Samantekt að loknu Íslandsmóti fullorðinna og ungmenna 2024

31. júlí 2024

Dagana 25-28 júlí fór Íslandsmótið í hestaíþróttum fram á félagssvæði hestamannafélagsins Fáks í Víðidal. Mótssvæðið var í stórgóðu standi eftir Landsmót sem haldið var þar einungis nokkrum vikum fyrr og ljóst á frammistöðu margra hesta og knapa á mótinu að formkúrvan hefur legið uppávið frá því á Landsmóti. Veður setti þó töluvert strik í reikninginn og mikil úrkoma var á mótsdögunum, og þá helst á úrslitadegi mótsins þegar blés einnig hressilega. Knapar, dómarar og starfsfólk mótsins létu veðrið þó ekki á sig fá og skiluðu flottum sýningum í hinum ýmsu greinum hestaíþrótta á mótinu.

Hringvallargreinar

Í fjórgangi fullorðinna leiddu Teitur Árnason á Aroni frá Þóreyjarnúpi og Gústaf Ásgeir Hinriksson á Össu frá Miðhúsum með einkunnina 7,73 en þau Ásmundur Ernir Snorrason á Hlökk frá Strandarhöfði og Guðmunda Ellen Sigurðardóttir á Flaumi frá Fákshólum voru skammt undan með 7,63. Hans Þór Hilmarsson á Fáki frá Kaldbak vann B-úrslitin og vann sér þátttökurétt í A-úrslitum en það var Guðmunda Ellen Sigurðardóttir á Flaumi sem sigraði A-úrslitin og er því Íslandsmeistari í fjórgangi með einkunnina 8,13 eftir frábæra frammistöðu í A-úrslitunum. Sara Sigurbjörnsdóttir varð í öðru sæti og Hans Þór í því þriðja.

Í fjórgangi ungmenna leiddi Jón Ársæll Bergmann á Halldóru frá Hólaborg eftir forkeppni en það var Guðný Dís Jónsdóttir á Hraunari frá Vorsabæ II sem að lokum hampaði titlinum eftir spennandi og skemmtileg úrslit. Jón Ársæll varð annar og Hulda María Sveinbjörnsdóttir á Muninn frá Bergi kom upp úr B-úrslitum og endaði í þriðja sætinu.

Í fimmgangi fullorðinna varð Hans Þór Hilmarsson Íslandsmeistari á Öl frá Reykjavöllum með 7,60 eftir að hafa leitt forkeppnina einnig. Þórarinn Ragnarsson á Herkúles frá Vesturkoti varð annar og Þorgeir Ólafsson á Aþenu frá Þjóðólfshaga í þriðja sæti eftir að hafa unnið sig upp úr B-úrslitum.

Í ungmennaflokknum var það sigurvegari fimmgangs frá liðnu Landsmóti, hann Jón Ársæll Bergmann sem sigraði nokkuð örugglega á Hörpu frá Höskuldsstöðum og hampar Íslandsmeistaratitlinum í fimmgangi ungmenna eftir jafna og góða frammstöðu og frábæra skeiðspretti. Þórgunnur Þórarinsdóttir varð í öðru sæti á Djarfi frá Flatatungu og Védís Huld Sigurðardóttir í því þriðja á Hebu frá Íbishóli. Þórey Þula Helgadóttir á Kjalari frá Hvammi vann B-úrslitin og endaði í fjórða sæti eftir A-úrslit.

Í slaktaumatölti T2 urðu talsverðar sviftingar en Ásmundur Ernir Snorrason og Hlökk frá Strandarhöfði leiddu nokkuð örugglega eftir forkeppni, en Teitur Árnason á Úlfi frá Hrafnagili og Ólafur Andri Guðmundsson og Draumur frá Feti voru í því þriðja. Guðmunda Ellen Sigurðardóttir á Flaumi frá Fákshólum unnu B-úrslit og tryggðu sér þar með sæti í A-úrslitum. Í A- úrslitum var það svo Jakob Svavar Sigurðsson sem varð hlutskarpastur á henni Hrefnu frá Fákshólum, sem er ung hryssa í keppni, eftir dramatísk úrslit. Ásmundur og Hlökk urðu önnur og Teitur Árnason á Úlfi í þriðja sæti.

Í slaktaumatölti ungmennaflokki leiddi Védís Huld Sigurðadóttir á Breka frá Sunnuhvoli eftir forkeppni en Hulda María Sveinbjörnsdóttir og Signý Sól Snorradóttir voru í öðru til þriðja sætinu. Í B-úrslitum var það Herdís Björg Jóhannsdóttir sem var hlutskörpust á Kjarnveigu frá Dalsholti og þær unnu sér rétt til þátttöku í A-úrslitum þar með. Í A-úslitum urðu nokkrar tilfæringar því Signý Sól Snorradóttir á Rafni frá Melabergi stóð að lokum uppi sem sigurvegari og er Íslandsmeistari í T2 ungmenna. Sigurður Baldur Ríkharðssong og Loftur frá Traðarlandi urðu í öðru sæti og Védís Huld á Breka í því þriðja.

Keppni í tölti T1 er ávallt einn af stórviðburðum íslenskra hestamannamóta og að þessu sinni var engin undantekning þar á. Eftir forkeppni var það Árni Björn Pálsson sem leiddi á Kastaníu frá Kvistum með 8,87 í einkunn og Landsmótssigurvegarinn í tölti, Jakob Svavar Sigurðsson á Skarpi frá Kýrholti var annar með 8,77. Stutt þar á eftir voru Páll Bragi Hólmarsson á Vísi frá Kagaðarhóli og Flosi Ólafsson á Röðli frá Haukagili í Hvítársíðu. Í B-úrslitum urðu Ragnhildur Haraldsdóttir á Úlfi frá Mosfellsbæ og Jóhanna Margrét Snorradóttir á Kormáki frá Kvistum jafnar og fóru báðar upp í A-úrslit. Í A-úrslitum má segja að einvígi hafi verið háð á milli Jakobs og Árna Björns sem hafði harma að hefna eftir töltúrslitin á Landsmóti. En að endingu var það einmitt hann Árni Björn á Kastaníu frá Kvistum sem stóð uppi sem sigurvegari með 9,11 í einkunn og er Íslandsmeistari í tölti fullorðinna. Jakob og Skarpur urðu í öðru sæti, rétt á eftir þeim með 9,06 og í þriðja sæti endaði Gústaf Ásgeir Hinriksson á Össu frá Miðhúsum.

Í tölti T1 ungmenna var einnig hörkukeppni en Jón Ársæll Bergmann leiddi töltið eftir forkeppni á Heið frá Eystra-Fróðholti. Matthías Sigurðsson á Tuma frá Jarðbrú var annar og Védís Huld Sigurðadóttir á Breka frá Sunnuhvoli í þriðja sæti eftir forkeppnina. Í B-úrslitum var það Guðmar Hólm Ísólfsson Líndal sem var hlutskarpastur á Gretti frá Hólum og tók þátt í A-úrslitum. Jón Ársæll og Heiður héldu uppteknum hætti í A-úrslitum töltsins og sigldu heim sigri og eru Íslandsmeistarar í tölti T1 ungmenna eftir sannfærandi sýningar. Í öðru sæti varð svo Íslandsmeistarinn í fjórgangi hún Guðný Dís á honum Straumi frá Hofsstöðum í Garðabæ og Guðmar Hólm á Gretti reið sig alla leið upp í þriðja sætið þar sem hann var jafn Heklu Rán Hannsdóttur og Védísi Huld Sigurðardóttur.

Skeiðgreinar

Þrátt fyrir votviðri og nýafstaðið Landsmót var ekki að sjá að þreyta væri í skeiðhestum á þessu móti og hreint ótrúlegir tímar náðust í kappreiðum á mótinu. Heimsmet var slegið í 150 m skeiði og margir af bestu tímum ársins litu dagsins ljós.

Það er óhætt að fullyrða að Konráð Valur Sveinsson og Kjarkur frá Árbæjarhjáleigu II séu ótrúlegt par. Fyrr í vor slógu þeir Íslandsmet í 150 m skeiði og nú á Íslandsmóti gerðu þeir gott betur og bættu gildandi heimsmet í greininni þegar þeir hlupu sprettinn á 13,46 sek. Metið bíður staðfestingar. En þeir félagar eru þar með Íslandsmeistarar í 150 m skeiði. Í öðru sæti varð Þórarinn Ragnarsson á Bínu frá Vatnsholti og Daníel Gunnarsson á Skálmöld urðu í því þriðja.

Í 150 m skeiði ungmenna varð Jón Ársæll Bergmann á Rikka frá Stóru-Gröf ytri hlutskarpastur og bætti þar með í titlasafn sitt á þessu móti en hann vann þrjá Íslandsmeistaratitla á mótinu, sannarlega glæsilegur árangur það.

Í 250 m skeiði dró einnig heldur betur til tíðinda, því það er alltaf sterkt þegar hestur hleypur 250 m skeið á tíma undir 22 sek. Daníel Gunnarsson og Kló frá Einhamri 2 gerðu það einmitt í spretti 2 í fyrri umferð 250 skeiðs þegar þau fóru á tímanum 21,98 sek, en það sem þykir tíðindum sæta er að þegar upp var staðið dugði sá tími ekki til verðlauna á mótinu því þau enduðu í 6. Sæti. Það var Sigursteinn Sumarliðason á Krókus frá Dalbæ sem sigraði og er Íslandsmeistari 2024 á tímanum 21,35 sek. Í öðru sæti varð Konráð Valur Sveinsson og Kastor frá Garðshorni 21,53 sek og í þriðja sæti Þorgeir Ólafsson á Rangá frá Torfunesi á 21,60 en auk þeirra voru það Gústaf Ásgeir Hinriksson og Sjóður, Sigurður Sigurðarson og Tromma ásamt fyrrnefndum Daníel á Kló sem fóru á tímum undir 22 sekúndum. Ólíklegt er að það hafi gerst áður að 6 hestar hlaupi brautina á slíkum tímum á sama móti.

100m flugskeið var engin undantekning hvað góða tíma varðar því Konráð Valur og Kastor frá Garðshorni sigruðu greinina á 7,19 sekúndum sem er einungis ögn yfir gildandi Íslandsmeti og Konráð þar með orðinn tvöfaldur Íslandsmeistari. Ingibergur Árnason og Sólveig frá Kirkjubæ urðu í öðru sæti og Sigursteinn og Krókus frá Dalbæ í því þriðja. Tímarnir í 100 m skeiði voru heilt yfir frábærir en 11 hestar fóru á 7,50 sek eða hraðar.

Frábærir tímar náðust einnig í 100m skeiði ungmenna en Guðmar Hólm Ísólfsson Líndal sigraði á Alviðru frá Kagaðarhóli á tímanum 7,38. Kristján Árni Birgisson á Kröflu frá Syðri-Rauðalæk varð annar og Jón Ársæll Bergmann á Rikka þriðji.

Í gæðingaskeiði fullorðinna var það Jakob Svavar Sigurðsson sem stóð uppi sem sigurvegari á Erni frá Efri-Hrepp með 8,54 í einkunn og er Íslandsmeistari í greininni þar með og bætti þar við öðrum titli sínum á mótinu. Í öðru sæti varð Jóhann Kristinn Ragnarsson á Þórvöru frá Lækjarbotnum og Daníel Gunarsson varð þriðji á Strák frá Miðsitju.

Í gæðingaskeiði ungmenna var það Kristján Árni Birgisson á Súlu frá Kanastöðum sem stóð uppi sem sigurvegari með 7,38 í einkunn. Í öðru sæti varð Lilja Dögg Ágústsdóttir á Stanley frá Hlemmiskeiði 3 og Björg Ingólfsdóttir á Kjuða frá Dýrfinnustöðum varð þriðja.

Samanlagðir sigurvegarar

Í fullorðinsflokki varð Ásmundur Ernir Snorrason samanlagður sigurvegari bæði í báðum greinum. Í fjórgangsgreinum sigraði hann á Hlökk frá Strandarhöfði eftir frábæra frammstöðu í slaktaumatölti og fjórgangi. Í fimmgangsgreinum var það Askur frá Holtsmúla sem fleyttir Ásmundi hátt í fimmgangi, tölti og gæðingaskeiði.

Samanlagður sigurvegari í fjórgangsgreinum í ungmennaflokki varð Þórey Þula Helgadóttir og Hrafna frá Hvammi. Samanlagður sigurvegari í fimmgangsgreinum í ungmennaflokki varð Þórgunnur Þórarinsdóttir á Djarfi frá Flatatungu.

Íslandsmótunum í hestaíþróttum 2024 er þar með lokið. Yngri flokka mótið fór fram á vegum hestamannafélagsins Harðar í Mosfellsbæ og eldri flokka mótið á vegum hestamannafélagsins Fáks í Víðidal. Landssamband hestamannafélga þakkar öllum knöpum sína þátttöku á glæsilegum mótum og kann mótshöldurum bestu þakkir fyrir sitt framlag við að halda mótin með miklum sóma.

Fréttasafn

8. ágúst 2025
Forkeppni í fjórgangi er nú lokið. Ísland átt fimm fulltrúa, þrjá í fullorðinsflokki þau Helgu Unu Björnsdóttur og Ósk frá Stað, Aðalheiði Önnu Guðjónsdóttur og Hulinn frá Breiðstöðum og Jóhönnu Margréti Snorradóttur og Össu frá Miðhúsum. Í ungmennaflokk kepptu fyrir Íslands hönd þau Herdís Björg Jóhannsdóttir og Kormákur frá Kvistum og Védís Huld Sigurðardóttir og Ísak frá Þjórsárbakka. Herdís og Kormákur riðu á vaðið fyrir hönd íslensku keppendanna en lukkan var ekki í liði með þeim í dag því Kormáki fipaðist á yfirferðinni og útkoman var 5,87. Næst í braut af íslensku keppendunum komu þau Védís Huld Sigurðardóttir og Ísak frá Þjórsárbakka en þau voru í feikna stuði og hlutu í einkunn 7,07 og eru önnur inn A-úrslit ungmenna. Þriðjar í braut íslensku keppendanna voru þær Helga Una Björnsdóttir og Ósk frá Stað með stórglæsilega sýningu sem skilaði þeim 7,47 og beint inn í A-úrslit. Fjórðu í braut af íslensku keppendunum voru síðan Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir og Hulinn frá Breiðstöðum en því miður missti Hulinn skeifu og þau hlutu ekki einkunn. Fimmtu í braut komu loks Jóhanna Margrét Snorradóttir og Assa frá Miðhúsum og enduðu þær með 7,07 og lönduðu þar með sæti í B-úrlitum. Af íslensku knöpunum eigum við því í fullorðinsflokki einn í A-úrslitum og einn í B-úrslitum, og í ungmennaflokki er einn í A-úrslitum. Anne Stine Haugen og Hæmir frá Hyldsbæk leiða fullorðinsflokkinn með yfirburðum en þau hlutu hvorki meira né minna en 8,20 fyrir sína mögnuðu sýningu en þau keppa fyrir hönd Noregs. Eiðfaxi hitti Anne Stine eftir þeirra sýnungu sem sjá má á fréttasíðu Eiðfaxa en hjá Eiðfaxa er að finna fjölmörg stórskemmtileg viðtöl við knapa að loknum sýningum sem og gesti og gangandi. Næst á dagskrá er yfirlit fyrir 7 vetra og eldri hryssur og stóðhesta. Þar eigum við tvo fulltrúa þau Eind frá Grafarkoti, sýnandi Bjarni Jónasson og Hljóm frá Auðsholtshjáleigu, sýnandi Árni Björn Pálsson. Eind hlaut 8,41 í fordómi og var þriðja hæst í sínum flokki. Hljómur frá Auðsholtshjáleigu var hæstur í sínum flokki eftir fordóm með 8,77 í aðaleinkunn. Það verður því einkar spennandi að fygjast með þeim á eftir.  Í kvöld fara svo fram seinni tveir sprettirnir í 250m skeiði. Þar eigum við fimm fulltrúa og sem stendur eiga þau Kristján Árni Birgisson og Krafla frá Syðri-Rauðalæk besta tímann í ungmennaflokk en þau hlupu á tímanum 22,38 sek. Í fullorðinsflokki eiga þeir Sigursteinn Sumarliðason og Krókus frá Dalbæ annan besta tímann eða 21,97 sek. Það verður því spennandi að sjá hvernig þeim og restinni af íslenska hópnum gengur í kvöld.
7. ágúst 2025
Þá er forkeppni í fimmgangi lokið, við áttum fimm fulltrúa, þrjá í fullorðinsflokki og tvo í ungmennaflokki.
7. ágúst 2025
Eftir yfirlit í flokki fimm og sex vetra kynbótahrossa standa þrjú af fjórum hrossum frá Íslandi efst í sínum flokki.
7. ágúst 2025
Kristján Árni og Sigursteinn standa efstir íslensku keppendanna
7. ágúst 2025
Árni Björn leiðir í tölti með miklum yfirburðum
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 6. ágúst 2025
Þá er forkeppni í slaktaumatölti lokið. Þar átti Ísland fjóra fulltrúa, þrjá í fullorðinsflokki og einn í ungmennaflokki.
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 6. ágúst 2025
Ísland landaði sínum fyrsta heimsmeistaratitli á HM 2025
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 6. ágúst 2025
Heimsmeistaramót Íslenska hestsins hófst á kynbótadómum.
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 4. ágúst 2025
Sig­ur­björn seg­ir alla hest­ana vera í góðu standi eft­ir ferðalagið. Hann bend­ir einnig á mik­il­vægi þess að styðja við bak liðsfé­lag­anna þegar keppn­in hefst á morg­un.
Eftir Unnur Rún Sigurpálsdóttir 4. ágúst 2025
Heims­meist­ara­mót ís­lenska hests­ins hefst með form­leg­um hætti í fyrramálið og kynbótadómum.
Lesa meira