Landsþing Landssambands Hestamannafélaga

8. nóvember 2022

63. Landsþing Landssambands Hestamannafélaga fór fram um liðna helgi, 4.-5. nóvember 2022. Rétt til þingsetu áttu 173 fulltrúar frá 40 aðildarfélögum LH en þingið sóttu 157 þingfulltrúar.

Landsþingið var að þessu sinni haldið í Víðidal af Hestamannafélaginu Fáki í Reykjavík, en Fákur á 100 ára afmæli á þessu ári og því vel við hæfi að Fáksmenn væru gestgjafar landsþingsins.

Dagskrá þingsins var nokkuð hefðbundin, en fjöldi mála lá fyrir þinginu að taka afstöðu til ásamt því að kjósa sér stjórn til næstu tveggja ára.

Í upphafi þings voru ávörp heiðursgesta flutt, en það voru Gunnar Sturluson forseti FEIF, Sveinn Steinarsson formaður Deildar hrossabænda og Viðar Garðarsson stjórnarmaður Íþrótta- og ólympíusamands Íslands sem fluttu ávörp ásamt Ásmundi Einari Daðasyni ráðherra mennta- og barnamála sem afhenti æskulýðsbikar LH. Þá var látinna félaga minnst og nokkrar viðurkenningar veittar.

Fulltrúi Landsmóts á Rangárbökkum 2022 flutti samantekt eftir landsmótið síðastliðið sumar sem kom vel út, og ljóst að framkvæmdaraðilar mótsins geta borið höfuðið hátt eftir vel heppnað mót sem var rekið með miklum myndarbrag.  Þar á eftir kynnti verkefnisstjóri Horses of Iceland þeirra vinnu og samstarfið við LH og önnur samtök.

Guðni Halldórsson formaður LH flutti skýrslu stjórnar og flutti einnig ræðu formanns LH þar sem hann fór um víðan völl um starf sitt á persónulegum nótum og það sem hann hefur upplifað síðastliðið kjörtímabil sem var hans fyrsta í starfi.

Þar að auki var svo farið yfir ársreikninga LH, fjárhagsáætlun næstu tveggja ára og reikninga eignarhaldsfélaga sambandsins sem eru Landsmót ehf. og Skógarhólar ehf.

Þessi gögn er hægt að kynna sér og skoða öll á www.lhhestar.is.

Eins og fram kom hér að ofan voru margar tillögur sem lágu fyrir til afgreiðslu á þinginu að þessu sinni, en helst er þar að nefna nýja uppsetningu á regluverkinu í heild sinni og gagngerar endurbætur á lögum LH í takt við lög annarra sérsambanda ÍSÍ. Uppsetningin hefur verið færð til samræmis við lög og reglur FEIF, alþjóðasamtaka íslenska hestsins. Með þessari aðgerð sem samþykkt var á þinginu, er regluverk Landssambands hestamannafélaga orðið mun aðgengilegra og búið að hreinsa verulega til í regluverkinu og færa það til betri vegar.

Í nefndarstörfum þingsins sem fram fóru á föstudagskvöldinu hafði allsherjarnefndin úr miklum upplýsingum að vinna þegar fjallað var um tillögur um breytingu á lögum og reglum sambandsins.

Að auki við allsherjarnefnd voru það keppnisnefnd, reiðveganefnd, fjárlaganefnd og æskulýðsnefnd sem tóku til starfa og fjölluðu um málefni og tillögur úr viðeigandi málaflokkum og afgreiddu álit nefnda á tillögum sem svo voru bornar fram fyrir þingið á laugardegi.

Dagskrá laugardagsins stýrðist fyrst og fremst af þingfundum sem stóðu lengi fram eftir degi enda fjöldi mála sem kjósa þurfti um, og fjöldi tillagna á þinginu var slíkur að mörgum þótti nóg um þegar hæst lét.

Kosning um tillögu keppnisnefndar LH vegna Íslandsmóts var svo tvísýn að eftir tvær talningar á atkvæðum í salnum, sem skiluðu mismunandi niðurstöðum, var brugðið á það ráð að telja þingfulltrúa út úr húsi til þess að hægt væri að skera úr um niðurstöðu kosningarinnar.

Eftir að tillaga keppnisnefndar LH um Íslandsmót var felld á þinginu með minnsta mögulega mun þurfti að kalla keppnisnefnd þingsins til starfa að nýju til þess að afgreiða álit og fjalla um tvær tillögur að Íslandsmótum hennar í stað, og fór kosning fram síðar um daginn.

Ný Íslandsmótstillaga var svo samþykkt, þar sem helstu breytingar frá fyrra ári eru að stöðulistar inn á mótið falla úr gildi og þeirra í stað verður lágmarkseinkunn í öllum greinum, föst dagsetning mótsins var tekin út og ný keppnisgrein í fimi sett inn í greinar Íslandsmóts yngri flokka.

Fimikeppni, sem hefur gengið undir nafninu Gæðingafimi LH, hefur nú verið samþykkt undir regluverki LH, og efnt verður til nafnasamkeppni um nafn á greinina til framtíðar.  

Eftir þingfund laugardagsins var kynning frambjóðenda til stjórnar, en kosið var í aðalstjórn og varastjórn LH til næstu tveggja ára. Guðni Halldórsson var einn í framboði til formanns, og var því ekki kosið um formann að þessu sinni, en í framboði til aðastjórnar voru hvorki meira né minna en 12 manns í framboði um þau 6 stjórnarsæti sem skipuð eru auk formannsins. Til varastjórnar voru 9 manns í framboði um 5 sæti sem skipuð eru.

Stjórn LH 2022-2024 skipa:

  • Guðni Halldórsson formaður, Hestamannafélagið Hörður
  • Edda Rún Ragnarsdóttir, Hestamannafélagið Fákur
  • Ólafur Gunnarsson, Hestamannafélagið Jökull
  • Hákon Hákonarson, Hestamannafélagið Hörður
  • Þórhildur Katrín Stefánsdóttir, Hestamannafélagið Hornfirðingur
  • Unnur Rún Sigurpálsdóttir, Hestamannafélagið Skagfirðingur
  • Sóley Margeirsdóttir, Hestamannafélagið Geysir

Varastjórn LH 2022-2024

  • Gróa Björg Baldvinsdóttir, Hestamannafélagið Fákur
  • Randi Holaker, Hestamannafélagið Borgfirðingur
  • Sveinn Heiðar Jóhannesson, Hestamannafélagið Sörli
  • Birna Tryggvadóttir, Hestamannafélagið Léttir
  • Valdimar Magnús Ólafsson, Hestamannafélagið Dreyri

63. landsþing Landssambands Hestamannafélaga var í heildina vel heppnað og gott þing þar sem mikið var rætt og gert. Umræðan var þó í þá áttina að tíminn sem færi í að lagfæra orðalag í reglugerðum, breyta smáatriðum og fínstilla væri of mikill, og mögulega á kostnað uppbyggilegrar umræðu um stór mál til framtíðar, eins og nýliðunarmál, æskulýðsmál og stefnumótun.

Á móti má segja að nú sé búið að gera heilmikla tiltekt í lögum og reglum, koma þeim í góðan farveg og stjórn LH komin með heimild til þess að lagfæra slík atriði á milli þinga í stað þess að eyða dýrmætum tíma þingheims í umræður um orðalag í einstökum reglugerðum, og því eru allar forsendur fyrir breyttu verklagi í þá áttina á næstu ársþingum.

Landssamband hestamannafélaga þakkar Hestamannafélaginu Fáki gestrisnina á þinginu. Stjórn og starfsmenn LH þakka þingfulltrúum kærlega fyrir gott landsþing, og halda inn í nýtt kjörtímabil með kraft og von í brjósti um góð ár framundan í hestamennskunni á Íslandi.

 

 

 

 

 

 

Fréttasafn

24. desember 2025
Jóla- og nýárskveðja frá formanni LH
22. desember 2025
Landssamband hestamannafélaga óskar öllum hestamönnum nær og fjær gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári, með kærri þökk fyrir samstarfið á árinu.  Starfsfólk og stjórn LH
Eftir Berglind Karlsdóttir 18. desember 2025
Hekla Katharína Kristinsdóttir er reiðkennari ársins 2025
9. desember 2025
Ísólfur Líndal Þórisson hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari A-landsliðs Íslands í hestaíþróttum
5. desember 2025
Alþjóðlegur dagur sjálboðaliða 5. desember
14. nóvember 2025
Form annafundur LH var haldinn laugardaginn 8. nóvember sl. Fundinn sóttu um áttatíu manns frá þrjátíu hestamannafélögum auk fulltrúa frá fastanefndum LH, dómarafélögunum og stjórn LH. Góðar og uppbyggilegar umræður urðu á fundinum sem stjórn LH tekur með sér í næsta starfsár og í undirbúning fyrir Landsþing 2026. Formaður LH, Linda Björk Gunnlaugsdóttir, fór í ræðu sinni yfir þau mál sem hafa verið fyrirferðarmest í starfsemi LH á árinu ásamt því að tæpa á helstu verkefnum sem framundan eru. Það eru mörg og umfangsmikil verkefni á borði stjórnar hverju sinni og hefur mikill tími farið fyrsta starfsárið hjá nýrri stjórn í að endurskipuleggja og hagræða í rekstri sambandsins. Afreksmálin eru alltaf fyrirferðarmikil á HM ári í verkefnum skrifstofu og stjórnar og eru afreksmálin á ákveðnum tímamótum núna þar sem samningar við landsliðsþjálfara eru lausir. Gjaldkeri LH, Ólafur Gunnarsson, fór yfir stöðu reikninga og uppfærðar fjárhagsáætlanir sem gera ráð fyrir á næstu tvö ár skili hagnaði en eins og áður kom fram hefur verið farið í hagræðingaraðgerðir á árinu í þeim tilgangi að snúa rekstri sambandsins til betri vegar. Starfshópar sem skipaðir voru skv. samþykkt landsþings 2024 kynntu sína vinnu frá landsþingi. Starfshópur um Íslandsmót telur ekki þörf á að gera breytingar á keppnishluta mótsins en leita þurfi leiða til að gera viðburðinn Íslandsmót að stærri viðburði fyrir áhorfendur. Starfshópur um innanhússmót lagði fram tillögu fyrir fundinn um haldið yrði 2ja til 3ja daga Íslandsmót innanhúss í lok innanhússkeppnistímabilsins 2026 til reynslu. Fundurinn vísaði tillögunni til stjórnar til nánari útfærslu og mun stjórn kalla til framhaldsfundar formanna til frekari umræðna. Æskulýðsbikar LH hlaut Hestamannafélagið Skagfirðingur og veittu yfirreiðkennari félagsins og formaður æskulýðsdeildar Skagfirðings bikarnum móttöku. Fulltrúar frá hestamannafélögunum Mána, Hring, Funa, Herði, Freyfaxa og Sleipni sögðu frá sínum verkefnum og helstu áskorunum. Voru það virkilega áhugaverðar frásagnir því flest hestamannafélög eru að eiga við svipaðar áskoranir þó aðstæður hjá hverju félagi séu mismunandi. Að loknum hefðbundnum fundarstörfum var fundinum skipt upp í þrjá umræðuhópa sem fjölluðu um stefnumótun, gjaldkerastörf og nýliðunar -og æskulýðsmál. Mikil umræða og góð vinna var í umræðuhópunum. Í hópnum um stefnumótum urðu mjög líflegar umræður og margir snertifletir ræddir á hinum ýmsu málum og ljóst að það er heilmikið að vinna úr í framhaldinu. Fundinum var skipt upp í sex minni hópa sem fjölluðu hver um sig um ákveðna þætti í starfsemi LH, hvaða markmið skuli setja og hvernig skuli ná þeim. Stefnumótunarfundurinn var framhald af opnum stefnumótunarfundi sem haldinn var sl. vor með fulltrúum hestamannafélaganna. Hópurinn um æskulýðs- og nýliðunarmál fjallaði um þátttöku stráka í hestamennsku, félagshesthús og almenna stöðu hjá félögunum. Margar hugmyndir komu upp og góðar umræður sköpuðust. Í gjaldkerahópnum var rætt um samskipti við sveitarfélög, fjármál hestamannafélaga, félög í almannaheilaskráningu og fyrirmyndafélög ásamt styrkjum til hestamannafélaga. Fjármál hestamannafélaganna eru almennt í góðum málum og faglega staðið að þeim en slíkt er algjör forsenda fyrir því að gott samtal geti átt sér stað við sveitarfélögin þegar kemur að styrkjamálum hins opinbera. Félögin voru einnig hvött til að skrá félagið á almannaheillaskrá en það er gott verkfæri þegar leitað er styrkja hjá almennum fyrirtækjum og veitir skattaafslátt á móti. Einnig voru félögin hvött til að hefju vinnu við að gerast fyrirmyndarfélag ÍSÍ og er það holl og góð vinna til að bæta starfshætti félagsins. Félög geta leitað til hvors annars um þau gögn sem þarf að skila og voru félögin hvött til að vinna þau saman. Samhliða formannafundi var haldinn mótanefndafundur sem um tuttugu manns sátu, en fyrirhugað er að halda framahaldsmótanefndafund um næstu mánaðamót til að ræða frekar mótadagskrá ársins. Stjórn LH þakkar formönnum hestamannafélaga í landinu og öðrum þátttakendum á formannafundi fyrir afar uppbyggilegar umræður sem munu nýtast vel á komandi starfsári. Skýrsla stjórnar LH 2024-2025
12. nóvember 2025
Ættingjar fyrsta heiðursfélaga LH afhentu LH viðurkenningarskjalið til varðveislu
11. nóvember 2025
Guðni Halldórsson og Kristinn Skúlason hlutu gullmerki LH
9. nóvember 2025
Haraldur Þórarinsson er heiðursverðlaunum LH sannarlega verðugur
9. nóvember 2025
Gott æskulýðsstarf er grunnurinn að framtíð hestamennskunnar
Lesa meira