Samantekt að loknu Íslandsmóti fullorðinna og ungmenna 2024

31. júlí 2024

Dagana 25-28 júlí fór Íslandsmótið í hestaíþróttum fram á félagssvæði hestamannafélagsins Fáks í Víðidal. Mótssvæðið var í stórgóðu standi eftir Landsmót sem haldið var þar einungis nokkrum vikum fyrr og ljóst á frammistöðu margra hesta og knapa á mótinu að formkúrvan hefur legið uppávið frá því á Landsmóti. Veður setti þó töluvert strik í reikninginn og mikil úrkoma var á mótsdögunum, og þá helst á úrslitadegi mótsins þegar blés einnig hressilega. Knapar, dómarar og starfsfólk mótsins létu veðrið þó ekki á sig fá og skiluðu flottum sýningum í hinum ýmsu greinum hestaíþrótta á mótinu.

Hringvallargreinar

Í fjórgangi fullorðinna leiddu Teitur Árnason á Aroni frá Þóreyjarnúpi og Gústaf Ásgeir Hinriksson á Össu frá Miðhúsum með einkunnina 7,73 en þau Ásmundur Ernir Snorrason á Hlökk frá Strandarhöfði og Guðmunda Ellen Sigurðardóttir á Flaumi frá Fákshólum voru skammt undan með 7,63. Hans Þór Hilmarsson á Fáki frá Kaldbak vann B-úrslitin og vann sér þátttökurétt í A-úrslitum en það var Guðmunda Ellen Sigurðardóttir á Flaumi sem sigraði A-úrslitin og er því Íslandsmeistari í fjórgangi með einkunnina 8,13 eftir frábæra frammistöðu í A-úrslitunum. Sara Sigurbjörnsdóttir varð í öðru sæti og Hans Þór í því þriðja.

Í fjórgangi ungmenna leiddi Jón Ársæll Bergmann á Halldóru frá Hólaborg eftir forkeppni en það var Guðný Dís Jónsdóttir á Hraunari frá Vorsabæ II sem að lokum hampaði titlinum eftir spennandi og skemmtileg úrslit. Jón Ársæll varð annar og Hulda María Sveinbjörnsdóttir á Muninn frá Bergi kom upp úr B-úrslitum og endaði í þriðja sætinu.

Í fimmgangi fullorðinna varð Hans Þór Hilmarsson Íslandsmeistari á Öl frá Reykjavöllum með 7,60 eftir að hafa leitt forkeppnina einnig. Þórarinn Ragnarsson á Herkúles frá Vesturkoti varð annar og Þorgeir Ólafsson á Aþenu frá Þjóðólfshaga í þriðja sæti eftir að hafa unnið sig upp úr B-úrslitum.

Í ungmennaflokknum var það sigurvegari fimmgangs frá liðnu Landsmóti, hann Jón Ársæll Bergmann sem sigraði nokkuð örugglega á Hörpu frá Höskuldsstöðum og hampar Íslandsmeistaratitlinum í fimmgangi ungmenna eftir jafna og góða frammstöðu og frábæra skeiðspretti. Þórgunnur Þórarinsdóttir varð í öðru sæti á Djarfi frá Flatatungu og Védís Huld Sigurðardóttir í því þriðja á Hebu frá Íbishóli. Þórey Þula Helgadóttir á Kjalari frá Hvammi vann B-úrslitin og endaði í fjórða sæti eftir A-úrslit.

Í slaktaumatölti T2 urðu talsverðar sviftingar en Ásmundur Ernir Snorrason og Hlökk frá Strandarhöfði leiddu nokkuð örugglega eftir forkeppni, en Teitur Árnason á Úlfi frá Hrafnagili og Ólafur Andri Guðmundsson og Draumur frá Feti voru í því þriðja. Guðmunda Ellen Sigurðardóttir á Flaumi frá Fákshólum unnu B-úrslit og tryggðu sér þar með sæti í A-úrslitum. Í A- úrslitum var það svo Jakob Svavar Sigurðsson sem varð hlutskarpastur á henni Hrefnu frá Fákshólum, sem er ung hryssa í keppni, eftir dramatísk úrslit. Ásmundur og Hlökk urðu önnur og Teitur Árnason á Úlfi í þriðja sæti.

Í slaktaumatölti ungmennaflokki leiddi Védís Huld Sigurðadóttir á Breka frá Sunnuhvoli eftir forkeppni en Hulda María Sveinbjörnsdóttir og Signý Sól Snorradóttir voru í öðru til þriðja sætinu. Í B-úrslitum var það Herdís Björg Jóhannsdóttir sem var hlutskörpust á Kjarnveigu frá Dalsholti og þær unnu sér rétt til þátttöku í A-úrslitum þar með. Í A-úslitum urðu nokkrar tilfæringar því Signý Sól Snorradóttir á Rafni frá Melabergi stóð að lokum uppi sem sigurvegari og er Íslandsmeistari í T2 ungmenna. Sigurður Baldur Ríkharðssong og Loftur frá Traðarlandi urðu í öðru sæti og Védís Huld á Breka í því þriðja.

Keppni í tölti T1 er ávallt einn af stórviðburðum íslenskra hestamannamóta og að þessu sinni var engin undantekning þar á. Eftir forkeppni var það Árni Björn Pálsson sem leiddi á Kastaníu frá Kvistum með 8,87 í einkunn og Landsmótssigurvegarinn í tölti, Jakob Svavar Sigurðsson á Skarpi frá Kýrholti var annar með 8,77. Stutt þar á eftir voru Páll Bragi Hólmarsson á Vísi frá Kagaðarhóli og Flosi Ólafsson á Röðli frá Haukagili í Hvítársíðu. Í B-úrslitum urðu Ragnhildur Haraldsdóttir á Úlfi frá Mosfellsbæ og Jóhanna Margrét Snorradóttir á Kormáki frá Kvistum jafnar og fóru báðar upp í A-úrslit. Í A-úrslitum má segja að einvígi hafi verið háð á milli Jakobs og Árna Björns sem hafði harma að hefna eftir töltúrslitin á Landsmóti. En að endingu var það einmitt hann Árni Björn á Kastaníu frá Kvistum sem stóð uppi sem sigurvegari með 9,11 í einkunn og er Íslandsmeistari í tölti fullorðinna. Jakob og Skarpur urðu í öðru sæti, rétt á eftir þeim með 9,06 og í þriðja sæti endaði Gústaf Ásgeir Hinriksson á Össu frá Miðhúsum.

Í tölti T1 ungmenna var einnig hörkukeppni en Jón Ársæll Bergmann leiddi töltið eftir forkeppni á Heið frá Eystra-Fróðholti. Matthías Sigurðsson á Tuma frá Jarðbrú var annar og Védís Huld Sigurðadóttir á Breka frá Sunnuhvoli í þriðja sæti eftir forkeppnina. Í B-úrslitum var það Guðmar Hólm Ísólfsson Líndal sem var hlutskarpastur á Gretti frá Hólum og tók þátt í A-úrslitum. Jón Ársæll og Heiður héldu uppteknum hætti í A-úrslitum töltsins og sigldu heim sigri og eru Íslandsmeistarar í tölti T1 ungmenna eftir sannfærandi sýningar. Í öðru sæti varð svo Íslandsmeistarinn í fjórgangi hún Guðný Dís á honum Straumi frá Hofsstöðum í Garðabæ og Guðmar Hólm á Gretti reið sig alla leið upp í þriðja sætið þar sem hann var jafn Heklu Rán Hannsdóttur og Védísi Huld Sigurðardóttur.

Skeiðgreinar

Þrátt fyrir votviðri og nýafstaðið Landsmót var ekki að sjá að þreyta væri í skeiðhestum á þessu móti og hreint ótrúlegir tímar náðust í kappreiðum á mótinu. Heimsmet var slegið í 150 m skeiði og margir af bestu tímum ársins litu dagsins ljós.

Það er óhætt að fullyrða að Konráð Valur Sveinsson og Kjarkur frá Árbæjarhjáleigu II séu ótrúlegt par. Fyrr í vor slógu þeir Íslandsmet í 150 m skeiði og nú á Íslandsmóti gerðu þeir gott betur og bættu gildandi heimsmet í greininni þegar þeir hlupu sprettinn á 13,46 sek. Metið bíður staðfestingar. En þeir félagar eru þar með Íslandsmeistarar í 150 m skeiði. Í öðru sæti varð Þórarinn Ragnarsson á Bínu frá Vatnsholti og Daníel Gunnarsson á Skálmöld urðu í því þriðja.

Í 150 m skeiði ungmenna varð Jón Ársæll Bergmann á Rikka frá Stóru-Gröf ytri hlutskarpastur og bætti þar með í titlasafn sitt á þessu móti en hann vann þrjá Íslandsmeistaratitla á mótinu, sannarlega glæsilegur árangur það.

Í 250 m skeiði dró einnig heldur betur til tíðinda, því það er alltaf sterkt þegar hestur hleypur 250 m skeið á tíma undir 22 sek. Daníel Gunnarsson og Kló frá Einhamri 2 gerðu það einmitt í spretti 2 í fyrri umferð 250 skeiðs þegar þau fóru á tímanum 21,98 sek, en það sem þykir tíðindum sæta er að þegar upp var staðið dugði sá tími ekki til verðlauna á mótinu því þau enduðu í 6. Sæti. Það var Sigursteinn Sumarliðason á Krókus frá Dalbæ sem sigraði og er Íslandsmeistari 2024 á tímanum 21,35 sek. Í öðru sæti varð Konráð Valur Sveinsson og Kastor frá Garðshorni 21,53 sek og í þriðja sæti Þorgeir Ólafsson á Rangá frá Torfunesi á 21,60 en auk þeirra voru það Gústaf Ásgeir Hinriksson og Sjóður, Sigurður Sigurðarson og Tromma ásamt fyrrnefndum Daníel á Kló sem fóru á tímum undir 22 sekúndum. Ólíklegt er að það hafi gerst áður að 6 hestar hlaupi brautina á slíkum tímum á sama móti.

100m flugskeið var engin undantekning hvað góða tíma varðar því Konráð Valur og Kastor frá Garðshorni sigruðu greinina á 7,19 sekúndum sem er einungis ögn yfir gildandi Íslandsmeti og Konráð þar með orðinn tvöfaldur Íslandsmeistari. Ingibergur Árnason og Sólveig frá Kirkjubæ urðu í öðru sæti og Sigursteinn og Krókus frá Dalbæ í því þriðja. Tímarnir í 100 m skeiði voru heilt yfir frábærir en 11 hestar fóru á 7,50 sek eða hraðar.

Frábærir tímar náðust einnig í 100m skeiði ungmenna en Guðmar Hólm Ísólfsson Líndal sigraði á Alviðru frá Kagaðarhóli á tímanum 7,38. Kristján Árni Birgisson á Kröflu frá Syðri-Rauðalæk varð annar og Jón Ársæll Bergmann á Rikka þriðji.

Í gæðingaskeiði fullorðinna var það Jakob Svavar Sigurðsson sem stóð uppi sem sigurvegari á Erni frá Efri-Hrepp með 8,54 í einkunn og er Íslandsmeistari í greininni þar með og bætti þar við öðrum titli sínum á mótinu. Í öðru sæti varð Jóhann Kristinn Ragnarsson á Þórvöru frá Lækjarbotnum og Daníel Gunarsson varð þriðji á Strák frá Miðsitju.

Í gæðingaskeiði ungmenna var það Kristján Árni Birgisson á Súlu frá Kanastöðum sem stóð uppi sem sigurvegari með 7,38 í einkunn. Í öðru sæti varð Lilja Dögg Ágústsdóttir á Stanley frá Hlemmiskeiði 3 og Björg Ingólfsdóttir á Kjuða frá Dýrfinnustöðum varð þriðja.

Samanlagðir sigurvegarar

Í fullorðinsflokki varð Ásmundur Ernir Snorrason samanlagður sigurvegari bæði í báðum greinum. Í fjórgangsgreinum sigraði hann á Hlökk frá Strandarhöfði eftir frábæra frammstöðu í slaktaumatölti og fjórgangi. Í fimmgangsgreinum var það Askur frá Holtsmúla sem fleyttir Ásmundi hátt í fimmgangi, tölti og gæðingaskeiði.

Samanlagður sigurvegari í fjórgangsgreinum í ungmennaflokki varð Þórey Þula Helgadóttir og Hrafna frá Hvammi. Samanlagður sigurvegari í fimmgangsgreinum í ungmennaflokki varð Þórgunnur Þórarinsdóttir á Djarfi frá Flatatungu.

Íslandsmótunum í hestaíþróttum 2024 er þar með lokið. Yngri flokka mótið fór fram á vegum hestamannafélagsins Harðar í Mosfellsbæ og eldri flokka mótið á vegum hestamannafélagsins Fáks í Víðidal. Landssamband hestamannafélga þakkar öllum knöpum sína þátttöku á glæsilegum mótum og kann mótshöldurum bestu þakkir fyrir sitt framlag við að halda mótin með miklum sóma.

Fréttasafn

24. desember 2025
Jóla- og nýárskveðja frá formanni LH
22. desember 2025
Landssamband hestamannafélaga óskar öllum hestamönnum nær og fjær gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári, með kærri þökk fyrir samstarfið á árinu.  Starfsfólk og stjórn LH
Eftir Berglind Karlsdóttir 18. desember 2025
Hekla Katharína Kristinsdóttir er reiðkennari ársins 2025
9. desember 2025
Ísólfur Líndal Þórisson hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari A-landsliðs Íslands í hestaíþróttum
5. desember 2025
Alþjóðlegur dagur sjálboðaliða 5. desember
14. nóvember 2025
Form annafundur LH var haldinn laugardaginn 8. nóvember sl. Fundinn sóttu um áttatíu manns frá þrjátíu hestamannafélögum auk fulltrúa frá fastanefndum LH, dómarafélögunum og stjórn LH. Góðar og uppbyggilegar umræður urðu á fundinum sem stjórn LH tekur með sér í næsta starfsár og í undirbúning fyrir Landsþing 2026. Formaður LH, Linda Björk Gunnlaugsdóttir, fór í ræðu sinni yfir þau mál sem hafa verið fyrirferðarmest í starfsemi LH á árinu ásamt því að tæpa á helstu verkefnum sem framundan eru. Það eru mörg og umfangsmikil verkefni á borði stjórnar hverju sinni og hefur mikill tími farið fyrsta starfsárið hjá nýrri stjórn í að endurskipuleggja og hagræða í rekstri sambandsins. Afreksmálin eru alltaf fyrirferðarmikil á HM ári í verkefnum skrifstofu og stjórnar og eru afreksmálin á ákveðnum tímamótum núna þar sem samningar við landsliðsþjálfara eru lausir. Gjaldkeri LH, Ólafur Gunnarsson, fór yfir stöðu reikninga og uppfærðar fjárhagsáætlanir sem gera ráð fyrir á næstu tvö ár skili hagnaði en eins og áður kom fram hefur verið farið í hagræðingaraðgerðir á árinu í þeim tilgangi að snúa rekstri sambandsins til betri vegar. Starfshópar sem skipaðir voru skv. samþykkt landsþings 2024 kynntu sína vinnu frá landsþingi. Starfshópur um Íslandsmót telur ekki þörf á að gera breytingar á keppnishluta mótsins en leita þurfi leiða til að gera viðburðinn Íslandsmót að stærri viðburði fyrir áhorfendur. Starfshópur um innanhússmót lagði fram tillögu fyrir fundinn um haldið yrði 2ja til 3ja daga Íslandsmót innanhúss í lok innanhússkeppnistímabilsins 2026 til reynslu. Fundurinn vísaði tillögunni til stjórnar til nánari útfærslu og mun stjórn kalla til framhaldsfundar formanna til frekari umræðna. Æskulýðsbikar LH hlaut Hestamannafélagið Skagfirðingur og veittu yfirreiðkennari félagsins og formaður æskulýðsdeildar Skagfirðings bikarnum móttöku. Fulltrúar frá hestamannafélögunum Mána, Hring, Funa, Herði, Freyfaxa og Sleipni sögðu frá sínum verkefnum og helstu áskorunum. Voru það virkilega áhugaverðar frásagnir því flest hestamannafélög eru að eiga við svipaðar áskoranir þó aðstæður hjá hverju félagi séu mismunandi. Að loknum hefðbundnum fundarstörfum var fundinum skipt upp í þrjá umræðuhópa sem fjölluðu um stefnumótun, gjaldkerastörf og nýliðunar -og æskulýðsmál. Mikil umræða og góð vinna var í umræðuhópunum. Í hópnum um stefnumótum urðu mjög líflegar umræður og margir snertifletir ræddir á hinum ýmsu málum og ljóst að það er heilmikið að vinna úr í framhaldinu. Fundinum var skipt upp í sex minni hópa sem fjölluðu hver um sig um ákveðna þætti í starfsemi LH, hvaða markmið skuli setja og hvernig skuli ná þeim. Stefnumótunarfundurinn var framhald af opnum stefnumótunarfundi sem haldinn var sl. vor með fulltrúum hestamannafélaganna. Hópurinn um æskulýðs- og nýliðunarmál fjallaði um þátttöku stráka í hestamennsku, félagshesthús og almenna stöðu hjá félögunum. Margar hugmyndir komu upp og góðar umræður sköpuðust. Í gjaldkerahópnum var rætt um samskipti við sveitarfélög, fjármál hestamannafélaga, félög í almannaheilaskráningu og fyrirmyndafélög ásamt styrkjum til hestamannafélaga. Fjármál hestamannafélaganna eru almennt í góðum málum og faglega staðið að þeim en slíkt er algjör forsenda fyrir því að gott samtal geti átt sér stað við sveitarfélögin þegar kemur að styrkjamálum hins opinbera. Félögin voru einnig hvött til að skrá félagið á almannaheillaskrá en það er gott verkfæri þegar leitað er styrkja hjá almennum fyrirtækjum og veitir skattaafslátt á móti. Einnig voru félögin hvött til að hefju vinnu við að gerast fyrirmyndarfélag ÍSÍ og er það holl og góð vinna til að bæta starfshætti félagsins. Félög geta leitað til hvors annars um þau gögn sem þarf að skila og voru félögin hvött til að vinna þau saman. Samhliða formannafundi var haldinn mótanefndafundur sem um tuttugu manns sátu, en fyrirhugað er að halda framahaldsmótanefndafund um næstu mánaðamót til að ræða frekar mótadagskrá ársins. Stjórn LH þakkar formönnum hestamannafélaga í landinu og öðrum þátttakendum á formannafundi fyrir afar uppbyggilegar umræður sem munu nýtast vel á komandi starfsári. Skýrsla stjórnar LH 2024-2025
12. nóvember 2025
Ættingjar fyrsta heiðursfélaga LH afhentu LH viðurkenningarskjalið til varðveislu
11. nóvember 2025
Guðni Halldórsson og Kristinn Skúlason hlutu gullmerki LH
9. nóvember 2025
Haraldur Þórarinsson er heiðursverðlaunum LH sannarlega verðugur
9. nóvember 2025
Gott æskulýðsstarf er grunnurinn að framtíð hestamennskunnar
Lesa meira