Lokadagur Íslandsmóts barna -og unglinga
Úrslit á glæsilegu Íslandsmóti barna og unglinga.

100m skeið
Dagur Sigurðarson og Tromma frá Skúfslæk eru Íslandsmeistarar í 100 m. skeiði en þau voru á tímanum 7,39 sek. Aron Dyröy Guðmundsson og Kjarkur frá Árbæjarhjáleigu II voru með næst besta tímann 7,75 sek og einu sekúndubroti á eftir þeim var Elísabet Líf Sigvaldadóttir og Hildur frá Feti.
Gæðingakeppni
Viktoría Huld Hannesdóttir og Þinur frá Enni báru sigur úr býtum í barnaflokki gæðinga en þau hlutu einkunnina 8,88. Gabríela Máney Gunnarsdóttir og Bjartur frá Hlemmiskeiði 3 enduðu í öðru sæti eftir að hafa komið upp úr B úrslitum. Í því þriðja varð Aron Einar Ólafsson á Kraganum frá Firði með 8,65 í einkunn.
Ída Mekkín Hlynsdóttir og Ísafold frá Kirkjubæ báru sigur úr býtum í unglingaflokki gæðinga og uppskáru 8,87 í einkunn. Í öðru sæti urðu nýkrýndir Íslandsmeistarar í gæðingatölti Eik Elvarsdóttir og Valur frá Stangarlæk 1 með 8,76 í einkunn og í þriðja Dagur Sigurðarson á Lér frá Stóra-Hofi með 8,73 í einkunn.
Fimmgangur
Dagur Sigurðarson gerði gott mót og vann sinn annan Íslandsmeistartitil þegar hann sigraði fimmgang í unglingaflokki á Skugga-Sveini frá Þjóðólfshaga 1 með 6,81 í einkunn. Ísabella Helga Játvarðsdóttir varð önnur á Lávarði frá Ekru með 7,31 og í þriðja sæti Eik Elvarsdóttir á Hrafntinnu frá Strandarhjáleigu með 6,21 í einkunn.
Slaktaumatölt
Oliver Sirén Matthíasson er Íslandsmeistari í slaktaumatölti í barnaflokki með Herjann frá Eylandi og hlutu þeir glæsilega einkunn eða 7,04. Í öðru sæti varð Hilmir Páll Hannesson á Þoku frá Hamarsey með 6,88 í einkunn og í því þriðja Eva Dögg Maagaard Ólafsdóttir á Sólbirtu frá Miðkoti með 6,79 í einkunn.
Jöfn og spennandi úrslit voru í slaktaumatölti, unglingaflokki og þurfti að skera úr um fyrsta sætið með sætaröðun frá dómara. Það voru þær Elísabet Líf Sigvaldadóttir á Öskju frá Garðabæ og Lilja Rún Sigurjónsdóttir á Stormi frá Kambi sem voru jafnar í fyrsta og öðru sæti með 7,08 í einkunn. Eftir sætaröðun dómara var ljóst að Íslandsmeistari í slaktaumatölti í ár væri Elísbet Líf og Askja frá Garðabæ og Lilja Rún varð í öðru sæti. Í þriðja sæti varð Erla Rán Róbertsdóttir á Glettingi frá Skipaskaga með 6,83 í einkunn.
Fjórgangur
Kristín Rut Jónsdóttir vann A úrslitin í fjórgangi V2 í barnaflokki á hesti sínum Straumi frá Hofsstöðum, Garðabæ með einkunnina 7,00. Í öðru sæti varð Viktoría Huld Hannesdóttir á Steinari frá Stíghúsi með 6,97 og í þriðja sæti Oliver Sirén Matthíasson á Gróu frá Þjóðólfshaga 1 með 6,47 í einkunn.
Lilja Rún Sigurjónsdóttir tryggði sér annan Íslandsmeistaratitilinn á þessu móti þegar hún sigraði í fjórgangi í unglingaflokki með 7,40 í einkunn á Draupni frá Dimmuborg. Í öðru sæti varð Ragnar Snær Viðarsson á Stimpli frá Strandarhöfði með 7,10 og þriðja sætinu deildu systkini Elimar og Eik Elvarsbörn með 7,00 í einkunn.
Tölt
Kristín Rut Jónsdóttir og Straumur frá Hofsstöðum, Garðabæ sigurðu tölt T3 í barnaflokki með einkunnina 7,11 og eru því fjórfaldir Íslandsmeistarar þar sem þau sigra tölt, fjórgang og gæðingatölt en Kristín Rut er einnig stigahæst í barnaflokki. Í öðru sæti varð Viktoría Huld Hannesdóttir á Steinari frá Stíghúsi með 7,00 og í þriðja Eyvör Sveinbjörnsdóttir á Skál frá Skör með 6.83 í einkunn.
Elva Rún Jónsdóttir og Goði frá Garðabæ fóru með sigur úr býtum en þau hlutu 7,67 í einkunn. Í öðru sæti varð Elimar Elvarsson með Sölku frá Hólateigi og einkunnina 7,28 og í því þriðja Apríl Björk Þórisdóttir á Lilju frá Kvistum með 7,06 í einkunn. Í fjórða sæti varð Lilja Rún Sigurjónsdóttir en hún var einnig verðlaunuð sem stigahæsti knapinn í unglingaflokki eftir frábært mót og tvo Íslandsmeistaratitla.
Frábæru Íslandsmóti er nú lokið óskum við öllum nýkrýndum Íslandsmeisturum innilega til hamingju og þökkum öllum keppendum, mótshöldurum Hestamannafélaginu Sörla og sjálfboðaliðum fyrir þeirra aðkomu að þessu glæsilega móti.
Fréttasafn









