsdagur U21 og hæfileikamótunar

30. apríl 2024

Á laugardaginn fór fram virkilega spennandi og skemmtilegur dagur hjá U21-landsliðshópi og Hæfileikamótun LH. Veg og vanda að skipulagningu dagsins áttu landsliðsnefnd auk Sigvalda Lárusar Guðmundssonar yfirþjálfara hæfileikamótunar og Heklu Katharínu Kristinsdóttur landsliðsþjálfara U21. Þátttakendur hittust í Hestamiðstöðinni Dal þar sem vel var tekið á móti þeim. Segja má að dagurinn hafi verið lokapunkturinn í starfi vetrarins og mikilvægt innlegg fyrir komandi keppnistímabil. Þarna voru saman komnir um 50 afreksknapar framtíðarinnar og það er ljóst að með þessum glæsilega hópi er framtíðin björt í hestaíþróttum.

Dagurinn byrjaði á frábærum fyrirlestri Margrétar Láru Viðarsdóttur sálfræðingi og fyrrum landsliðskonu í knattspyrnu. Hún fjallaði um andlegan styrk, sjálfstraust og hugrekki og leiðir til að takast á við frammistöðukvíða og óttann við að mistakast. Einnig talaði hún um umtal og öfund sem oft fylgir velgengni. Á eftir henni kom Anna Steinsen frá Kvan og stýrði hún léttu hópefli í reiðhöllinni sem hristi hópinn saman. Þar naut hópurinn sín í allskyns leikjum og verkefnum.

Kiddi Skúla, formaður landsliðsnefndar var svo búinn að leggja drög að góðum hádegismat og Jonni kokkur grillaði fyrir hópinn, færum við þeim bestu þakkir fyrir. Á meðan þau nutu matarins fór fram spennandi spurningakeppni um ýmislegt hestatengt.

Eftir hádegi tók Glódís Rún Sigurðardóttir, heimsmeistari í fimmgangi ungmenna við, en hún fór yfir þjálfunarferli vetrarins á hinum sigursæla Breka frá Austurási. Þau Breki tóku þátt í fjölmörgum greinum í meistaradeildinni í vetur og stóðu ofarlega í þeim öllum. Auk þess sem Glódís Rún Sigurðardóttir fjallaði um leið sína á HM, þær áskoranir sem hafa orðið á veginum og hvernig hún stóð uppi sem heimsmeistari í fimmgangi ungmenna.

Sara Sigurbjörnsdóttir, ríkjandi heimsmeistari í fimmgangi, hélt sýnikennslu með keppnishesti sínum Vísi frá Tvennu. Hún fór yfir þjálfunarstund með Vísi og fjallaði um reynslu sína af Heimsmeistaramótinu síðastliðið sumar og undirbúning hennar og Flóka frá Oddhóli fyrir stóru stundina í Hollandi. Að lokum hélt Sigurbjörn Bárðarson A-landsliðsþjálfari og sigursælasti knapi Íslandssögunnar sýnikennslu með hesti sínum Nagla frá Flagbjarnarholti. Hann fór um víðan völl í sinni umfjöllun og lagði áherslu á einfaldleikann í þjálfun og mikilvægi þess að það væri skilningur milli knapa og hests. Heilt yfir var þetta virkilega fræðandi og skemmtilegur dagur og mikilvægt innlegg inn í þjálfunina hjá þessum efnilegu knöpum.

Við ræddum við Kristinn Skúlason formann landsliðsnefndar um hæfileikamótunina og afreksstefnu LH: „Hæfileikamótun LH hefur verið starfrækt síðan 2020 og er markmiðið með henni að byggja enn frekar undir árangur í hestaíþróttum og undirbúa efnileg knapa fyrir þjálfun og keppni á hæsta stigi. Nú þegar erum við farinn að sjá árangurinn sem þetta verkefni er að skila.“ segir Kiddi og bættir við „Það var frábært að geta átt svona dag með hópnum og við erum mjög þakklát fyrir þær góðu móttökur sem við fegnum hjá Hestamiðstöðinni Dal, þar var öll aðstaða til fyrirmyndar fyrir kennsludag af þessu tagi. Fyrirlesararnir sem komu voru einnig frábærir og svo er ofboðslega dýrmætt hversu viljugir landsliðsknaparnir okkar eru til að koma og gefa af sér á degi sem þessum. Þeir eru miklar fyrirmyndir og það er frábært að sjá þá leggja sitt af mörkum til að undirbúa næstu kynslóð hugsanlegra landsliðsknapa. Það var einnig mjög gaman sjá Glódís Rún sem er nú á sínu fyrsta ári sem fullorðin koma og miðlað reynslu sinni og þekkingu en hún er ein af þeim sem hafa verið virk í starfi U21.“

 

„Framundan er Norðurlandamót í hestaíþróttum og dagur sem þessi er mikilvægur til að þjappa hópum saman og mynda samfellu í starfinu. Á næsta ári er svo heimsmeistara mót í Sviss og mikilvægt að þau sem setja stefnuna á þessi mót hugi vel að undirbúningi. Með afrekstefnu LH myndast dýrmæt tengsl milli hæfileikamótunar, U21 og A-landsliðsins enda er það ein af forsendum árangurs að þessir þættir vinni vel saman.“

Fréttasafn

8. ágúst 2025
Forkeppni í fjórgangi er nú lokið. Ísland átt fimm fulltrúa, þrjá í fullorðinsflokki þau Helgu Unu Björnsdóttur og Ósk frá Stað, Aðalheiði Önnu Guðjónsdóttur og Hulinn frá Breiðstöðum og Jóhönnu Margréti Snorradóttur og Össu frá Miðhúsum. Í ungmennaflokk kepptu fyrir Íslands hönd þau Herdís Björg Jóhannsdóttir og Kormákur frá Kvistum og Védís Huld Sigurðardóttir og Ísak frá Þjórsárbakka. Herdís og Kormákur riðu á vaðið fyrir hönd íslensku keppendanna en lukkan var ekki í liði með þeim í dag því Kormáki fipaðist á yfirferðinni og útkoman var 5,87. Næst í braut af íslensku keppendunum komu þau Védís Huld Sigurðardóttir og Ísak frá Þjórsárbakka en þau voru í feikna stuði og hlutu í einkunn 7,07 og eru önnur inn A-úrslit ungmenna. Þriðjar í braut íslensku keppendanna voru þær Helga Una Björnsdóttir og Ósk frá Stað með stórglæsilega sýningu sem skilaði þeim 7,47 og beint inn í A-úrslit. Fjórðu í braut af íslensku keppendunum voru síðan Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir og Hulinn frá Breiðstöðum en því miður missti Hulinn skeifu og þau hlutu ekki einkunn. Fimmtu í braut komu loks Jóhanna Margrét Snorradóttir og Assa frá Miðhúsum og enduðu þær með 7,07 og lönduðu þar með sæti í B-úrlitum. Af íslensku knöpunum eigum við því í fullorðinsflokki einn í A-úrslitum og einn í B-úrslitum, og í ungmennaflokki er einn í A-úrslitum. Anne Stine Haugen og Hæmir frá Hyldsbæk leiða fullorðinsflokkinn með yfirburðum en þau hlutu hvorki meira né minna en 8,20 fyrir sína mögnuðu sýningu en þau keppa fyrir hönd Noregs. Eiðfaxi hitti Anne Stine eftir þeirra sýnungu sem sjá má á fréttasíðu Eiðfaxa en hjá Eiðfaxa er að finna fjölmörg stórskemmtileg viðtöl við knapa að loknum sýningum sem og gesti og gangandi. Næst á dagskrá er yfirlit fyrir 7 vetra og eldri hryssur og stóðhesta. Þar eigum við tvo fulltrúa þau Eind frá Grafarkoti, sýnandi Bjarni Jónasson og Hljóm frá Auðsholtshjáleigu, sýnandi Árni Björn Pálsson. Eind hlaut 8,41 í fordómi og var þriðja hæst í sínum flokki. Hljómur frá Auðsholtshjáleigu var hæstur í sínum flokki eftir fordóm með 8,77 í aðaleinkunn. Það verður því einkar spennandi að fygjast með þeim á eftir.  Í kvöld fara svo fram seinni tveir sprettirnir í 250m skeiði. Þar eigum við fimm fulltrúa og sem stendur eiga þau Kristján Árni Birgisson og Krafla frá Syðri-Rauðalæk besta tímann í ungmennaflokk en þau hlupu á tímanum 22,38 sek. Í fullorðinsflokki eiga þeir Sigursteinn Sumarliðason og Krókus frá Dalbæ annan besta tímann eða 21,97 sek. Það verður því spennandi að sjá hvernig þeim og restinni af íslenska hópnum gengur í kvöld.
7. ágúst 2025
Þá er forkeppni í fimmgangi lokið, við áttum fimm fulltrúa, þrjá í fullorðinsflokki og tvo í ungmennaflokki.
7. ágúst 2025
Eftir yfirlit í flokki fimm og sex vetra kynbótahrossa standa þrjú af fjórum hrossum frá Íslandi efst í sínum flokki.
7. ágúst 2025
Kristján Árni og Sigursteinn standa efstir íslensku keppendanna
7. ágúst 2025
Árni Björn leiðir í tölti með miklum yfirburðum
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 6. ágúst 2025
Þá er forkeppni í slaktaumatölti lokið. Þar átti Ísland fjóra fulltrúa, þrjá í fullorðinsflokki og einn í ungmennaflokki.
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 6. ágúst 2025
Ísland landaði sínum fyrsta heimsmeistaratitli á HM 2025
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 6. ágúst 2025
Heimsmeistaramót Íslenska hestsins hófst á kynbótadómum.
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 4. ágúst 2025
Sig­ur­björn seg­ir alla hest­ana vera í góðu standi eft­ir ferðalagið. Hann bend­ir einnig á mik­il­vægi þess að styðja við bak liðsfé­lag­anna þegar keppn­in hefst á morg­un.
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 4. ágúst 2025
Heims­meist­ara­mót ís­lenska hests­ins hefst með form­leg­um hætti í fyrramálið og kynbótadómum.
Lesa meira