Landsþing Landssambands Hestamannafélaga

Berglind Karlsdóttir • 8. nóvember 2022

63. Landsþing Landssambands Hestamannafélaga fór fram um liðna helgi, 4.-5. nóvember 2022. Rétt til þingsetu áttu 173 fulltrúar frá 40 aðildarfélögum LH en þingið sóttu 157 þingfulltrúar.

Landsþingið var að þessu sinni haldið í Víðidal af Hestamannafélaginu Fáki í Reykjavík, en Fákur á 100 ára afmæli á þessu ári og því vel við hæfi að Fáksmenn væru gestgjafar landsþingsins.

Dagskrá þingsins var nokkuð hefðbundin, en fjöldi mála lá fyrir þinginu að taka afstöðu til ásamt því að kjósa sér stjórn til næstu tveggja ára.

Í upphafi þings voru ávörp heiðursgesta flutt, en það voru Gunnar Sturluson forseti FEIF, Sveinn Steinarsson formaður Deildar hrossabænda og Viðar Garðarsson stjórnarmaður Íþrótta- og ólympíusamands Íslands sem fluttu ávörp ásamt Ásmundi Einari Daðasyni ráðherra mennta- og barnamála sem afhenti æskulýðsbikar LH. Þá var látinna félaga minnst og nokkrar viðurkenningar veittar.

Fulltrúi Landsmóts á Rangárbökkum 2022 flutti samantekt eftir landsmótið síðastliðið sumar sem kom vel út, og ljóst að framkvæmdaraðilar mótsins geta borið höfuðið hátt eftir vel heppnað mót sem var rekið með miklum myndarbrag.  Þar á eftir kynnti verkefnisstjóri Horses of Iceland þeirra vinnu og samstarfið við LH og önnur samtök.

Guðni Halldórsson formaður LH flutti skýrslu stjórnar og flutti einnig ræðu formanns LH þar sem hann fór um víðan völl um starf sitt á persónulegum nótum og það sem hann hefur upplifað síðastliðið kjörtímabil sem var hans fyrsta í starfi.

Þar að auki var svo farið yfir ársreikninga LH, fjárhagsáætlun næstu tveggja ára og reikninga eignarhaldsfélaga sambandsins sem eru Landsmót ehf. og Skógarhólar ehf.

Þessi gögn er hægt að kynna sér og skoða öll á www.lhhestar.is.

Eins og fram kom hér að ofan voru margar tillögur sem lágu fyrir til afgreiðslu á þinginu að þessu sinni, en helst er þar að nefna nýja uppsetningu á regluverkinu í heild sinni og gagngerar endurbætur á lögum LH í takt við lög annarra sérsambanda ÍSÍ. Uppsetningin hefur verið færð til samræmis við lög og reglur FEIF, alþjóðasamtaka íslenska hestsins. Með þessari aðgerð sem samþykkt var á þinginu, er regluverk Landssambands hestamannafélaga orðið mun aðgengilegra og búið að hreinsa verulega til í regluverkinu og færa það til betri vegar.

Í nefndarstörfum þingsins sem fram fóru á föstudagskvöldinu hafði allsherjarnefndin úr miklum upplýsingum að vinna þegar fjallað var um tillögur um breytingu á lögum og reglum sambandsins.

Að auki við allsherjarnefnd voru það keppnisnefnd, reiðveganefnd, fjárlaganefnd og æskulýðsnefnd sem tóku til starfa og fjölluðu um málefni og tillögur úr viðeigandi málaflokkum og afgreiddu álit nefnda á tillögum sem svo voru bornar fram fyrir þingið á laugardegi.

Dagskrá laugardagsins stýrðist fyrst og fremst af þingfundum sem stóðu lengi fram eftir degi enda fjöldi mála sem kjósa þurfti um, og fjöldi tillagna á þinginu var slíkur að mörgum þótti nóg um þegar hæst lét.

Kosning um tillögu keppnisnefndar LH vegna Íslandsmóts var svo tvísýn að eftir tvær talningar á atkvæðum í salnum, sem skiluðu mismunandi niðurstöðum, var brugðið á það ráð að telja þingfulltrúa út úr húsi til þess að hægt væri að skera úr um niðurstöðu kosningarinnar.

Eftir að tillaga keppnisnefndar LH um Íslandsmót var felld á þinginu með minnsta mögulega mun þurfti að kalla keppnisnefnd þingsins til starfa að nýju til þess að afgreiða álit og fjalla um tvær tillögur að Íslandsmótum hennar í stað, og fór kosning fram síðar um daginn.

Ný Íslandsmótstillaga var svo samþykkt, þar sem helstu breytingar frá fyrra ári eru að stöðulistar inn á mótið falla úr gildi og þeirra í stað verður lágmarkseinkunn í öllum greinum, föst dagsetning mótsins var tekin út og ný keppnisgrein í fimi sett inn í greinar Íslandsmóts yngri flokka.

Fimikeppni, sem hefur gengið undir nafninu Gæðingafimi LH, hefur nú verið samþykkt undir regluverki LH, og efnt verður til nafnasamkeppni um nafn á greinina til framtíðar.  

Eftir þingfund laugardagsins var kynning frambjóðenda til stjórnar, en kosið var í aðalstjórn og varastjórn LH til næstu tveggja ára. Guðni Halldórsson var einn í framboði til formanns, og var því ekki kosið um formann að þessu sinni, en í framboði til aðastjórnar voru hvorki meira né minna en 12 manns í framboði um þau 6 stjórnarsæti sem skipuð eru auk formannsins. Til varastjórnar voru 9 manns í framboði um 5 sæti sem skipuð eru.

Stjórn LH 2022-2024 skipa:

  • Guðni Halldórsson formaður, Hestamannafélagið Hörður
  • Edda Rún Ragnarsdóttir, Hestamannafélagið Fákur
  • Ólafur Gunnarsson, Hestamannafélagið Jökull
  • Hákon Hákonarson, Hestamannafélagið Hörður
  • Þórhildur Katrín Stefánsdóttir, Hestamannafélagið Hornfirðingur
  • Unnur Rún Sigurpálsdóttir, Hestamannafélagið Skagfirðingur
  • Sóley Margeirsdóttir, Hestamannafélagið Geysir

Varastjórn LH 2022-2024

  • Gróa Björg Baldvinsdóttir, Hestamannafélagið Fákur
  • Randi Holaker, Hestamannafélagið Borgfirðingur
  • Sveinn Heiðar Jóhannesson, Hestamannafélagið Sörli
  • Birna Tryggvadóttir, Hestamannafélagið Léttir
  • Valdimar Magnús Ólafsson, Hestamannafélagið Dreyri

63. landsþing Landssambands Hestamannafélaga var í heildina vel heppnað og gott þing þar sem mikið var rætt og gert. Umræðan var þó í þá áttina að tíminn sem færi í að lagfæra orðalag í reglugerðum, breyta smáatriðum og fínstilla væri of mikill, og mögulega á kostnað uppbyggilegrar umræðu um stór mál til framtíðar, eins og nýliðunarmál, æskulýðsmál og stefnumótun.

Á móti má segja að nú sé búið að gera heilmikla tiltekt í lögum og reglum, koma þeim í góðan farveg og stjórn LH komin með heimild til þess að lagfæra slík atriði á milli þinga í stað þess að eyða dýrmætum tíma þingheims í umræður um orðalag í einstökum reglugerðum, og því eru allar forsendur fyrir breyttu verklagi í þá áttina á næstu ársþingum.

Landssamband hestamannafélaga þakkar Hestamannafélaginu Fáki gestrisnina á þinginu. Stjórn og starfsmenn LH þakka þingfulltrúum kærlega fyrir gott landsþing, og halda inn í nýtt kjörtímabil með kraft og von í brjósti um góð ár framundan í hestamennskunni á Íslandi.

 

 

 

 

 

 

Fréttasafn

Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 30. apríl 2025
Dagur Íslenska hestsins er á morgun, 1. maí. Hestamannafélög hérlendis sem og erlendis munu í tilefni af deginum bjóða upp á fjölbreytta dagskrá. Við hverjum áhugasama til að kynna sér viðburði á sínu heimasvæði.  Þá verður einnig spennandi dagskrá í Fjölskyldu og Húsdýragarðinum:
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 29. apríl 2025
Í gær mánudaginn 28. apríl fór fram stefnumótunarfundur Landssambands hestamannafélaga. Stjórn boðaði fundinn og voru fulltrúar hestamannafélaganna hvattir til að mæta á staðinn eða vera með á Teams. Markmið fundarins var að skapa sameiginlega framtíðarsýn fyrir samband allra hestamanna og var því ákaflega gleðilegt að sjá hversu margir tóku frá tíma til að vera með okkur í þessari vinnu en um 30 manns mættu á staðinn og 50 tóku þátt í fjarfundi. Petra Björk Mogensen stýrði fundinum ásamt Lindu Björk Gunnlaugsdóttur. Þær fengu svo dygga aðstoð frá þeim Jónínu Björk Vilhjálmsdóttur og Anna Kristín Kristinsdóttir sem tóku saman niðurstöður fundarins.
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 28. apríl 2025
Á 77. Íþróttaþingi ÍSÍ, sem fram fer dagana 16. og 17. maí nk. á Hótel Natura, verður kosið um forseta ÍSÍ til fjögurra ára og um sjö meðstjórnendur í framkvæmdastjórn ÍSÍ, til fjögurra ára. Skilafrestur framboða rann út föstudaginn 25. apríl sl. kl. 16:00. Til kjörnefndar bárust fimm framboð til embættis forseta ÍSÍ og níu framboð til setu í framkvæmdastjórn ÍSÍ.  Kjörnefnd ÍSÍ hefur úrskurðað öll innsend framboð gild.
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 27. apríl 2025
Nú er rétt rúm vika síðan hinn glæsilegi viðburður Allra sterkustu fór fram. Mikil stemning myndaðist að venju enda glæsilegar sýningar, keppni, happadrætti og stóðhestavelta í gangi. Á kvöldum sem þessum er dásamlegt að hafa fullt hús af áhorfendum og var það rauninn þann 19. apríl. Hinsvegar komust ekki allir sem vildu á sýninguna og því gleður það að tilkynna að Eiðfaxi tók upp herlegheitin og verður hægt að horfa á alla sýninguna á streymisveitunni þeirra frá og með miðri næstu viku.
Eftir Berglind Karlsdóttir 24. apríl 2025
Á Allra sterkustu var skrifað undir samstarfssamning milli Topreiter og Landsliðs Íslands í hestaíþróttum. Samningurinn gildir fram yfir Heimsmeistaramót 2027.
Eftir Berglind Karlsdóttir 23. apríl 2025
Hægt er að sækja vinningana á Skrifstofu LH Engjavegi 6 í Laugardal frá og með mánudeginum 28. apríl gegn framvísun happdrættismiðans.
Eftir Berglind Karlsdóttir 23. apríl 2025
Á Allra sterkustu var skrifað undir áframhaldandi samstarfssamning milli Landsliðs Íslands í hestaíþróttum og Líflands.
Eftir Hinrik Sigurðsson 23. apríl 2025
Ákveðið hefur verið að framlengja skráningafresti fyrir fyrsta Íslandsmótið í gæðingalist sem verður haldið í Samskipahöllinni í Spretti dagana 29.apríl – 1.maí 2025. Skráningafrestur er til miðnættis miðvikudaginn 23.apríl.
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 22. apríl 2025
Kæru hestamenn, takk kærlega fyrir samveruna og samvinnuna í kringum ALLRA STERKUSTU. Viðburðurinn heppnaðist vel og skiptir það sköpum fyrir landsliðin að finna þenna mikla áhuga og stuðning úr greininni. Viðburður eins og þessi gerist ekki að sjáflum sér. Að baki honum standa óteljandi klukkustundir sem sjálfboðaliðar hafa ljáð verkefninu, fullt af fyrirtækjum hafa lagt til fjármuni eða aðföng og stóðhestaeigendur sem hafa gefið tolla í stóðhestaveltuna. Þá hefur stjórn, skrifstofa, landsliðsnefnd, framkvæmdanefnd, landsliðsþjálfarar og landsliðsknaparnir sjálfir lagt dag við nótt að undirbúa og framkvæma þennan glæsilega viðburð.
Eftir Jónína Sif Eyþórsdóttir 22. apríl 2025
Ný stikuð leið frá Dalakofa í Landmannahelli. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitti Hestamannafélaginu Geysi styrk á síðasta ári til að stika svokallaðan Dalastíg. Leiðin þykir gífurlega falleg en er bæði brött og villugjörn og því miklar úrbætur að fá leiðina betur merkta og skráða.
Lesa meira

Styrktaraðilar