Nýjar vonarstjörnur fæðast á Allra sterkustu

27. apríl 2023

Sigurbjörn Bárðarson er án efa allra þekktasta nafnið í hestaíþróttinni hér á landi. Það eru fáir íþróttamenn sem geta státað af eins löngum og glæsilegum keppnisferli og hann. Sigurbjörn hefur unnið fjöldann allan af verðlaunum og hefur átt fjölmörg Íslands og heimsmet í skeiðgreinum á yfir 50 ára keppnisferli. Hann er eini hestamaðurinn sem hefur hlotið titillinn Íþróttamaður ársins og árið 2022 var hann sæmdur heiðursverðlaunum LH.

Í dag er hann landsliðsþjálfari A-landsliðsins í hestaíþróttum og hefur gengt því síðan 2018. Okkur lék áhugi á að vita hvað væri að hans mati helstu breytingar sem hafa orðið á íþróttinni síðan hann hóf keppnisferillinn sinn?

,,Það eru margir þættir, en helst er það hvað þekkingunni og aðbúnaðinum hefur fleytt fram.“ Segir Sigurbjörn og bætir við: „Nú er auðsóttara að sækja sér þekkingu og þeir sem ætla að ná langt fara djúpt ofan í saumana á reiðmennskunni til þess að undirbúa og ná sem best til hestsins. Þekking og kunnátta á að mýkja og styrkja hestinn og draga þannig fram styrkleika hans hefur breytt miklu fyrir reiðmennskuna og gert hestunum kleift að ná betri árangri en áður. Sú vakning sem hefur orðið á mikilvægi þess að huga vel að grunnþáttunum hefur einnig haft gífurlega mikið að segja. Þá er ekki hægt að líta fram hjá því hve miklu máli það skiptir okkur, hérlendis að vera með háskólann á Hólum sem hefur verið brautryðjandi í rannsóknum á íslenska hestinum og menntun og þjálfun hestamanna. Það að knapar geti sótt sér menntun í reiðmennsku á háskólastigi er veiga mikill þáttur í framþróun íþróttarinnar og framgangs íslenska hestins.“

„Ræktuninni hefur einnig fleygt fram og margir öflugir ræktendur komnir fram á sjónarsviðið sem eiga mikið hrós skilið. Með markvissri ræktun og betra atlæti fáum við fram enn betri og stærri hesta. Inn í þetta spilar auðvitað að uppeldið er orðið auðveldara með betri tækjabúnaði við til dæmis útifóðrunina. Bætt verkun á heyi með tilkomu rúllunnar hefur gert það að verkum að það er hægt að leyfa hestunum að standa í heyi á útigangi sem hefur mikið að segja fyrir vöxt og þroska. Þá eru aðstæður víða til tamninga og þjálfunar orðnar framúrskarandi, svo það er auðveldra að undirbúa hestinn frá unga aldri. Einnig hefur það sitt að segja að ræktunarmarkmiðin hafa breyst og meiri áhersla og athygli er á grunnþáttunum, fet var til dæmis ekki inn í dómunum hér áður né heldur hægt tölt og stökk. Síðast en ekki síst þurfum við að huga að vilja og geðslagi. Það eru þættir sem þarf að gaumgæfa alvarlega í rætkunarstarfinu okkar og við þurfum að gera enn betur. Þörf er á námkvæmri sundurliðinun á aðferðafræði við mat á þessum þáttum. Sjónhræðsla og spenna er eitthvað sem við þurfum markvisst að vinna gegn.“

En afhverju þykir þér mikilvægt að dæma þætti eins og fet, hægt tölt og hægt stökk?

„Þar erum við að sjá meira jafnvægi og takt. Grunnfærni hestsins sést betur á hægum gangi heldur en þegar allt snýst um hraða. Knapinn þarf að sýna agaðri stjórn og við þessar aðstæður er hægt að kalla fram meiri geðslagsáhrif. Hesturinn þarf að vera virkilega vel undirbúinn til þess að geta haldið takti á hægu tölti og stökki og heilt yfir búa yfir sterkum grunni. Það þarf ekki allt að gerast á hraða og þar er jafnvel hægt að missa af þáttum sem ekki er mögulegt að fela á hægari gangi. Fetið er síðan grunnurinn að öðrum gangtegundum og mikilvægt að það sé til staðar til þess að hesturinn geti orðið framúrskarandi.“

Þegar þú horfir á hest og knapa í braut, með það í huga að þú ert að velja inn í landsliðshóp hvað er það sem þú leitar fyrst að?

,,Það er nú yfirleitt einhver x faktor hjá parinu sem kallar á eftirtekt. Hesturinn er það sem ég horfi á fyrst og síðan fer maður að horfa á knapann. Hestur og knapi skapa heildina. Það er parið sem fer á stórmót, ekki einstaklingurinn og það þarf að hafa í huga frá upphafi.“

Framundan er Allra sterkustu, hvaða vægi hefur sú sýning fyrir valið á HM?

„Þetta er skemmtilegur dagur sem landsliðið á saman og þar myndast yfirleitt mikil samkennd og stemning. Hópurinn kemur saman að deginum og fær fyrirlestra og fræðslu sem að mörgu leyti skilar meiri leik og gleði inn í keppnina sjálfa um kvöldið heldur en í hörðustu keppnum. Hestarnir eru bara í góðu atlæti á meðan enda hafa knaparnir verið að undirbúa þá með reglulegri þjálfun svo allir séu klárir í slaginn.“

„Sýningin gefur síðan góða innsýn inn í það hvernig hestar og menn koma fram undir álagi og pressu. Það er mikil nálægð við áhorfendurna og hesturinn þarf að þola áreitið af því. Þetta eru auðvitað bara okkar bestu knapar sem þarna keppa og því verða gæðin eftir því.“

Er komið á hreint hvaða hestar mæta til leiks?

„Það er að skýrast, þetta er spennandi vettvangur og þó að þetta sé mikið show þá fylgir öllu gamni einhver alvara. Ég á alveg von á því að þarna muni einhverjir hestar springa út fyrir framan augun á mér og nýjar vonarstjörnur fæðast. Akkúrat núna er miklum álagstíma að ljúka, innanhúsmótin eru svo til afstaðin og menn eru að lenda eftir það tímabil. Ég hef leyft knöpunum að klára þau verkefni áður en sótt er á þá. En á Allra sterkustu sér maður vissulega hvernig staðan er heilt yfir.“

Hefur þú mikið með það að gera hvaða hesta knaparnir mæta með?

„Já, það má segja það. Það er auðvitað alltaf okkar markmið að keppnin sé á háu plani og þarna komi bara hestar sem geta hrifið áhorfendur með sér. Einnig viljum við sjá knapa á hæsta stigi reiðmennskunnar. Það hefur komið fyrir að ég hef víxlað knapa og hest, séð að hesturinn hentar öðrum knapa betur, stundum er það þannig að hesturinn getur verið góður á ákveðnu sviði og með knapa sem hefur styrkleika sem ýtir undir gæðin getur orðið töluvert meira sóknarfæri þannig. Sem landsliðsþjálfari hef ég íhlutast með þessa hluti og breytt því ef mér hefur þótt líklegt að það skilaði árangri.“

Nú eru 4 ár síðan að síðasta heimsmeistaramót var haldið. Hvaða áhrif hefur það á hópinn að svo langt sé um liðið?

„Það eykur auðvitað eftirvæntinguna eftir þessu móti. Fyrir tveimur árum vorum við með einn öflugasta hestakost sem lengi hefur verið til í fórum okkar. Hestar sem voru búnir að vera mjög sigursælir og skora rosalega háa punkta. Það var mikil blóðtaka að missa þá út án þess að ná móti með þeim.“

Er líklegt að við séum að fara mæta einhverjum af þessum hestum á HM í ár?

„Já ég held að það verði að teljast líklegt. Þó að hin liðin séu ekki enn búin að gefa út hvað hesta þau munu mæta með þá er alvanalegt að við séum að mæta hestum úti sem hafa verið þjálfaðir hérna en keppa svo með öðrum knapa fyrir aðra þjóð. Við búum náttúrulega við svo sérstakar aðstæður hér þar sem allur innflutningur er bannaður. En það gerir þetta líka svo spennandi, þar sem knaparnir þurfa að koma fram með nýjan hest á hvert mót.“

Það verður svo sannarlega spennandi að sjá knapana okkar mæta á Allra sterkust og fá smjörþefinn af því sem við eigum von á í sumar og í haust. En hvernig verður dagskráin?

„Þar verður boðið upp á rjómann úr íþróttakeppninni. Knaparnir ríða úrslit í fjórgang, fimmgang, T1 og T2. Við munum sjá þá bestu etja kappi og þetta verður alvöru háklassa tveggja tíma sýning á því er enginn vafi. Ég hvet auðvitað alla hestamenn til að mæta og styðja þannig við bakið á landsliðinu okkar, þetta er kvöldstund sem enginn ætti að missa af og allt byggist þetta upp á að gleðin sé fyrir hendi og menn og hestar njóti sín því útgeislun speglar alltaf innri manninn.“ Segir Sigurbjörn að lokum og við þökkum honum kærlega fyrir spjallið.

Þeir sem hafa áhuga á að næla sér í miða á Allra sterkustu geta gert það hér , þá bendum við á ferðaskrifstofuna  Verdi  fyrir þá sem ælta að fylgja landsliðinu okkar út til Hollands í ágúst.

 

Fréttasafn

6. nóvember 2025
This is a subtitle for your new post
30. október 2025
Sigvaldi Lárus Guðmundsson yfirþjálfari Hæfileikamótunar LH næstu tvö árin
27. október 2025
Keppnishestabú ársins verða heiðruð á Uppskeruhátíð hestafólks
27. október 2025
Uppskeruhátíð hestafólks fer fram í Gamla Bíó laugardaginn 8. nóvember nk., þar sem hestafólk af landinu öllu kemur saman til að fagna frábæru keppnisári og heiðra þá sem skarað hafa fram úr. Kvöldið verður í senn hátíðlegt og skemmtilegt. Veitingar verða í höndum LÚX veisluþjónustu, sem býður upp á dýrindis mat í takt við hátíðlega stemninguna í Gamla Bíó. Knapar ársins í hverjum flokki verða verðlaunaðir ásamt keppnishestabúi ársins og hljóta glæsilega verðlaunagripi úr smiðju Inga í Sign. Að loknum kvöldverði og öðrum hefðbundnum dagskrárliðum mun Stuðlabandið halda uppi fjörinu fram eftir nóttu og tryggja alvöru partýstemningu. Miðasala fer fram í vefverslun LH - takmarkaður fjöldi sæta í boði!! Sjáumst 8.nóvember í Gamla bíó!
24. október 2025
Íslandsmót 2026 haldið 17. til 21. júní hjá Sörla
23. október 2025
Knapar ársins verða heiðraðir á Uppskeruhátíð hestafólks
22. október 2025
Viðtal við nýjan formann Landsliðsnefndar um afreks- og landsliðsmál
22. október 2025
Þann 15. maí sl. staðfesti framkvæmdastjórn ÍSÍ úthlutunarreglur vegna kostnaðarþátttöku ungmenna í landsliðsverkefnum. Tilgangur reglnanna er að setja ramma um styrki til sérsambanda ÍSÍ vegna kostnaðarþátttöku ungmenna í landsliðsstarfi á vegum sérsambanda ÍSÍ í samræmi við Afreksstefnu ÍSÍ. Meginmarkmið styrkveitinganna er að styðja ungmenni fjárhagslega sem taka þátt í landsliðsstarfi á vegum sérsambanda ÍSÍ og þurfa að greiða kostnað vegna þátttökunnar að fullu eða að hluta. Einnig að jafna möguleika ungmenna á þátttöku í landsliðsstarfi sérsambanda ÍSÍ. LH sótti um styrk fyrir hönd þeirra sjö ungmenna sem fóru á HM sl. sumar og niðurstaðan varð sú að Afrekssjóður styrkir hvert og eitt þeirra um rúmar 200.000 kr. Styrkurinn er gríðarlega mikilvægur stuðningur við ungmennin okkar og mikil hvatning.  Er þetta hluti af því aukna fjármagni sem stjórnvöld hafa sett í Afrekssjóð á þessu ári og markar sú ákvörðun tímamót í allri umgjörð afreksíþrótta í heild sinni. Vonast er til að sambærilegt fjármagn verði til úthlutunar til sérsambanda úr Afrekssjóði til frambúðar.
17. október 2025
NICH - Nordic Icelandic Horse Collaboration
Lesa meira