Landsliðið komið á áfangastað í Sviss

29. júlí 2025

Flutningskeðjan til Sviss - vant fólk í hverju rúmi

HM í Sviss er eins og allir hestamenn vita handan við hornið og hefst formlega á þriðjudaginn í næstu viku með kynbótasýningum og keppni í gæðingaskeiði. Íslensku hestarnir eiga langt og mikið ferðalag á mótsstað en í gærkvöldi, mánudagskvöld, flugu þeir til Liége í Belgíu, fóru þaðan eldsnemma í morgun, þriðjudag, og komu til Birmenstorf í Sviss þar sem mótið fer fram eftir ríflega sólahrings ferðalag.


Það er margt sem þarf að ganga upp svo að hestarnir komist á áfangastað á þægilegan máta, eins óþreyttir og kostur er, og margar hendur sem leggja mikið á sig til þess að greiða götur liðsins með hrossin. Þegar undirbúningur ferðalagsins hefst má segja að það virki eins og heilmikil keðja að sjá til þess að ferðin gangi vel og það er talsvert flóknara að flytja hross og búnað til Sviss en annarra Evrópulanda þar sem Sviss er ekki í Evrópusambandinu. Með í för er allur búnaður og allt hey sem hrossin fá á meðan á mótinu stendur, flutt frá Íslandi auk hestanna sjálfra.


Villi í Litlu-Tungu hefur um árabil séð íslenska landsliðinu fyrir heyi og því er tryggt gæðafóður fyrir hrossin yfir allt mótið. Búnaður knapanna sem fylgir hverjum hesti er pakkaður í sérmerkta kassa hjá hverjum og einum. Þessum kössum og öllum farmi var safnað í Víðidalnum á sunnudagskvöldið og Ómar Jóhannsson bílstjóri hjá Líflandi sá um að keyra farminn til Keflavíkur fyrir brottför.

Horse Export, Gunnar og Krissa, sjá um útflutninginn á hrossunum og Tóta Eyvinds hefur stýrt þeirri vinnu eins og herforingi en sú vinna er meira en að segja það því allir pappírar þurfa að vera í góðum farvegi til þess að þetta gangi.

RML, Ráðgjafarmiðstöð Landbúnaðarins, styrkir landsliðið um útgáfu vegabréfa fyrir hestana og hafa lagt á sig mikinn krók í sumarleyfistíð til þess að gefa út passa fyrir hrossin á þeim tíma sem hentar fyrir útflutninginn. Það er mikill styrkur fyrir landsliðið að eiga hauk í horni í Hrefnu hjá RML sem prentaði passa samdægurs og dýralæknisskoðun fór fram á nokkrum stöðum yfir daginn.

MAST sér um að votta passana, gerir lokaheilbrigðisskoðun og sannreynir að allt stemmi á útflutningsdeginum, fyrir flugið og gekk það útkall ljómandi vel undir styrkri stjórn Úndínu dýralæknis hjá MAST.

Icelandair Cargo styrkir svo liðið með því að fljúga hrossum, heyi og búnaði út. Þar var alllur undirbúningur með miklum sóma, búið var að fljúga hluta af heyinu út deginum fyrr til þess að það væri klárt á flugvellinum við komu hrossanna og hægt að gefa vatn og hey strax eftir lendingu í Liége. Í vélinni fylgja hestunum vanir menn, undir stjórn G. Snorra Ólasonar sem var sérstaklega fenginn í þetta flug, enda klettöruggur fylgdarmaður hrossa um árabil.


Þegar út er komið er það Inga Mueller sem sér um öll okkar mál, en hún er innflutningsaðili hrossanna í Evrópu. Hún sér um að keyra hrossin og búnað á mótsstað, sér um öll samskipti við landamæra- og tollayfirvöld á leið okkar til Sviss og sér um að allir skili sér á áfangastað.


Fimm knapar og Elli okkar á Skíðbakka fóru utan í gærmorgun og voru mætt á flugvöllinn til þess að taka á móti hrossunum inni á flugvallarsvæðinu. Þau sjá um að taka vafninga af fótum hrossanna, gefa þeim vatn og hey og koma þeim í hvíld fyrir flutninginn landleiðina. Aðrir landsliðsknapar flugu svo beint til Sviss í morgun og voru tilbúnir á mótsstað að taka á móti hrossunum við komu.

Máltakið segir að engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn og það má með sanni segja að flutningskeðjan, þó löng sé, hafi haldið og allir eru klárir á áfangastað. LH færir öllum þeim sem hafa unnið baki brotnu að því að láta ferðalagið ganga upp, kærar þakkir.


Það sem nú tekur við er endurheimt fyrir hrossin, göngu- og hjólatúrar í rólegheitum til þess að aðlagast nýju umhverfi og svo hefjast æfingar og þjálfun fyrir mótið sjálft á föstudaginn.


Við munum fygljast ítarlega með gangi mála. 

Fréttasafn

10. september 2025
Dagana 21. til 23. nóvember nk. verður haldið leiðtoganámskeið FEIF sem ætlað er ungmennum á aldrinum 18-26 ára. Námskeiðið er á vegum Danska Íslandshestasambandsins (DI) og er haldið í Gringdsted Landbúnaðarskólanum í Billund í Danmörku. Yfirskrift námskeiðsins er „Fighting Fit – Conflict, Fitness & Teamwork in Action“ og markmiðið er að hvetja ungmenni til að taka þátt í félagsstörfum í hestamennsku og að þátttakendur efli færni sína sem leiðtogar. Aðalfyrirlesarar verða Rebekka Hyldgaard, sjúkraþjálfari, sem fjallar um hvernig líkamsþjálfun getur bætt árangur í reiðmennsku, og Professor Janne Winther Christensen frá Aarhus University sem fjallar um nýjustu rannsóknir um „ animal conflict behaviour “. Þátttaka í viðburði sem þessum gefur frábæra reynslu, skapar tengsl og styrkir þátttakendur til frekari leiðtoga og ábyrgðarstarfa innan hestamannafélaganna. Við hvetjum hestamannafélögin til að hvetja fulltrúa sína til þátttöku á þessu námskeiði og minnum á mikilvægi þess að efla ungt fólk til þátttöku í nefndum og störfum innan félaganna til að efla nýliðun ásamt því að móta leiðtoga framtíðarinnar. Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna á heimasíðu FEIF. Umsóknarfrestur er 15. október 2025 . Námskeiðið hefst föstudaginn 21. nóvember kl 16:00 og endar sunnudaginn 23. nóvember kl 13:00. Kostnaður er 200€ og innifalið í því er gisting, matur og fræðsla.
10. september 2025
Landssamband hestamannafélaga auglýsir til umsóknar eftirfarandi mót: · Íslandsmót fullorðinna og ungmenna 2028 · Íslandsmót barna og unglinga 2028 · Íslandsmót í gæðingalist 2026 (innanhússmót sem haldið skal fyrir 15. maí) · Áhugamannamót Íslands 2026 Dagsetningar mótanna eru ákveðnar í samráði við mótshaldara og að teknu tilliti til dagsetninga annarra móta. Á Íslandsmóti fullorðinna og ungmenna er keppt í íþróttakeppni í efsta styrkleikaflokki þar sem keppendur eru einir inni á vellinum í einu. Á Íslandsmóti barna og unglinga er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni. Á Íslandsmóti í gæðingalist er keppt í öllum aldursflokkum og skal mótið haldið fyrir 15. maí 2026. Á Áhugamannamóti Íslands er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni í 1., 2. og 3. flokki. Umsóknir áhugasamra mótshaldara skulu berast Landssambandi hestamannafélaga fyrir 1. október nk. á netfangið lh@lhhestar.is .
14. ágúst 2025
Hörður Hákonarson hestamaður og alþjóðlegur hestaíþróttadómari í Reykjavík er látinn.
13. ágúst 2025
Til hamingju Ísland með frábært landslið
13. ágúst 2025
Úrslit í fjórgangi & fimmgangi
10. ágúst 2025
Þvílíkur morgunn!!!
10. ágúst 2025
Þá eru B-úrslitum lokið og ljóst hvaða keppendur bæta sér í toppbaráttuna í hverjum flokki.
10. ágúst 2025
Kristján Árni tvöfaldur heimsmeistari
9. ágúst 2025
Kristján Árni - Heimsmeistari
8. ágúst 2025
Niðurstöður úr kynbótasýningum sjö vetra og eldri hrossa
Lesa meira