Þrír dagar í fyrstu grein á HM

5. ágúst 2023

Nú er heldur betur farið að styttast í að mótið hefjist. Allt íslenska teymið er komið á staðinn og stuðningsmennirnir farnir að tínast inn. Aðstæður í Orischot eru góðar en töluvert hefur ringt síðustu daga og urðu keppendurnir okkar meðal annars að taka á það ráð að grafa skurði til að veita vatni frá hesthúsunum. Í gær fengu knaparnir fyrstu æfinguna á keppnisvellinum. Völlurinn hér er töluvert umfangsmeiri en hestarnir okkar eiga að venjast og því mikilvægt fyrir þá að fá tækifæri til að taka út aðstæður fyrir stóru stundina. Knaparnir hafa verið duglegir síðan þeir komu á staðinn að labba og hjóla með hestana en nú eftir því sem nær dregur þéttist prógrammið og athygli og fókus skerpist enn frekar og við taka hnitmiðaðar æfingar. 

Það er mikill hugur í liðinu og stemningin er góð. Hér eru allir mættir til að gera sitt besta og rúmlega það. Hestarnir komu allir vel undan flutningum og virðast kunna vel við sig, enda má segja að veðrið sem tók á móti þeim hafi verið afar heimilislegt. Teitur Árnason var kosinn fyrirliði af hópnum og hefur sinnt því hlutverki vel síðustu daga og þjappað hópnum saman. Nú eru þrír dagar í að keppni hefjist. Mótið mun byrja á kynbótasýningu á þriðjudaginn kl 9:00. Þann daginn verður einnig keppt í í gæðingaskeiði. Allt mótið verður sent út í beinu streymi á Alendis. 

Vegna þess hversu mikið hefur ringt er uppsetning á svæðinu aðeins á eftir áætlun. Allt púður var sett í að koma keppnisaðstöðunni og hesthúsunum upp, en aðrir innviðir eru skemur á veg komnir, hér er þó mikið af öflugum sjálfboðaliðum sem leggja nótt við dag að koma aðstöðunni upp og gangi veðurspáin eftir eru allar líkur á að svæðið verðið orðið hið glæsilegasta þegar mótið veður sett.

En það eru ekki bara mörg handtök sem sjálfboðaliðarnir á mótssvæðinu þurfa að inna af hendi. Í kringum íslenska liðið er sterkt og öflugt teymi starfsmanna og sjálfboðaliða, sem hafa á undanförnum vikum og mánuðum unnið sem einn maður að því að undirbúa ferðina og munu halda áfram að styðja við knapana nú þegar mótið er um það bil að hefjast. Í teyminu eru: Berglind Karlsdóttir framkvæmdastjóri LH, Drífa Daníelsdóttir stílist og allt muligt manneskja, Erlendur Árnason járningamaður, Hinrik Sigurðsson Starfsmaður LH og afreksstjóri Jónína Sif Eyþórsdóttir starfsmaður LH og upplýsingafulltrúi, Kristinn Skúlason formaður landsliðsnefndar, Matthias Rettig dýralæknir og Stefán Logi Haraldsson fulltrúi landsliðsnefndar LH.

Þjálfarateymið skipa Sigurbjörn Bárðarson A-landsliðs þjálfari og Hekla Kristinsdóttir Landsliðsþjálfari U21. Aðstoðaþjálfarar eru Sigurður Matthíasson, en hann býr að gífurlegri reynslu og hefur farið á hvert einasta HM síðan 1993 og Þórarinn Eymundsson deildarstjóri Hestafræði deildar og við Hólaskóla.

Umgjörðin í kringum liðið er eins og best verður á kosið og fókusinn hjá knöpunum er áþreifanlega skarpur. Liðsfundirnir og æfingar eru vel undirbúnar og markvissar. Það er klárt mál að þessi hópur mun setja allt í sölurnar til að ná markmiðum sínum og vera liðinu og landinu til sóma.

Fréttasafn

10. september 2025
Dagana 21. til 23. nóvember nk. verður haldið leiðtoganámskeið FEIF sem ætlað er ungmennum á aldrinum 18-26 ára. Námskeiðið er á vegum Danska Íslandshestasambandsins (DI) og er haldið í Gringdsted Landbúnaðarskólanum í Billund í Danmörku. Yfirskrift námskeiðsins er „Fighting Fit – Conflict, Fitness & Teamwork in Action“ og markmiðið er að hvetja ungmenni til að taka þátt í félagsstörfum í hestamennsku og að þátttakendur efli færni sína sem leiðtogar. Aðalfyrirlesarar verða Rebekka Hyldgaard, sjúkraþjálfari, sem fjallar um hvernig líkamsþjálfun getur bætt árangur í reiðmennsku, og Professor Janne Winther Christensen frá Aarhus University sem fjallar um nýjustu rannsóknir um „ animal conflict behaviour “. Þátttaka í viðburði sem þessum gefur frábæra reynslu, skapar tengsl og styrkir þátttakendur til frekari leiðtoga og ábyrgðarstarfa innan hestamannafélaganna. Við hvetjum hestamannafélögin til að hvetja fulltrúa sína til þátttöku á þessu námskeiði og minnum á mikilvægi þess að efla ungt fólk til þátttöku í nefndum og störfum innan félaganna til að efla nýliðun ásamt því að móta leiðtoga framtíðarinnar. Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna á heimasíðu FEIF. Umsóknarfrestur er 15. október 2025 . Námskeiðið hefst föstudaginn 21. nóvember kl 16:00 og endar sunnudaginn 23. nóvember kl 13:00. Kostnaður er 200€ og innifalið í því er gisting, matur og fræðsla.
10. september 2025
Landssamband hestamannafélaga auglýsir til umsóknar eftirfarandi mót: · Íslandsmót fullorðinna og ungmenna 2028 · Íslandsmót barna og unglinga 2028 · Íslandsmót í gæðingalist 2026 (innanhússmót sem haldið skal fyrir 15. maí) · Áhugamannamót Íslands 2026 Dagsetningar mótanna eru ákveðnar í samráði við mótshaldara og að teknu tilliti til dagsetninga annarra móta. Á Íslandsmóti fullorðinna og ungmenna er keppt í íþróttakeppni í efsta styrkleikaflokki þar sem keppendur eru einir inni á vellinum í einu. Á Íslandsmóti barna og unglinga er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni. Á Íslandsmóti í gæðingalist er keppt í öllum aldursflokkum og skal mótið haldið fyrir 15. maí 2026. Á Áhugamannamóti Íslands er keppt í íþróttakeppni og gæðingakeppni í 1., 2. og 3. flokki. Umsóknir áhugasamra mótshaldara skulu berast Landssambandi hestamannafélaga fyrir 1. október nk. á netfangið lh@lhhestar.is .
14. ágúst 2025
Hörður Hákonarson hestamaður og alþjóðlegur hestaíþróttadómari í Reykjavík er látinn.
13. ágúst 2025
Til hamingju Ísland með frábært landslið
13. ágúst 2025
Úrslit í fjórgangi & fimmgangi
10. ágúst 2025
Þvílíkur morgunn!!!
10. ágúst 2025
Þá eru B-úrslitum lokið og ljóst hvaða keppendur bæta sér í toppbaráttuna í hverjum flokki.
10. ágúst 2025
Kristján Árni tvöfaldur heimsmeistari
9. ágúst 2025
Kristján Árni - Heimsmeistari
8. ágúst 2025
Niðurstöður úr kynbótasýningum sjö vetra og eldri hrossa
Lesa meira