Þrír dagar til stefnu!
Nú er heldur betur farið að styttast í að mótið hefjist
Íslenska teymið er komið á staðinn og knapar fá fyrstu æfingar á keppnisvellinum um helgina. Knaparnir hafa verið duglegir síðan þeir komu á staðinn að labba og hjóla með hestana en nú eftir því sem nær dregur þéttist dagskráin og athygli og fókus skerpist enn frekar og við taka hnitmiðaðar æfingar.
Það er mikill hugur í liðinu og stemningin er góð. Hér eru allir mættir til að gera sitt besta og rúmlega það. Hestarnir komu allir vel undan flutningum og virðast kunna vel við sig.
Nú eru þrír dagar í að keppni hefjist. Mótið hefst á kynbótasýningum á þriðjudaginn en svo síðar þann daginn fer fram keppni í gæðingaskeiði, sem er fyrsta íþróttagrein mótsins.
Í kringum íslenska liðið er sterkt og öflugt teymi starfsmanna og sjálfboðaliða, sem hafa á undanförnum vikum og mánuðum unnið hörðum höndum að því að undirbúa ferðina og munu halda áfram að styðja við knapana nú þegar mótið er um það bil að hefjast.
Í teyminu eru: Berglind Karlsdóttir framkvæmdastjóri LH, Erlendur Árnason járningamaður, Hinrik Sigurðsson starfsmaður LH, Kristinn Skúlason formaður landsliðsnefndar, Sigurbjörn Eiríksson, varaformaður landsliðsnefndar og Matthias Rettig dýralæknir. Auk þeirra eru Sóley Margeirsdóttir, Ólafur Gunnarsson, Linda B. Gunnlaugsdóttir formaður LH, Þórhildur Katrín Stefánsdóttir varaformaður LH og Unnur Rún Sigurpálsdóttir.
Þjálfarateymið skipa Sigurbjörn Bárðarson A-landsliðs þjálfari og Hekla Kristinsdóttir Landsliðsþjálfari U21.
Umgjörðin í kringum liðið er eins og best verður á kosið og fókusinn hjá knöpunum er áþreifanlega skarpur. Liðsfundirnir og æfingar eru vel undirbúnar og markvissar enda skiptir hver dagur miklu máli í aðdraganda mótsins.
Það er klárt mál að þessi hópur mun leggja allt í sölurnar til að ná markmiðum sínum og vera liðinu og landinu til sóma.
Endilega fylgist með hópnum okkar á Facebook eða Instagram: Landssamband hestamannafélaga (@lhhestar) en þar verða knapar og teymið daglega með innsýn inn í stemninguna á staðnum.
Áfram Ísland!
Fréttasafn







